Fréttabréf forseta
Október 2020
Að loknum framkvæmdaráðsfundi
Það var frábært að geta haldið framkvæmdaráðsfundinn 3. október. Það komu 13-15 konur í Hannesarholt og 8-9 voru á vefnum. Þær sem langaði til að koma og hitta aðrar konur gátu það og þær sem vildu vera heima gafst tækifæri til þess. Þetta var mesti kostur fundarins ásamt því að hægt var að fara yfir helstu málefni með nýjum formönnum. Fundurinn var ekki gallalaus, við vorum t.d. í vandræðum með hljóðið, einkum af Zoom og til salarins. En það skemmir ekki gleðina yfir því að hafa loksins náð að hittast. Ég vil þakka öllum þeim sem gerðu þennan fund mögulegan og tóku þátt í honum kærlega fyrir. Það var gott að eiga daginn með ykkur!
Fyrirlestur á dkg.is
Þegar hætta þurfti við ráðstefnuna okkar í haust (sem upphaflega átti að vera í maí), hófst stjórn landssambandsins handa við að skipuleggja upptöku á tveimur fyrirlestrum sem áttu að vera á ráðstefnunni. Fyrri fyrirlesturinn er kominn á vefinn. Það er fyrirlestur Elvu Ýrar Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar. Það tekst vonandi að koma þeim seinni á vefinn eftir áramótin. Markmiðið er að gefa öllum félagskonum tækifæri til að hlusta á þennan frábæra fyrirlestur og þau mikilvægu skilaboð, sem Elva Ýr flytur okkur. Það bætir að nokkru leyti upp fyrir að hafa ekki getað haldið ráðstefnuna. Það er vandað mjög til þessarar upptöku og verður fyrirlesturinn á vefnum í ár.
Nú er komið að ykkur formenn kærir. Þið getið spilað upptökuna á fundum eða sýnt hana á fjarfundum. Eins væri hægt að biðja félagskonur að horfa á fyrirlesturinn fyrir fund og taka hann síðan til umræðu á fundi. Umræðuefnið er brýnt og líklegt að umræður á fundum verði líflegar. Fyrirlesturinn er undir liðnum Þing og námskeið/Vorráðstefnur/Vorráðstefna 2020/Fyrirlestrar 2020. Það þarf lykilorð til að komast að fyrirlestrinum og það er sama lykilorð og þarf á annað efni á lokaða vef dkg.is. Ef þið hafið ekki lykilorðið, þá sendið þið mér póst eða skilaboð og fáið lykilorðið um hæl (ieg@internet.is eða sími 898-1778).
Leiðtoganámskeið
Á framkvæmdaráðsfundinum var ákveðið að verja auknu fjármagni til námskeiða. Það er hlutverk landssambandsins að bjóða upp á leiðtoganámskeið og verður fjármagninu varið til þess. Stjórn landssambandsins hefur ákveðið að bjóða deildum upp á námskeiðin á fjarfundarformi. Það þýðir að landssambandið greiðir fyrirlesurum, en ekki er gert ráð fyrir ferðakostnaði. Deildir geta valið hvort þær halda fundinn alfarið t.d. á Zoom eða fá fyrirlesarann til sín á Zoom eða öðru fjarfundarforriti.
Þið getið valið úr eftirtöldum fyrirlestrum:
Fyrirlesari: Sigríður Hulda Jónsdóttir, Kappadeild:
Hagnýt ráð til að efla þrautseigju og seiglu
Að takast á við breytingar
Þið náið sambandi við Sigríði Huldu í tölvupósti shjradgjof@shjradgjof.is eða í síma 615-6400, hún er tilbúin að hafa sína fyrirlestra í fjarfundabúnaði (s.s. Zoom, Teams o.s.frv). Sigríður Hulda er með MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf og MBA í stjórnun og viðskiptum. Hún er eigandi fræðslufyrirtækisins SHJ ráðgjafar sem sérhæfir sig í námskeiðum, ráðgjöf og fræðslu fyrir vinnustaði og hópa, sjá www.shjradgjof.is. SHJ ráðgjöf er einnig á facebook og instagram.
Fyrirlesari: Ingibjörg Jónasdóttir, Gammadeild:
Að efla hæfni til leiðtogastarfa
Þið náið sambandi við Ingibjörgu Jónasdóttur í ij@host.is eða í síma 860-4118. Ingibjörg er fyrrverandi forseti DKG á Íslandi og var að ljúka tímabili sínu sem Evrópuforseti DKG. Hún hefur starfað í alþjóðanefndum DKG síðastliðin 10 ár, m.a. verið formaður European Forum og International Membership Committee. Hún var að ljúka starfi forseta landssambands Soroptimista.
Þar sem landssambandið hefur keypt áskrift að Zoom getum við boðið deildum að halda fjarfundi. Hafið samband tímanlega, ef þið viljið nýta áskrift sambandsins. Ef þið viljið halda æfingarfund til að læra á kerfið, þá er bara að nefna það. Skrifið mér í ieg@internet.is
Félagatal DKG
Félagatalið hefur verið yfirfarið og sent formönnum til yfirlestrar. Félagatalið byggir á þeim sem hafa greitt félagsgjöld ársins, en samkvæmt lögum sambandsins falla þær konur úr félaginu 1.október, sem ekki hafa greitt félagsgjaldið.
Bætt hefur verið við ID númerum félagskvenna hjá þeim deildum, sem ekki voru búnar að því fyrir. Hugsanlega vantar ID númer hjá nýjustu félögum, en þau ættu að skila sér fljótlega. Myndir eru nú af flestum félagskonum. Félaga- og útbreiðslunefndin á heiðurinn af þessari vinnu og við sendum henni kærar þakkir.
Ég bið ykkur að lagfæra félagatal á undirsíðum deilda þannig að samræmi sé í upplýsingum.
Nælur fyrir fyrrverandi formenn deilda
Það eru til nælur fyrir ýmis tilefni. Þið þekkið nælurnar sem eru afhentar nýjum félagskonum við inntöku þeirra í deild. Einnig eru sérstakar forsetanælur og formannsnælur. Sumar deildir hafa keypt nælur handa formönnum sínum, en í öðrum tilfellum hafa fomenn keypt sér sjálfir þessar nælur. Nú er einnig hægt að fá sérstakar nælur fyrir fyrrverandi formenn. Sú regla var tekin upp hjá landssambandinu að forsetanælan gengur áfram til nýs forseta, en sá fyrri fær fyrrverandi forsetanælu. Það má hugsa sér að taka þetta upp líka í deildum. Upplýsingar um nælurnar veitir Jensína Valdimarsdóttir, gjaldkeri landssambandsins (gvjv(@simnet.is)
Samstarfið innan Evrópu
Forseti Evrópusvæðisins leggur áherslu á að við söfnum upplýsingum um góð verkefni á vefinn dkgeurope.org, sjá hér: http://www.dkgeurope.org/educational-topics.html.
Nú er framundan útgáfa á Euforia, evrópska riti DKG. Þær sem hafa frá einhverju lærdómsríku eða skemmtilegu að segja úr starfinu innan samtakanna ættu að nota tækifærið og skrifa grein. Greinum þarf að skila 23. október, en ritið kemur út tvisvar á ári. Helga Thorlacius er ritstjóri og greinar á að senda til hennar á póstfangið: helga.thor@simnet.is