Fréttabréf Naustaskóla
2.tbl. 11.árg 2019 febrúar
Kæra skólasamfélag
Mig langar að færa ykkur foreldrum þakkir fyrir gott samstarf það sem af er þessum vetri. Við starfsfólkið erum líka þakklát fyrir allt hrósið sem foreldrar gáfu okkur í foreldraviðtölunum, og einnig þá gagnrýni og aðhald sem við einnig fengum. Við munum halda áfram að þróa vinnubrögð og kennsluhætti til að leitast við að mæta þörfum nemenda okkar sem best. Það gerum við með ýmsu móti, með reglulegum fundum og samtölum við foreldra, með teymisfundum kennara og reglulegum starfsmannafundum. Ein af meginstoðum í stefnu Naustaskóla er að efla sjálfstæði nemenda og ábyrgð þeirra á eigin námi. Hafa kennarar eflaust rætt þessa þætti við nemendur sína og foreldra þeirra í viðtölunum. Það að læra að taka ábyrgð á námi sínu og að læra að nýta sér þær bjargir sem lagðar er upp hendur á nemendum er gott veganesti til framtíðar. Fræðimenn hafa lagt á það áherslu að besta veganesti fyrir nemendur á 21. öldinni sé að kunna sjálfstæð vinnubrögð, að geta tekið ábyrgð á eigin námi og hegðun og að kunna að vinna með öðrum. Búi einstaklingur yfir slíkri færni séu honum flestir vegir færir.
Með kveðju Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri
Námsframvinda nemenda
Við viljum minna foreldra og forráðamenn á að hægt er að fylgjast vel með námsframvindu nemenda inni á Mentor. Með því að smella á „Námsmat“ má sjá hvernig nemendum gengur að ná markmiðum í hinum ýmsu námsgreinum hér í skólanum.
Skíðadagurinn 7. febrúar 2019
Áformaður útivistardagur í Hlíðarfjalli 7. febrúar 2019
Fimmtudaginn 7. febrúar (8.febrúar til vara) er áformaður útivistardagur í Naustaskóla (ef veður leyfir) þar sem okkur býðst að fara í Hlíðarfjall. Þeim nemendum sem ekki geta farið í fjallið af heilsufars- eða öðrum mjög brýnum ástæðum verður boðið upp á afþreyingu í skólanum.
Nemendur í 4.-10. bekk geta fengið lánaðan búnað endurgjaldslaust (láta vita síðasta lagi á mánudaginn 4.feb). Nemendur í 1.-3. bekk geta því miður ekki fengið lánaðan búnað en er velkomið að hafa með sinn eigin búnað eða snjóþotur og sleða. Unnið er að því að kanna þörf fyrir búnað fyrir nemendur og þurfum við að ljúka við þá skráningu á mánudaginn. Hægt verður að fara á svigskíði, bretti, gönguskíði eða jafnvel fara í gönguferð.
Við komuna í fjallið fá nemendur lyftumiða sem gilda allan daginn. Nemendur í 5.-10. bekk geta notað miðann eftir hádegi en þurfa þá að koma með vasakort til að færa miðann yfir á. Þeir sem ekki eiga vasakort geta keypt slíkt fyrir 1.000 kr. ef þeir vilja halda áfram að skíða eftir hádegi. Athugið þó að skila þarf inn öllum lánsbúnaði um hádegi, þegar rútur á vegum skólans fara heim. Ef nemendur óska eftir að verða eftir í fjallinu þegar dagskrá lýkur þurfa foreldrar að hafa óskað eftir því við umsjónarkennara eða ritara skólans með símtali, í tölvupósti eða á viðtalsdögunum. Athugið að nemendur eru á eigin vegum eftir að rútur skólans eru farnar.
Þegar nemendur koma til baka í skólann fá þeir hádegisverð, yngstu nemendurnir fara í eina kennslustund en fara að því búnu heim (eða í Frístund ef þeir eru skráðir þar). Áætlaða heimferðartíma má sjá hér á eftir:
Tímasetningar:
1.-3. bekkur: Mæting í skóla kl. 8:10
- Brottför frá skóla kl. 9:00
- Heimferð úr Hlíðarfjalli kl. 11:20
- Skóladegi lýkur kl. 13:00
4.-7. bekkur: Mæting í skóla kl. 8:10
- Brottför frá skóla kl. 8:40
- Heimferð úr Hlíðarfjalli kl. 12:00
- Skóladegi lýkur kl. 13:00
8.-10. bekkur Mæting í skóla kl. 8:10
- Brottför frá skóla kl. 8:25
- Heimferð úr Hlíðarfjalli kl. 12:20
- Skóladegi lýkur ca. kl. 13:00
Útbúnaður:
- Skíði, bretti, snjóþotur, þoturassar, svartir plastpokar og sleðar eru leyfðir til fararinnar.
- Hjálmar eru nauðsynlegir! (Bent er á að hægt er að nota reiðhjólahjálma)
- Mikilvægt er að nemendur séu vel klæddir og í vel merktum fatnaði.
- Ekki gleyma snjóbuxunum, vettlingunum og húfunni.
- Nesti: nemendur komi sjálfir með hollt og gott nesti. Sjoppa er ekki opin.
Morgunkaffi með stjórnendum 11.-15.febrúar
- Vikan 11. – 15. feb / Opin vika fyrir foreldra
- Mánudaginn 11. feb. 1. bekkur /spjall við stjórnendur
- Þriðjudaginn 12. feb. 2.- 3. bekkur /spjall við stjórnendur
- Miðvikudagurinn 13. feb. 4.- 5. bekkur/ spjall við stjórnendur
- Fimmtudagurinn 14.feb. 6. -7. bekkur/spjall við stjórnendur
- Föstudagurinn 15. feb. 8. -9. 10. bekkur /spjall við stjórnerndur
Samnorræn rannsókn
Naustaskóli mun nú í febrúar taka þátt í stórri samnorrænni rannsókn. Rannsóknin mun felast í viðamikilli gagnasöfnun í norrænum kennslustofum á unglingastigi grunnskóla og er ætlað að gefa heildstæða mynd af gæðum kennslunnar. Tilgangur rannsóknarinnar er meðal annars að fá samanburð á kennslu milli Norðurlandaþjóðanna. Gagnaöflun mun fara fram í lok febrúar.
Á döfinni í febrúar
- 1. feb. - Appelsínugulur dagur og slæmur hárdagur
- 1. feb. - Starfamessa starfs – og námsráðgjafa.
- 7. feb. - Útivistardagur í Hlíðarfjalli 7. febrúar – 8. febrúar til vara
- Vikan 11. – 15. feb / Opin vika fyrir foreldra
- Þriðjudaginn 12. feb er opið hús fyrir foreldra verðandi nemenda í 1. bekk
- Föstudaginn 15. feb fara nemendur í 9. og 10. bekki í heimsókn í framhaldsskólann á Laugum – þeim er boðið á þessa skólakynningu.
Starfamessa náms- og starfsráðgjafa
Starfamessa 01. febrúar 2019
Þann 01. febrúar 2019 verður nemendum í 9. og 10. bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar og nágrennis boðið upp á að sækja sameiginlega starfskynningu (svokallaða Starfamessu) í Háskólanum á Akureyri. Þetta er í þriðja sinn sem þessi viðburður er haldinn og hefur heppnast mjög vel síðustu tvö skiptin. Nemendur geta kynnt sér fjölbreytt og spennandi störf og lagt grunninn að menntun sinni í framtíðinni.