
Fréttabréf Garðaskóla
September 2016 - 40. árgangur - 1. tölublað
Uppbygging á afmælisári
Kæru nemendur, forráðamenn og starfsfólk í Garðaskóla.
Skólaárið hefur farið ákaflega vel af stað í haust. Nemendur eru jákvæðir og tilbúnir til samstarfs og starfsfólk sömuleiðis.
Í sumar voru gerðar breytingar á efri hæð skólans. Þar hefur kennslustofum fjölgað og vinnuaðstaða verið bætt í fjölmörgum rýmum. Bókasafn skólans verður í bráðabirgðahúsnæði í vetur en skólinn hefur óskað eftir því að sumarið 2017 verði byggt nýtt og stórt upplýsingaver sem mun taka við starfsemi bókasafnsins og tölvustofa. Ný aðstaða á að hýsa nútíma skólastarf þar sem upplýsingatækni er nýtt á fjölbreyttan máta.
Í upphafi vetrar höfum við lagt mikla áherslu á að góð skólasókn og ástundun náms er lykillinn að góðum árangri í námi og félagslífi. Við höfum breytt verkferlum varðandi skráningu ástundunar og eftirfylgni mála og biðjum foreldra um að athuga mjög vel eftirfarandi atriði:
- Kennarar skrá ástundun í Námfús sem er mikilvægt samskiptatæki skóla og heimila. Ef forráðamenn vantar lykilorð að Námfúsi hafa þeir samband við skrifstofu skólans sem aðstoðar.
- Ástundunarskráning er staðreyndarskráning sem best er fyrir alla að hafa sem réttasta. Ástundunaryfirlit er sent til foreldra á hverjum mánudagsmorgni og fá foreldrar þá rúmlega sólarhringsglugga til að útskýra skráðar fjarvistir og leiðrétta ef mistök hafa átt sér stað. Ef athugasemdir berast ekki til skrifstofu innan sólarhrings frá útsendingu yfirlits stendur skráningin.
- Veikindi þarf að tilkynna hvern veikindadag. Ef veikindi dragast á langinn eða eru ítrekuð kallar skólinn eftir læknisvottorði til skýringar.
- Leyfi þarf að biðja um fyrirfram. Fyrir 1-2 daga er nóg að hafa samband við skrifstofu skólans (ekki umsjónarkennara). Ef leyfisdagar eru fleiri en 2 þarf að sækja um það á vef skólans og svarar aðstoðarskólastjóri Ingibjörg Anna Arnarsdóttir þeim beiðnum.
Garðaskóli á stórafmæli í vetur. Þann 11. nóvember næstkomandi höldum við upp á 50 ára afmæli. Nemendur munu skipuleggja stóra afmælisveislu með okkur og stefnt er að því að hafa opið hús í skólanum þannig að eldri nemendur og Garðbæingar allir geti litið í heimsókn og rifjað upp gamla tíð.
Við hlökkum til afmælisins og samstarfsins við ykkur öll í vetur,
Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri
Vel sóttar námskynningar
Við þökkum forráðamönnum góða mætingu og mikilvæg samtöl á námskynningu sem fram fór í skólanum fimmtudaginn 8. september. Kennarar tóku á móti gestum á kynningarborðum á sal skólans, sýndu námsefni og sögðu frá kennsluáætlunum vetrarins. List- og verkgreinakennarar buðu forráðamönnum að heimsækja sig í kennslustofur þar sem hægt var að skoða þá vinnuaðstöðu sem nemendur nýta til list- og verknáms. Á námskynningunni var lögð áhersla á að kynna skyldunámsgreinar í skólanum en valgreinar verða kynntar eftir áramótin.
Þeir sem misstu af viðburðinum geta kynnt sér innihald náms í kennsluáætlunum sem birtar eru á vef skólans. Kennsluáætlanir lýsa hæfnimiðuðu námi eins og áætlað er að það fari fram í vetur. Áætlanir eru lifandi plögg og taka breytingum yfir veturinn enda er starfið mótað í samráði kennara og nemenda.
Námsmat er í mikilli þróun í Garðaskóla eins og öðrum íslenskum skólum. Unnið er að því að uppfæra skólanámskrá til samræmis við Aðalnámskrá grunnskóla. Menntamálastofnun stendur að upplýsingavef um námsmat sem við hvetjum alla nemendur og forráðamenn til að fylgjast með: http://vefir.nams.is/namsmat/index.html
Samskipti og skólaandi
Gildi skólans
Kjarninn í skólabrag Garðaskóla birtist í fjórum gildum skólans:
Frelsi
Ábyrgð
Vellíðan
Árangur
Jafnvægi milli frelsis og ábyrgðar er forsenda þess að nemendum líði vel og nái góðum árangri í námi og öðru starfi skólans. Nánar má lesa um gildi Garðaskóla á heimasíðu skólans.
Yndislestur
Mikil áhersla verður lögð á yndislestur í Garðaskóla á komandi skólaári. Fyrirkomulagið verður þannig að allir nemendur og starfsmenn lesa í 20 mínútur á hverjum degi, allir á sama tíma, lesefni að eigin vali. Yndislestrinum er ætlað að skapa meiri lestrarstemningu innan skólans, stuðla að auknum lestri og efla áhuga og lestrarfærni nemenda.
Tímasetningin mun rúlla milli kennslustunda vikulega. Nemendur geta komið með lesefni að heiman, fengið lánaðar bækur á bókasafni Garðabæjar eða á bókasafni skólans. Rétt er að taka fram að bókasafn skólans verður ekki opið fyrir almenn útlán, vegna breytinga á húsnæði skólans, fyrr en um miðjan september.
Nemendur þurfa að vera með lesefni í töskunni þegar þeir mæta í yndislestrarstundina. Ef nemandi er ekki með bók skrá kennarar meldingu á Námfús „án yndislestrarbókar“. Ef sami nemandi fær ítrekaðar merkingar verður brugðist við því. Við köllum eftir aðhaldi og hvatningu frá foreldrum. Við biðjum foreldra um að sýna lestrinum áhuga t.d. með því að minna nemendur á að vera með lesefni í töskunni, aðstoða við val á lesefni og ræða um bókina sem verið er að lesa.
Lesblindir nemendur mega hlusta á hljóðbækur og nota síma/spjaldtölvur/mp3 spilara og heyrnartól til þess að hlusta. Við biðjum foreldra lesblindra nemenda að aðstoða þá við að hala niður hljóðskrám á tækin. Allir nemendur sem hafa formlega greiningu á lesblindu hafa aðgang að Hljóðbókasafninu http://www.hljodbokasafn.is/ en þar má finna mikinn fjölda hljóðbóka.
Frá stjórn Foreldrafélags Garðaskóla
Kæru foreldrar/forráðamenn.
Nú er skólinn hafinn að nýju eftir sumarfrí. Á vorin er gott að breyta til og komast í frí og að hausti er gott að komast aftur í rútínu. Aldrei er góð vísa of oft kveðin og það á sannarlega við um mikilvægi þess að unglingarnir okkar fái næga hvíld og að fjölskyldur hafi tækifæri til góðra samvista á komandi vetri. Rannsóknir hafa sýnt að unglingar vilja verja tíma með foreldrum sínum og sú samvera eykur vellíðan barns og ýtir undir þátttöku í uppbyggilegu félagsstarfi.
Tími barna okkar í Garðaskóla er stuttur en mikilvægur. Þau stíga stór skref til sjálfstæðis þar sem þau fá aukið frelsi og þurfa á sama tíma að bera meiri ábyrgð. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að í skólum þar sem foreldrar eru virkir í samstarfi við bæði skóla og aðra foreldra, þar sem foreldrar þekkja aðra foreldra og vini barna sinna eru minni líkur á því að hver einstakur nemandi neyti áfengis og meiri líkur á því að hann fái góðar einkunnir, óháð því hvort að foreldrar hans tilheyra þessu tengslaneti foreldra eða ekki. Þannig að þátttaka í foreldrastarfi skóla hefur ekki aðeins jákvæð áhrif á okkar eigin börn heldur einnig á nærsamfélag okkar í heild.
Aðalfundur verður haldinn 27. september kl. 20.00 í Garðaskóla og þá gefst ykkur tækifæri til að taka þátt í því skemmtilega starfi sem foreldrafélagið býður upp á auk þess að víkka út tengslanetið og kynnast fleiri áhugasömum og jákvæðum foreldrum. Endilega mætið á fundinn hvort sem þið viljið taka formlega þátt í stjórn foreldrafélagsins eða bara hitta aðra foreldra. Starf bekkjarfulltrúa er ekki síður mikilvægt en þeir eru mikilvægir tengiliðir milli foreldra í bekknum, skólans og nemendanna.
Við hlökkum til að sjá sem flesta á aðalfundinum. Bendum ykkur einnig á að smella like á facebook síðuna okkar (https://www.facebook.com/foreldrafelag.gardaskola).
Kær kveðja frá stjórn foreldrafélags Garðaskóla
Garðalundur
Garðalundur heldur uppi félagslífi unglinganna í Garðaskóla og náið samstarf er á milli skólans of félagsmiðstöðvarinnar. Dagskrá félagsmiðstöðvarinnar hefst um miðjan september og er auglýst jafnóðum á vefsíðu Garðalundar, sem og fésbókarsíðu Nemendafélagsins. Skipulag dagskrár er í höndum nemenda í félagsmálafræði og starfsmanna Garðalundar. Kvöldstarfið er ætlað nemendum í 8.-10. bekk og eru reglur um samskipti og umgengni samræmdar milli Garðalundar og Garðaskóla.
Beinn sími félagsmiðstöðvarinnar er 590-2575.
Netfangið er gardalundur@gardalundur.is
Forstöðumaður Garðalundar er Gunnar Richardson.
590-2570
Náms- og starfsráðgjöf í Garðaskóla
Náms- og starfsráðgjöf í Garðaskóla er fræðsla eða ráðgjöf sem veitt er einstaklingi eða hópi við val á námsleiðum eða störfum.
Ráðgjöfin miðar að því að nemendur efli og þroski þekkingu á sjálfum sér, námsleiðum, störfum og atvinnulífi til að auðvelda ákvörðun um nám eða starf að loknum grunnskóla.
Aðstoð námsráðgjafa felst m.a. í:
viðtölum
upplýsingum og upplýsingaöflun um skóla, nám, störf og atvinnulíf
könnun á áhugasviðum, gildismati, hæfileikum o.fl.
að kenna leikni við ákvarðanatöku
að kunna að afla sér upplýsinga sem nýtast við val á námi eða starfi
Garðaskóli tekur þátt í verkefninu „Gegn einelti í Garðabæ” sem er samstarfsverkefni grunnskóla bæjarins. Markmið verkefnisins er að koma á samræmdum vinnubrögðum til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, bæta líðan og öryggi nemenda og skólabraginn í heild. Í eineltisáætlun Garðabæjar er birt skilgreining á einelti, hvernig starfsmenn eiga að bregðast við og vinna með það. Allir starfsmenn skólans taka þátt í verkefninu.
Í skólanum er starfrækt eineltisteymi sem situr einnig í verkefnastjórn „Gegn einelti í Garðabæ“.
Ef grunur vaknar um einelti gagnvart þínu barni eða öðrum er mikilvægt að vitneskja um það berist til skólans sem fyrst. Einelti ber að tilkynna með formlegum hætti og með því að fylla út þar til gert eyðublað. Farið er eftir ákveðnu vinnuferli í meðferð eineltismála.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um náms- og starfsráðgjöf á heimasíðunni.
Námsráðgjafar í Garðaskóla eru Ásta Gunnarsdóttir og Auður Sigurðardóttir.
Upplýsingar um viðtalstíma námsráðgjafa eru veittar á skrifstofu skólans í sími 590 2500.
Námfús
Áfram verður notast við Námfús á komandi skólaári en þar geta forráðamenn og nemendur m.a. nálgast upplýsingar um daglegt skólastarf, verkefni og próf og samskipti við kennara. Ennþá verður unnið að úrbótum í vetur til að námsvefurinn standi undir öllum þeim kröfum sem skólinn gerir til hans. Við biðjum nemendur og forráðamenn að beina öllum athugasemdum til umsjónarkennara, sem koma þeim áfram til vefumsjónarmanns.
Allir nemendur og forráðamenn eiga að fá sent lykilorð í tölvupósti til að komast inn á vefinn. Ef lykilorð hefur af einhverjum ástæðum ekki borist skal hafa samband við Hildi Rudolfdóttur, kennsluráðgjafa (hildurr@gardaskoli.is) með upplýsingum um fullt nafn og netfang (sem og nafn og bekk nemanda, ef um aðstandanda er að ræða).
Við minnum á að mikilvægt er að fara yfir tengiliðaupplýsingar í Námfúsi, svo sem símanúmer, heimilisfang og netföng aðstandenda. Skráðir aðstandendur geta breytt og bætt við upplýsingum eftir þörfum.
Notið hjálm!
Meira en helmingur nemenda Garðaskóla kemur í skólann á reiðhjólum eða rafhjólum. Við minnum á lögbundið, einfalt og mjög mikilvægt öryggisatriði: Notið hjálminn!
Sjúkra-próf
Snjall-tæki
Hagnýtar upplýsingar á heimasíðu Garðaskóla
Á vefsíðu Garðaskóla eru upplýsingar um starf skólans alltaf aðgengilegar. Í upphafi skólaárs er gott að líta á eftirfarandi:
Skóladagatal 2016-2017 (síðast uppfært 12. september)
Nauðsynleg skólagögn 2016-2017
Nöfn starfsmanna (netföng má nálgast í Námfúsi)
Punktakerfi um ástundun og hegðun
Nýir starfsmenn í Garðaskóla
Ásta
Ragnheiður Ásta Guðnadóttir náttúrufræðikennari, kölluð Ásta, er menntaður næringarfræðingur og með kennsluréttindi í grunn – og framhaldsskóla. Hún kenndi um tíma í framhaldsskóla en hefur einnig starfað við næringarráðgjöf og fræðslu tengt næringarfræðinni. Ragnheiður Ásta er gift, á fjögur börn og einn hund.
Bettý
Margrét Betty Jónsdóttir, kölluð Bettý, kemur í Garðaskóla úr unglingadeild Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Þar hefur hún kennt síðan hún útskrifaðist sem grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands árið 2002. Bettý tók við starfi fagstjóra í náttúrugreinum í ágúst.
Jolita
Kristian
Sónia
Sónia. D. Da C. Leite Felizardo fluttist til Íslands 2007 frá Portúgal. Hún byrjaði strax að vinna sem skólaliði í Sjálandsskóla en flutti sig í haust í Garðaskóla. Sónia er menntuð sem innanhúsarkitekt en núna er hún á fullu að læra íslensku.
Garðaskóli
Kl. 7:30-15:30 mán-fim
Kl. 7:30-15:00 fös
Starfsmenn skrifstofu:
Anna María Bjarnadóttir ritari
Svanhildur Guðmundsdóttir ritari
Email: gardaskoli@gardaskoli.is
Website: www.gardaskoli.is
Phone: 590-2500
Facebook: https://www.facebook.com/Gar%C3%B0ask%C3%B3li-635137559954040/