Fréttabréf Engidalsskóla mars 2022
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Fréttabréf Engidalsskóla
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Í mánaðarlegum fréttabréfum skólans reynum við að gefa ykkur einhverja innsýn í það sem við erum að fást við hér í Engidalsskóla. Nú þegar búið er að létta af öllum hömlum viljum við láta ykkur vita að þið eruð alltaf velkomin í skólann. Hér safnast alltaf töluvert af óskilamunum og hvetjum við ykkur til að koma við ef þið saknið einhvers.
Síðasta dag marsmánaðar og fyrsta apríl ætlum við að halda árshátíð í Engidalsskóla og bjóða foreldrum/forsjáraðilum að koma og horfa á leiksýningu. Við verðum með fjórar sýningar og vonum að þið sjáið ykkur fært að mæta. Yfirskrift árshátíðarinnar þetta árið er Astrid Lindgren og fá árgangarnir frjálsar hendur með að vinna með sögur hennar. Þessir dagar eru skertir dagar í skólanum og líkur skóla upp úr kl. 12 þessa daga en nemendur í 1.-4. geta farið í Álfakot um leið og skóla lýkur. Dagana fyrir árshátíðina ætlum við að brjóta skólastarfið aðeins upp og þá verða ekki íþróttir eða smiðjur heldur fer allur tími og orka í undirbúning árshátíðar.
Búið er að reyna að skipuleggja skíðaferð fyrir miðstigið en veðrið hefur ekki verið okkur sérlega hliðhollt. Við eigum næst pantað í Bláfjöllum 18. mars en við sendum ykkur póst með ítarlegum upplýsingum þegar við vitum hvort það gengur upp.
Að lokum minnum við ykkur á mikilvægi heimaþjálfunar í lestri, en rannsóknir sýna að hún getur algjörlega skipt sköpum fyrir nemandann hvað varðar nám hans og tækifæri í framtíðinni.
Með bestu kveðju stjórnendur Engidalsskóla.
Árshátíð Engidalsskóla 31. mars og 1. apríl
Upplestrarkeppni í 7. bekk
Á dögunum var undankeppnin fyrir Stóru upplestrarkeppnina. Margir nemendur í 7. bekk tóku þátt og stóðu sig með stakri prýði, bæði í upplestri og ekki síður sem hlustendur. Dómnefnd valdi þrjá fulltrúa, tvo sem taka þátt í aðalkeppninni sem fer fram í Víðistaðkirkju síðar í þessum mánuði og einn fulltrúa til vara.
Heimanám
Hér má svo sjá úrklippu úr læsisstefnu Engidalsskóla
Markmið með heimalestri er að auka þjálfun í lestri. Góður stuðningur heima skiptir miklu máli. Forráðamenn eru góðar fyrirmyndir þegar kemur að bókalestri.
Hlutverk foreldra Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla (2013) ber foreldrum að taka þátt í námi og starfi barna sinna og axla ábyrgð á menntun þeirra en forsenda þess er gott samstarf og upplýsingagjöf á milli heimilis og skóla (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2013, bls. 45). Heimalestri skal sinnt fimm sinnum í viku, lesa nemendur upphátt fyrir fullorðin aðila í 10 – 15 mínútur.
Bókasafn Engidalsskóla
Rúmlega 110 bækur voru keyptar á bókamarkaði á dögunum og bíða nú merkingar og plöstunar. Nemendur bíða mjög spenntir og finnst þetta ganga hægt hjá bókasafnsfræðingnum sem reynir þó sitt besta. Þessar bækur eru að bætast við þær rúmlega 600 bækur sem keyptar hafa verið á síðustu 15 mánuðum. Við erum himinsæl með bókasafnið okkar sem er orðið mjög flott og mikið magn af nýjum bókum. Nemendur Engidalsskóla eru líka duglegir að lesa og allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á safninu.
Síðustu tvær vikur hefur 1. bekkur verið að vinna skemmtilegt verkefni með mér hér á safninu eða svokallaða "stýrða teikningu". Fyrst hlusta þau á söguna af Nönnu norn og Nirði. Síðan teikna ég línu fyrir línu og þau gera eins. Svo halda þau áfram og gera teikninguna að sinni. Útkoman er alltaf dásamleg.
Áhugasvið
Skemmtilegar myndir úr smiðjuvinnu nemenda
Nestismál
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433