Fréttabréf Naustaskóla
5. tbl. 15. árg 1.maí 2023
Kæra skólasamfélag!
Vorinu gengur fremur illa að ná fótfestu í náttúrunni þetta árið, en í skólanum fara vorverkin hins vegar að verða allsráðandi. Undirbúningur næsta skólaárs mjakast áfram, við erum ekki búin að raða endanlega niður í kennsluteymi næsta árs og þau mál verða ekki endanlega ljós fyrr en eftir miðjan mánuðinn. Gert er ráð fyrir að stundaskrá skólans næsta vetur verði með svipuðu sniði og verið hefur í vetur. Annars er allt gott að frétta úr skólanum, dagskráin í maí inniheldur fasta liði eins og venjulega s.s útskriftarferð 10. bekkjar, frjálsíþróttamót miðstigsnemenda, vorþemadaga en þá kíkjum við m.a. í Kjarnaskóg og vinnum að skemmtilegum verkefnum í skólanum. Síðasta skóladaginn í byrjun júní hristum við saman nýja námshópa, allt eins og við höfum gert undanfarin ár. Skólanum verður síðan slitið 5. júní og fylgir hér í fréttabréfinu nánari dagskrá og skipulag á þeim degi. Við lítum björtum augum til vorsins, sem hlýtur að detta inn hvað úr hverju, og þá verður nú lífið dásamlegt!
Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri
Fréttir frá frístund
Starfsfólk Frístundar Naustaskóla heilsar ykkur á fremur köldum vordegi. Okkur langaði að senda ykkur kveðju og segja aðeins frá aðstöðunni okkar. Daglega tökum við á móti 60-70 börnum og þá getur nú orðið handagangur í öskjunni! 😊 Þau koma til okkar beint frá sínum kennurum, hengja af sér fötin (1. bekkur) við innganginn í Frístund og taka spjaldið sitt af töflunni. Svo er að velja sér svæði, Sólin, Regnboginn, Skýið, Stjarnan, eða fara út í leik. Aðstaðan okkar í Naustaskóla er góð og nægilegt pláss fyrir alla ef dreifingin er góð. Í Sólinni er hægt að lita og föndra ýmislegt, Regnboginn er ætlaður til meiri „sulluverka“ eins og að mála eða vinna með sand, og fleira slíkt. Þar er einnig stór skjár á vegg og þar horfum við á bíó þegar veðrið er ekki eins og við viljum hafa það. Stundum er poppað meira að segja. Í Stjörnunni er unnið með perlur, þar eru listaverkin framleidd eins og enginn sé morgundagurinn! Við ákváðum um áramótin að í Stjörnunni verði eingöngu rólegheit, við höfum fjöldatakmörk og ef barn kýs að hlýða ekki fyrirmælum þar, þá er því vísað fram. Þessi tilraun hefur gefist vel og þarna er nú athvarf fyrir þá sem kjósa rólegheit og minna áreiti. Í Skýinu höfum við nú fengið 5 Ipad vélar og börnin geta óskað eftir skjátíma þar, 15 mín í senn. Við erum með skemmtilega leiki í þessum vélum og oft mikill spenningur að fá að grípa í.
Á miðvikudögum og fimmtudögum er okkur boðið að fara í íþróttasalinn og það er afar vinsælt. Þar er farið í leiki, fótbolta, handbolta, þrautaleiki og svo mætti lengi telja. Þar er líka gott hátalarakerfi og hægt að setja tónlist á.
Vinna okkar með börnunum ykkar er skemmtileg og fjölbreytt. Við reynum að bjóða upp á handverk og föndur eins og tími gefst, en ýmislegt spilar þar inn í eins og íþróttaiðkanir utan skóla og fleira. Við reynum að gera alla daga góða með virðingu og samvinnu að leiðarljósi.
Við látum myndir af svæðinu okkar fylgja. Eins og sjá má, þá mætti alveg vera meira til í barbie dótinu, húsgögn og fleira svo við þiggjum gjarnan slíkt dót ef það liggur í geymslum og safnar ryki. Við eigum þokkalegt magn af spilum og púslum en værum alveg til í að endurnýja þar ef einhver þarf að losa sig við.
Nú þegar veður fer að skána, vonandi, munum við eyða meiri tíma útivið eða eins og hver og einn óskar. Reynt verður að fara í stuttar gönguferðir og rannsóknarleiðangra og fleira skemmtilegt.
Starfsfólk Frístundar óskar ykkur gleðilegs sumars og þakkar fyrir samstarfið í vetur.
Erna Sigmundsdóttir,
forstöðukona Frístundar Naustaskóla.
Dúkkukrókur, heldur tómlegur orðin 😊
Dúkkukrókur
Dúkkukrókur ýmislegt hægt að malla þarna og matreiða fyrir dúkkur og bangsa
Hér er verið að útbúa skip úr pappa í Sólinni.
Foreldrafélag Naustaskóla
Sæl kæru foreldrar/forráðamenn,
Foreldrafélagið hvetur árganga sem eiga eftir að húrra í bekkjarkvöld/samverustund að endilega reyna að koma einhverju á, áður en skóla lýkur.
1., 2. og 3.bekkur hafa þegar haldið húllumhæ og sótt um styrkinn frá foreldrafélaginu, húrra fyrir ykkur !
10. bekkur hefur svo fengið sinn bekkjastyrk greiddan í ferðasjóð útskriftarferðarinnar, líkt og undanfarin ár. Minnum aðra árganga á sjóðinn, 1.000 kr per nemanda sem foreldrafélagið eyrnamerkir bekkjakvöldi/samverustund.
Foreldrafélagið tekur með þökkum við hugmyndum um hvað sé hægt að gera í lok skólaársins, ef þið hnjótið um eitthvað sem ykkur finnst áhugavert/skemmtilegt/fræðandi að endilega senda á okkur, annað hvort í gegnum facebook síðuna okkar - https://www.facebook.com/ForeldrafelagNaustaskola eða senda línu á Fanneyju formann - fanneybergros@gmail.com
Með kærri kveðju og þökkum fyrir samtarfið á skólaárinu, stjórn foreldrafélags Naustaskóla
Farsæld barna
Ganga vel frá hjólum og hlaupahjólum og notum hjálm
Útivistartími breytist í maí
Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu.
Mikilvægt er að fylgja því eftir að börn og unglingar fái nægan svefn. Í því felst m.a. að ganga úr skugga um að þau séu ekki í tölvunni þegar þau eiga að vera komin í rúmið
Skólaslit 5.júní 2023
Hér fyrir neðan er skipulag skólaslitadags:
• Kl. 09:00 mæta nemendur 1,3,5,7 og 9.bekkjar á sal skólans og fara síðan inn á sín svæði.
• Kl. 11:00 mæta nemendur 2,4,6 og 8.bekkjar á sal skólans og fara síðan inn á sín svæði.
Foreldrar/forráðamenn eru velkomnir á skólaslit.
• Frístund er lokuð á skólaslitadaginn.
• Útskrift 10.bekkjar fer fram á sal skólans kl. 15:00 – að henni lokinni er kaffihlaðborð fyrir 10.bekk og aðstandendur auk starfsfólks. Kaffiboðið er í boði foreldra 9. bekkjar en sú skemmtilega hefð hefur skapast í Naustaskóla.
Á döfinni
18. maí - Uppstigningardagur
19. maí - Starfsdagur
24. maí - Smiðjuskil 6.-7. bekkur
26. maí - Smiðjuskil 4. - 5. bekkur
29. maí - Annar í hvítasunnu
30. maí - Vorþemadagur
31. maí - Vorþemadagur
Matseðill maí
Naustaskóli
Email: naustaskoli@akureyri.is
Website: naustaskoli.is
Location: Hólmatún, Akureyri, Iceland
Phone: 4604100