Heiðarskóli
8 vikur liðnar af skólaárinu.
Kveðja frá skólastjóra
Kæru foreldrar/forráðamenn.
Nú er skólastarfið komið á fullt skrið og mikið líf sem hér er í gangi á hverjum degi. Við höfum verið að finna skólataktinn okkar eins og við gerum á hverju hausti og minna á samvinnu, samskipti og áherslur í námi. Allt gengur þetta ágætlega en í stóru skólasamfélagi eins og er í Heiðarskóla koma reglulega upp atvik sem þarf að leysa. Þar skiptir miklu máli að í slíkum tilvikum sé gott og traust samstarf á milli heimila og skóla, að við vinnum saman að lausn mála, þannig næst alltaf betri árangur. Við finnum sannarlega meðbyr og hvað við eigum gott samstarf við ykkur foreldra og skólasamfélagið allt. Þegar allir leggjast á eitt að eiga góð samskipti aukast líkur á að öllum líði vel og þyki gaman í skólanum.
Með samstarfskveðju
Lóa Björg Gestsdóttir
Skólastjóri Heiðarskóla
Markmiðasetningardagur
Þann 26. september var markmiðasetningardagur hjá okkur, þar sem foreldrar og nemendur áttu fund með umsjónarkennara. Nemendur í samvinnu með foreldrum höfðu sett markmið fyrir veturinn sem farið var yfir á fundinum og einnig voru önnur mál rædd. Það er líka mikilvægt að heyra raddir foreldra um skólastarfið og eiga samtalið um það.
Þessi dagur gekk mjög vel og var frábær mæting. Markmið nemenda fyrir veturinn klár sem verða svo endurmetin reglulega.
Heilbrigðis- og forvarnarvika
Dagana 2. - 6. október var heilbrigðis- og forvarnarvika í Heiðarskóla. Ýmislegt var gert, til dæmis var nemendaráð með leiki fyrir yngri nemendur, kennarar fóru með bekknum í námstengda göngutúra og einnig í ýmsa leiki og svo tóku allir nemendur þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Ávaxtadagur var á fimmtudeginum og íþróttafatadagur á föstudeginum. Krissi lögga kom einnig í heimsókna á föstudeginum og var með kynningu og fræðslu fyrir alla bekki. Vikan gekk vel fyrir sig með skemmtilegu uppbroti.
FRAMUNDAN
Bleikur dagur
Miðvikudaginn 18. október ætlum við að hafa bleikan dag í skólanum. Við hvetjum nemendur og starfsfólk að klæðast einhverju bleiku þann dag og við ætlum að lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma.
Vetrarfrí og starfsdagar
Föstudaginn 20. október og mánudaginn 23. október er vetrarfrí í skólanum. Þriðjudaginn 24. október og miðvikudaginn 25. október eru svo starfsdagar í Heiðarskóla. Þessa daga ætlar hluti starfsmanna að fara á námskeið í Berlín og annar hluti að vinna að starfinu hér heima.
Á heimsíðu skólans, www.heidarskoli.is er að finna allar helstu upplýsingar um skólann og skólastarfið. Þar er m.a. skólanámskrá,skóladagatal, matseðil, leyfisbeiðnir og ýmis annar fróðleikur.