Fréttabréf forseta DKG
September/október 2022
Frá forseta
Nú eru flestar deildir væntanlega komnar af stað með deildastarfið sem eins og við vitum er undirstaða starfsins í DKG. Deildirnar eru hvattar til að birta sínar starfsáætlanir á heimasíðum deildanna á vef samtakanna og deila þannig með öðrum félögum áhugaverðum hugmyndum að fundarstöðum, inntaki funda, fyrirlesurum og fundarefni.
Með ósk um gefandi og innihaldsríkt starfsár í DKG,
Guðrún E. Bentsdóttir, landssambandsforseti
Alþjóðaþing DKG sem haldið var í New Orleans 12. - 16. júlí sl.
Undirrituð sótti ásamt Jónu Benediktsdóttur, fyrrv. landssambands-forseta, alþjóðaþing DKG sem haldið var í New Orleans dagana 12. - 16. júlí sl. Þingið sóttu aðeins 900 félagar í DKG sem þótti í dræmara lagi miðað við fyrri ár og áður en heimsfaraldurinn skall á. Annar aðalfyrirlesari var Courtney Clark sem sagði frá því hvernig með þrautseigju og jákvæðni að vopni henni tókst að vinna úr erfiðum áföllum á yngri árum og byggja upp eigin feril sem rithöfundur og fyrirlesari. Hinn aðalfyrirlesarinn var okkar eigin Ingvi Hrannar Ómarsson, frumkvöðull og sérfræðingur hjá barna- og menntamálaráðuneytinu, sem fjallaði um hvernig við þurfum að búa börnin okkar undir líf og starf í framtíðinni sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig verður.
Erindi hans fékk alveg glimrandi undirtektir og vorum við Jóna Benediktsdóttir, fyrrv. forseti, afar stoltar af að vera landar hans þarna á þinginu (sjá mynd).
Auk fjölda fyrirlestra og vinnustofa fór drjúgur tími af þinginu í ýmis konar hefðbundin þingverkefni, s.s. kosningar og lagabreytingar. Nýr alþjóðaforseti var kosin, Dr. Debbie LeBlanc, en nánari upplýsingar um nýja alþjóðastjórn samtakanna er að finna á heimasíðu alþjóðasambansins. Afar fróðlegt var að fylgjast með hvernig hefðbundin þingstörf fóru fram og hvernig tókst að gefa félagskonum færi á lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku þrátt fyrir þennan mikla fjölda.
Formenn deilda geta keypt aðgang að fyrirlestrum og vinnustofum sem þeir hafa áhuga á að deila með sínum deildum.
Framkvæmdaráðsfundurinn 17. sept. sl.
Í framkvæmdaráði DKG eiga sæti allir formenn deilda ásamt landssambandsstjórn. Framkvæmdaráðsfundur DKG var haldinn á Hótel Plaza laugardaginn 17. sept. sl. Á fundinn mættu 11 formenn deilda og 4 fulltrúar úr landssambandsstjórn ásamt 4 formönnum nefnda. Formaður félaga og útbreiðslunefndar, Ingibjörg Einarsdóttir, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar en Birna Sigurjónsdóttir, formaður samskipta- og útgáfunefndar sendi samantekt um störf þeirrar nefndar sem lesin var á fundinum. Á fundinum fór forseti yfir framkvæmdaáætlun fyrir árin 2021 - 2023 og stöðu verkefna í áætluninni. Núverandi landssambandsstjórn hefur m.a. lagt áherslu á að stefnt sé að því að fjölga um a.m.k. 2 - 3 félaga í hverri deild, að þekkingarforðinn verði nýttur til að gefa félagskonum tækifæri á að miðla af þekkingu sinni og reynslu innan samtakanna og utan en einnig að hvetja félagskonur til að taka þátt í alþjóðlegu starfi á vegum samtakanna og vekja athygli á starfi þeirra sem víðast. Jóna Benediktsdóttir, fyrrv. forseti og fulltrúi í lagadeild, var með Orð til umhugsunar og velti fyrir sér námi og skólastarfi í tengslum við ýmsar breytingar á samfélaginu. Sigrún Klara Hannesdóttir, lögsögumaður, rakti stuttlega sögu samtakanna, uppbyggingu þeirra og sagði frá helstu þáttum í alþjóðlegu starfi þeirra. Ingibjörg E. Guðmundsdóttir, fyrrv. forseti, kynnti handbók fyrir formenn deilda og benti á ýmsar gagnlegar upplýsingar á heimasíðum samtakanna.
Sigríður Indriðadóttir hjá SAGA-connect fjallaði um jákvætt og hvetjandi starfsumhverfi og hversu mikilvægt það er að skapa sér góðar venjur sem auka lífsgæði og árangur, stuðla að því að byggja upp traust sem er grundvöllur alls og góðri liðsheild, lífsgæðum og hamingju. Hún fjallaði einnig um mikilvægi hróss en einnig að kunna að setja heilbrigð mörk í samskiptum og gefa þannig til kynna hvað gildir á okkar vinnustað og í okkar daglega lífi. Sigríður endaði á að minna á orð heimspekingsins Laó Tse:
Watch your thoughts, they become words,
Watch your words, they become actions,
Watch your actions, they become habits,
Watch your habits, they become character,
Watch your character, it becomes your destiny
Landssambandsþing DKG verður haldið 13. og 14. maí 2023
Styrkir og viðurkenningar DKG
Þekkingarforðinn
Eitt af markmiðum núverandi landssambandsstjórnar DKG er að safna saman upplýsingum um erindi sem DKG konur eru tilbúnar að miðla til annarra, t.d. á deildarfundum, ráðstefnum og þingum og jafnvel út fyrir raðir samtakanna. Mann- eða kvenauður er mikill í okkar frábæru samtökum og mikilvægt að félagskonur séu viljugar til að deila sérþekkingu sinni með öðrum félagskonum. Markmiðið er að hver deild tilnefni a.m.k. tvö erindi sem félagar í þeirri deild eru tilbúnar að deila með öðrum deildum á deildafundum, ráðstefnum, þingum, sameiginlegum fundum eða á öðrum samkomum á vegum samtakanna.
Upplýsingar um Þekkingarforðann er að finna hér.
DKG Europe Forum 2022 - 2023
Á fundi DKG Europe Forum í Amsterdam 30. apríl sl. var ákveðið að mæla með því að halda áfram með kynningar frá evrópsku DKG landssamböndunum en að fækka kynningum í fjórar á ári. DKG systur í Þýskalandi buðust til að standa fyrir fyrstu kynningunni á þessu tímabili sem áætluð er 27. janúar 2023 sem er minningardagur um helförina. Marion Blumenthal Lazan sem lifði af helförina en er jafnframt heiðursfélagi í DKG í Þýskalandi mun segja frá.
Fleiri viðburðir hafa ekki verið tilkynntir enn þá en félagskonur eru hvattar til að fylgjast með þegar erindin verða auglýst því þau sem flutt voru á síðasta starfsári voru hvert öðru áhugaverðara.
Einnig var mælst til þess að finnsku og sænsku DKG systur okkar standi fyrir jólafundi eins og gert var í desember á síðasta ári þar sem félagskonur sögðu frá jólasiðum í hverju þátttökulandi. Stefnt er að því að fundurinn verði haldinn 13. desember nk. sem er lúsíudagurinn en hann er haldinn sérstaklega hátíðlegur í þessum tveimur löndum og víðar.
Félagskonur eru hvattar til að fylgjast með þessum viðburði sem vakti mikla ánægju á síðasta ári.