
Fréttabréf Grenivíkurskóla
4. tbl. 4. árg. - apríl 2023
Kæra skólasamfélag
Þá er páskafrí hafið hjá nemendum og starfsfólki, eftir skemmtilega lotu sem einkenndist - sér í lagi síðustu vikurnar - af undirbúningi og framkvæmd Vorskemmtunar. Ávaxtakarfan var sett upp og tókst að okkar mati ákaflega vel. Við þökkum fyrir komuna á sýningarnar og vonum að þið hafið skemmt ykkur vel.
Eftir mikla kuldatíð lengi vel í mars er heldur betur farið að vora, og vonandi að veðrið verði okkur hagstætt það sem eftir lifir skólaárinu. Með betri tíð fara nemendur að hjóla í skólann, sem er hið besta mál, en við viljum minna á að ávallt þarf að nota hjálm þegar hjólað er, og á það við jafnt um hefðbundin hjól sem hlaupahjól og rafhjól.
Skóli hefst aftur hjá nemendum að loknu páskafríi þann 12. apríl. Ég vona að þið eigið góðar samverustundir yfir páskana og hlakka til að fá nemendur aftur í skólann, endurnærða að loknu fríinu og tilbúna í síðustu lotu þessa skólaárs. Gleðilega páska!
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Vorskemmtun
Við viljum þakka öllum sem komu á sýningrnar kærlega fyrir og einnig öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og aðstoðuðu okkur á ýmsan hátt í undirbúningi og við framkvæmd sýninganna. Við vonum að þið hafið öll skemmt ykkur vel og einnig notið góðra veitinga að skemmtun lokinni.
Páskagetraun
Eftir harða keppni voru úrslitin á þá leið að í þriðja sæti var Hilmar Mikael Þorsteinsson með 123 stig, en þeir Jóhann Kári Birgisson og Birgir Húni Haraldsson deildu efsta sætinu með jafnmörg stig - 126 af 150 mögulegum. Þeir sem enduðu í efstu þremur sætunum fengu páskaegg að launum, og við óskum þeim til hamingju með góðan árangur!
Hér getið þið skoðað og spreytt ykkur á gátunum sem lagðar voru fyrir.
Lesið saman
Í upphafi mánaðar breyttum við aðeins út af vananum og fengum nemendur á unglingastigi til þess að setjast niður með nemendum af yngsta stigi og hlusta á þau og aðstoða við lesturinn. Yngstu nemendunum fannst þetta spennandi og stóðu sig vel í lestrinum, og unglingarnir voru að sama skapi til fyrirmyndar við að aðstoða þau sem yngri eru. Notaleg stund og aldrei að vita nema við endurtökum leikinn.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "Aktíf í apríl". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Hér má lesa um þessar tengingar, en í vetur höfum við einmitt kynnt nemendum okkar heimsmarkmiðin og hvað við getum gert til þess að stuðla að því að þau raungerist.
Á döfinni í apríl
- 2. apríl: Pálmasunnudagur
- 6. apríl: Skírdagur
- 7. apríl: Föstudagurinn langi
- 9. apríl: Páskadagur
- 10. apríl: Annar í páskum
- 11. apríl: Starfsdagur - frí hjá nemendum
- 12. apríl: Skóli hefst á ný að loknu páskafríi
- 18. apríl: Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk- undankeppni í Grenivíkurskóla
- 20. apríl: Sumardagurinn fyrsti - frí í skólanum
- 27. apríl: Samskóladagur fyrir 5.-7. bekk í Stórutjarnaskóla
- 27. apríl: Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk - lokahátíð
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Email: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Website: http://www.grenivikurskoli.is
Location: Grenivík
Phone: 414-5413
Facebook: https://www.facebook.com/search/top?q=greniv%C3%ADkursk%C3%B3li