Fréttabréf forseta DKG
Nóv./des. 2022
Um áramót
Um áramót horfa margir um öxl og fara yfir árið sem er að líða og hvað megi taka með sér af þeirri reynslu sem þá bættist í reynslubankann. Eftir tveggja ára Covid faraldur fögnuðum við að geta aftur hist í raunheimum, mætt á fundi og haldið vorráðstefnu í maí sl. Á framkvæmdaráðsfundi í byrjun sept. sl. kom vel fram hugurinn í nýjum stjórnum að taka upp þráðinn og efla deildirnar sínar með ráðum og dáð – nú er tækifærið! Sumar deildir ætluðu að taka fyrir á þessu starfsári ný lög um farsæld barna sem vissulega snerta skóla- og fræðslustarf en aðrar stefna að því að helga þetta starfsár Heimsmarkmiðum SÞ sem vissulega eru verðug verkefni.
Margar deildir hafa fylgt eftir markmiðum stjórnar um að fjölga í deildunum og að hafa í huga að samsetning deildanna endurspegli þá fjölbreytni sem ríkir í samfélaginu. Verður spennandi að fylgjast með hvernig til tekst að fjölga í samtökum okkar á landsvísu. Deildastarfið er grunnurinn að starfi samtakanna og er undir okkur sjálfum komið að mæta á fundi, taka þátt í undirbúningi fundanna þar sem það á við og sjá til þess að við höldum áfram að fara af fundi öflugri og fullar af eldmóði þegar við finnum hvað fundirnir okkar eru gefandi og fylla okkur af orku og gleði.
Um leið og ég óska öllum félögum í Delta Kappa Gamma á Íslandi gleðilegs árs og óska öllum deildum farsældar, fagmennsku og framsækni í starfi, langar mig til að minna á nokkra viðburði og tímasetningar til að hafa í huga á nýju ári.
Landssambandsþingið á Hótel Örk í Hveragerði 13. og 14. maí nk.
Eins og fram hefur komið verður landssambandsþing DKG á Íslandi haldið á Hótel Örk í Hveragerði dagana 13. og 14. maí nk. Marie-Antoinette deWolf, Evrópuforseti mætir á þingið sem fulltrúi alþjóðasambandsins og Eija Liisa Sokka-Meany frá Finnlandi mun vera með okkur á fjarfundi og fjalla um vellíðan og tónlist. Eija Liisa var kennari við kennaradeild Háskóla Austur-Finnlands í Joensu og kennir á námskeiðum um finnska skólakerfið. Félagskonur í Epsilon á Suðurlandi verða gestgjafar og Hótel Örk hefur boðið afar hagstætt verð fyrir gistinguna. Dagskrá þingsins verður unnin í samráði stjórnar og menntamálanefndar og verður send út í byrjun næsta árs.
Allar DKG-systur eru hvattar til að mæta og nýta þetta tækifæri til að njóta samvista og efla okkar góða félagsanda.
Evrópuráðstefnan í Tampere 26. – 29. júlí 2023.
Eins og fram hefur komið verður haldin alþjóðleg ráðstefna DKG í Evópu sumarið 2023. Ráðstefnan verður að þessu sinni haldin í Tampere í Finnlandi dagana 26. - 29. Júlí nk. Stefnt er að hópferð á ráðstefnuna vegum landssambandsins og verða nánari upplýsingar um það sendar út í byrjun árs. Flestir starfsmenntasjóðir veita styrki vegna þátttöku í ráðstefnum sem þessum þar sem dagskráin er mjög “fagleg og framsækin” eins og vænta má.
Nú er búið að opna fyrir skráningu á erindum á Evrópuráðstefnunni. Vakin er athygli á að þær félagskonur sem fara á Evrópuþing eða alþjóðasambandsþing og eru með erindi, geta sótt um styrk til fararinnar og má nálgast umsóknareyðublað hér.
Frestur til að skrá erindi er til 30. jan. 2023 og tengill til að skrá erindi er hér:
2023 International Conference Presentation Proposal Form - Tampere (google.com)
Einnig er óskað eftir sjálfboðaliðum í ýmis verkefni á meðan á ráðstefnunni stendur en slík verkefni eru mjög til þess fallin að kynnast DKG-systrum í öðrum þátttökulöndum og víkka þar með út tengslanetið. Áhugasamar félagskonur eru hvattar til að skrá sig hér:
Volunteering for International Conferences- July 2023 (google.com)
Námsstyrkir fyrir félagskonur
Eitt af markmiðum DKG er að hvetja félagskonur til framhaldsnáms og starfsþróunar og því bjóðast félögum í DKG ýmis konar styrkir vegna framhaldsnáms og þróunarverkefna sem auglýstir eru á heimasíðu alþjóðasamtakanna í íslensku heimasíðu DKG. Eru félagskonur eindregið hvattar til að fylgjast vel með auglýsingum þar að lútandi.
Frestur til að sækja um styrki til framhaldsnáms á næsta skólaári er til 1. feb. 2023. Félagskonur eru hvattar til að skoða þennan möguleika til að afla sér styrkja vegna framhaldsnáms. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð er að finna hér.
Einnig gefst félagskonum í DKG sem vinna að lokaverkefnum í meistara eða doktorsnámi kostur á að sækja í íslenska námsstyrkjasjóðinn. Veittir eru tveir styrkir að upphæð kr. … á tveggja ára fresti og eru styrkirnir afhentir á landssambandsþingi. Frestur til að sækja um styrk úr íslenska námsstyrkjasjóðum er til 1. mars nk. og eru nánari upplýsingar um sjóðinn hér.
Þekkingarforðinn
Við félagskonur í DKG erum afar stoltar af þeirri faglegu þekkingu og reynslu sem býr í félagskonum okkar. Eitt af markmiðum núverandi landssambandsstjórnar er að fjölga þeim tilboðum sem DKG konur eru tilbúnar til að miðla til annarra t.d. á deildafundum, ráðstefnum, þingum og jafnvel út fyrir raðir samtakanna okkar. Því setti stjórnin sér markmið um að efla Þekkingarforðann á vefnum okkar þar sem félagskonur geti skráð sig á lista með umfjöllunarefni og fyrirlestra sem þær eru tilbúnar til að deila með öðrum þannig að hann nýtist í starfi samtakanna. Félagskonur eru því hvattar til að skrá sig á þann lista og gefa þannig öðrum félagskonum njóta góðs af þeirri sérþekkingu og/eða áhugasviðum sem þær hafa sérstaka þekkingu á eða reynslu af.
Nýlega bættist við tilboð frá Renötu Peskovu í Gammadeildinni um að fjalla um tungumál í skólastarfi og hvernig starfsfólk í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi getur unnið með tungumál barna til þess að efla þau og námið þeirra.
Konur í Íran og öðrum stríðshrjáðum löndum
Nýi Evrópuforsetinn okkar, Marie-Antoinette de Wolf hefur sagt frá því að ein félagskona í DKG í Hollandi sé flóttakona frá Írak og hefur óskað eftir því að deildir í Evrópu taki málefni kvenna í stríðshrjáðum löndum til umfjöllunar.
Hún hefur óskað eftir að deildir taki hópmynd með textanum: WOMEN, LIFE, FREEDOM og senda til Marie-Antoinette, Evrópuforseta á netfangið mac.dewolf@gmail.com svo að hún geti sent myndirnar áfram. Einnig hafa komið fram hugmyndir um að Evrópudeildir DKG sameinist um að styðja við börn sem dvelja í flóttamannabúðum erlendis eða flóttabörn í eigin landi.
Eitt af markmiðum samtakanna okkar er „að fræða félagskonur um það sem efst er á baugi í efnahagsmálum, félagsmálum, stjórnmálum og menntamálum og stuðla með því að vaxandi skilningi og virkri þátttöku þeirra í samfélagi þjóðanna“ og það er því sannarlega í anda okkar samtaka að taka þátt í umræðu um stöðu kvenna í stríðshrjálum löndum og öðrum löndum.