
Fréttabréf Garðaskóla
Ágúst 2019 - 43. árgangur - 1. tölublað
Í þessu fréttabréfi
2. Aðgangur að Innu - Íslykill eða rafræn skilríki
3. Daglegar venjur
4. Samskipti og skólaandi
5. Umgengni um húsnæði skólans
6. Viðburðir framundan
7. Ástundun og skólasókn
8. Náms- og starfsráðgjöf
9. Garðalundur
10. Foreldrafélagið
11. Nýir starfsmenn
12. Nokkrar einfaldar reglur
13. Hagnýtar upplýsingar
14. Skrifstofa Garðaskóla
Velkomin til starfa
Þakkir til foreldra fyrir góða mætingu á kynningarfundi og skólasetningar. Það er mikilvægt að finna hversu sterkur hópur stendur að baki nemendum okkar.
Fyrstu dagar skólaársins hafa gengið mjög vel ef frá eru taldar tafir á opnum matsölu nemenda. Nú er borinn fram hafragrautur í boði skólans kl. 9.05 og við erum ánægð að sjá hversu margir nýta áskrift að heitum mat hjá Skólamat.
Nýir nemendur í 8. bekk eru afslappaðir í starfinu og ganga mjög vel um húsið. Þeir fá daglega hrós frá skólaliðum fyrir góða umgengni. Eldri nemendur hafa gengið beint til verka og starfsfólk leggur sig fram um að fylgjast með námi og velferð allra í húsinu.
Fyrstu vikurnar vinnum við að því að skipa ráð og nefndir í skólanum. Sérstök áhersla er lögð á að nemendur og foreldrar eigi fulltrúa í mikilvægum nefndum og að fulltrúar af báðum kynjum taki þátt í stefnumótun og eftirliti með starfinu. Foreldrar og nemendur sem hafa áhuga á að taka þátt í nefndum á borð við gæðanefnd, heilsueflingarnefnd eða jafnréttisnefnd er bent á að hafa samband við aðstoðarskólastjóra, Ingibjörgu Önnu Arnarsdóttur (ingibjorg@gardaskoli.is). Starfsfólk skólans er að auki alltaf tilbúið að ræða hugmyndir og stöðu mála. Verum í góðu samtali því þannig byggjum við upp skólann eins og við viljum hafa hann.
Við starfsfólkið í Garðaskóla hlökkum mikið til samstarfsins í vetur,
Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri
Starfsfólk Garðaskóla vorið 2019
INNA - Íslykill eða rafræn skilríki
Garðaskóli notast við námsumsjónarkerfið Innu (nam.inna.is) í samskiptum heimila og skóla. Þar má m.a. nálgast upplýsingar um heimavinnu, ástundun og vitnisburð. Nemendur og aðstandendur þeirra hafa að mestu aðgang að sömu upplýsingunum og aðgerðum í kerfinu en þó í gegnum mismunandi notendareikninga. Mikilvægt er að nemendur venjist því að skrá sig inn á sinn reikning.
Í sumar var sú breyting gerð að þörf er á Íslykli eða rafrænum skilríkjum til að komast inn í Innu. Lykilorð eru ekki nothæf lengur og því mikilvægt að allir notendur verði sér út um annað hvort Íslykil eða rafræn skilríki. Rafræn skilríki fyrir einstaklinga undir 18 ára aldri eru einungis veitt í viðurvist foreldra/forsjáraðila í bönkum og sparisjóðum.
Íslykil er hægt að sækja um í gegnum Þjóðskrá Íslands á https://www.island.is/islykill/. Valið er á milli þess að fá Íslykilinn sendan í heimabanka notanda eða með pósti á lögheimili viðkomandi. Við fyrstu innskráningu þarf að breyta Íslyklinum í annað lykilorð sem notandinn velur. Ef lykilorðið tapast þarf að sækja um nýjan Íslykil.
Þar sem Inna er helsta samskiptatæki skólans við aðstandendur er mikilvægt að þar séu skráðar réttar upplýsingar, s.s. símanúmer og netföng. Við biðjum alla um að yfirfara skráningu sína í Innu fyrir veturinn og tryggja að allar upplýsingar séu réttar. Upplýsingum er breytt og bætt við með því að smella á „Stillingar' en þann flipa má finna efst í hægra horni eftir innskráningu.
Á heimasíðu Garðaskóla má nálgast leiðbeiningar fyrir helstu aðgerðir í Innu. Ef þörf er á aðstoð er hægt að hafa samband við skrifstofu skólans í síma 590 2500 eða Hildi Rudolfsdóttur kennsluráðgjafa (hildurr@gardaskoli.is)
Samskipti og skólaandi
Kjarninn í skólabrag Garðaskóla birtist í gildum skólans sem eru: Frelsi - Ábyrgð - Vellíðan - Árangur.
Jafnvægi milli frelsis og ábyrgðar er forsenda þess að nemendum líði vel og nái góðum árangri í námi og öðru starfi skólans.
Á grunni þessara gilda byggjum við þau viðhorf og vinnubrögð sem einkenna daglegt starf í skólanum. Áhersla er lögð á jákvæð og uppbyggileg samskipti. Við horfumst í augu við að öll erum við mannleg og getum gert mistök. Þegar það gerist er mikilvægt að hver einstaklingur beri ábyrgð á athöfnum sínum og fái tækifæri til að leiðrétta mistökin.
Á vefnum Samskipti og skólaandi má finna skólareglur, upplýsingar um Uppbyggingarstefnuna og fleira sem tengist þeim viðhorfum og vinnubrögðum sem lögð eru til grundvallar skólabrag í Garðaskóla. Nemendur og foreldrar eru hvattir til að skoða þessar síður vel.
Umgengni um húsnæði skólans
Nemendur Garðaskóla hafa heilmikið frelsi í daglegu starfi og geta gengið um húsið innan þess ramma sem jákvæð samskipti setja. Þessu fylgir talsverð ábyrgð og ber hverjum og einum að virða eigur annarra jafnframt því að gæta vel að eigin verðmætum. Skólinn ber ekki ábyrgð á munum sem týnast eða skemmast á göngum skólans og því er mikilvægt að nemendur nýti vel skápana sína til að geyma hlutina sína. Í Ásgarði hafa nemendur einnig aðgang að læstum hólfum til að geyma síma og önnur verðmæti á meðan á íþróttatímum stendur.
Í skólanum er myndavélaeftirlitskerfi á göngum og skólalóð. Forstöðumenn skóla og félagsmiðstöðvar hafa aðgang að myndunum og lýtur notkun þeirra lögum um persónuvernd.
Ástundun og skólasókn
Stundvísi og góð ástundun í námi er forsenda þess að árangur náist. Reynslan sýnir að góð ástundun í skóla hefur líka jákvæð tengsl við vellíðan unglinga og félagsleg tengsl. Stuðningur og aðhald aðstandenda á þessu sviði er því mjög mikilvægur.
Í Garðaskóla er gengið út frá því að nemendur mæti stundvíslega í allar kennslustundir. Forráðamenn bera ábyrgð á að tilkynna skóla um veikindi og aðra óhjákvæmilega fjarveru með því að skrá beint í Innu. Ef forráðamaður hefur ekki tök á því að skrá í Innu getur hann haft samband við skrifstofu skólans (gardaskoli@gardaskoli.is eða sími 590 2500). Leyfi ber alltaf að sækja um fyrirfram og eru umsóknir sendar í gegnum Innu. Leiðbeiningar fyrir umsóknarferlið má nálgast á heimasíðu Garðaskóla.
Aðstandendur geta skoðað skólasókn sinna barna hvenær sem er í Innu. Auk þess sendir skrifstofa skólans ástundun nemenda í tölvupósti til aðstandenda á hverjum föstudegi.
Í Garðabæ er unnið að því að samræma verklag í ástundunarmálum nemenda. Ef alvarlegur misbrestur er á skólasókn ber skólum að tilkynna til barnaverndar. Áður en til þess kemur er þó alltaf rætt vel við börn og aðstandendur og allra leiða leitað til úrbóta.
Nánari upplýsingar um vinnuferla skólans má lesa á vefnum.
Náms- og starfsráðgjöf
Í Garðaskóla er lögð áhersla á að nemendur geti fengið áheyrn og stuðning í daglegu starfi. Námsráðgjafar gegna þar lykilhlutverki. Nánari upplýsingar um þjónustu þeirra má lesa á vef skólans: http://gardaskoli.is/studningur/namsradgjof/
Garðalundur - félagslíf nemenda
Félagsmiðstöð Garðaskóla er Garðalundur og gott samstarf er á milli skólans og félagsmiðstöðvarinnar um félagslíf nemenda allan veturinn. Dagskrá félagsmiðstöðvarinnar hefst í september og nýtir Garðalundur samfélagsmiðlana Snapchat (gardalundarsnap), Instagram (gardalundur) og skjátjald í matsal til að auglýsa dagskrána framundan. Einnig má finna upplýsingar á Facebook síðu Garðalundar.
Skipulag dagskrár er í höndum starfsmanna Garðalundar í samráði við nemendur og er boðið upp á fjölbreytt hópastarf. Félagsmiðstöðin er opin öllum nemendum skólans.
Beinn sími félagsmiðstöðvarinnar er 590-2575.
Netfangið er gardalundur@gardalundur.is
Forstöðumaður Garðalundar er Gunnar Richardson (gunnar@gardalundur.is)
Sigrún María Jörundsdóttir (sigrunjo@gardalundur.is) og Snorri Páll Blöndal (snorriblo@gardalundur.is) sjá um daglegt starf í Garðalundi.
Forvarnir
Viðburðir
Skemmtun
Foreldrafélag Garðaskóla
Hlutverk foreldrafélags Garðaskóla er að styðja við skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla.
Til að uppfylla hlutverkið heldur foreldrafélagið meðal annars fræðslu- og umræðufundi og tekur þátt í vorhátíð nemenda og árshátíð skólans.
Aðalfundur félagsins verður haldinn í október og verða nánari upplýsingar um aðalfundinn kynntar á Facebook-síðu félagsins: https://www.facebook.com/foreldrafelag.gardaskola/
Nýir starfsmenn í Garðaskóla
Arnar Snær
Eva Þórey
Gígja Hrönn
Gústav Bergmann
Hjördís Guðný
Karítas
Vigdís S.
Þórunn
Nokkrar einfaldar reglur
Hjálmar
Þótt það sé freistandi að bjóða vini sínum og vinkonu far á vespunni, er það stórhættulegt vegna þessa hversu miklu lengri tíma það tekur að stöðva hjólið.
Við hvetjum foreldra til að fylgjast vel með notkuninni hjá sínum unglingum. Leiðbeiningar til unglinga um notkun rafhjóla eru á vef skólans (pdf).
Rafrettur
Nánar má lesa um skólareglur og viðbrögð ef ekki er farið eftir þeim á vef skólans.
Snjall-tæki
Hagnýtar upplýsingar á heimasíðu Garðaskóla
Á vefsíðu Garðaskóla eru upplýsingar um starf skólans alltaf aðgengilegar. Í upphafi skólaárs er gott að líta á eftirfarandi:
Námsáætlanir (settar á vef skólans og í Innu um miðjan september)
Tölvu- og netstefna Garðaskóla og aðgangur nemenda að þráðlausu neti
Garðaskóli
Kl. 7:30-15:00 mán-fim
Kl. 7:30-14:30 fös
Starfsmenn skrifstofu:
Anna María Bjarnadóttir, ritari
Óskar Björnsson, skrifstofustjóri
Email: gardaskoli@gardaskoli.is
Website: www.gardaskoli.is
Phone: 590-2500
Facebook: https://www.facebook.com/Gar%C3%B0ask%C3%B3li-635137559954040/