Flataskólafréttir
Skólaárið 2022-2023 - 2. maí 2023
Kæra skólasamfélag!
Þá líður að endasprettinum á þessu skólaári sem hefur svo sannarlega ekki verið það einfaldasta hjá okkur í Flataskóla. Nú höfum við fengið öll þau rými afhent sem við fáum á þessari önn og flutningum innanhúss hjá okkur er því lokið í bili. Unnið er að undirbúningi framkvæmda við húsnæðið í sumar en ljóst er að halda þarf vel á spöðunum þannig að allt verði tilbúið í tæka tíð fyrir skólabyrjun í ágúst. Til stendur að fara í töluvert umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir, m.a. við þök, glugga, múr, gólfefni, endurnýjun á matsal og smíðastofu o.fl. Við vonum því innilega að þrengingum vegna myglumála sé að ljúka hjá okkur. Heilsufarseinkenni sem tengd hafa verið við myglu virðast fara rénandi og stefnt er að því að við höfum að öllu leyti eðlilegar húsnæðisaðstæður í sumarlok.
Nú eru í gangi hefðbundin vorverk hjá okkur eins og t.d. hreinsun skólalóðarinnar eftir veturinn en það er fastur liður hjá okkur að nemendur taka fyrir ákveðin svæði og plokka og sópa. Framundan eru svo síðustu vikur skólaársins og þá þarf að halda einbeitingu og klára veturinn með glæsibrag. Allra síðustu daga skólaársins munum við að venju víkja örlítið frá hefðbundinni stundaskrá og m.a. njóta útivistar í góða veðrinu sem við eigum von á að gleðji okkur áfram. Við auglýsum dagskrá þeirra daga í síðasta fréttabréfi skólaárins sem kemur út upp úr 20. maí
Kærar kveðjur úr skólanum,
Ágúst skólastjóri
Helstu viðburðir á næstunni
- 4. maí - Árshátíð 7. bekkjar
- 12. maí - Schoolovision
- 16. maí - 3. bekkur í sveitaferð
- 18. maí - Upptigningardagur - Frí
- 19. maí - Skipulagsdagur í leik- og grunnskólum. Krakkakot opið.
- 29. maí - Annar í hvítasunnu - Frí
- 5. júní - Útivistardagur
- 6. júní - Flataskólaleikar
- 7. júní - Skólaslit
Flatóvisjón
Allir keppendur höfðu æft stíft og stóðu sig sig mjög vel. Dómnefnd sem leidd var af Sölku Sól valdi eitt siguratriði. Sigurlagið fluttu stúlkur í 4. bekk sem fluttu lagið OK með örlitlum breytingum. Atriði þeirra verður tekið upp og sent í Evrópukeppnina. Þar keppa fulltrúar skóla frá um 30 Evrópulöndum til úrslita í söngkeppni með Eurovisionsniði. Við erum afar hreykin af öllum þátttakendunum í verkefninu og munum sannarlega með stolti senda okkar framlag í keppnina í maí.
Skráning í Krakkakot næsta skólaár
Öllum börnum sem fædd eru árið 2017 er boðið að hefja dvöl í frístundaheimili grunnskólans viku áður en skólastarf hefst. Með þessu móti gefst börnunum færi á að kynnast skólanum sínum og verða örugg í nýju umhverfi.
Leik- og grunnskólar hafa samvinnu um flutning milli skólastiga og starfsfólk leikskólanna fylgir börnunum eftir í frístundaheimilið. Frístundaheimilin opna viku fyrir skólasetningu grunnskólans (þ.e. 14.-22. ágúst) og er það eingöngu fyrir þau börn sem eru að hefja skólagöngu í grunnskóla. Daglegur opnunartími verður frá 8:30 – 16:30 þá daga. Skólasetningardagur grunnskólanna er 23. ágúst, þann dag er frístundaheimilið lokað. Þann 24. ágúst hefst hefðbundið skólahald og frístundaheimili verða opin fyrir nemendur í 1.-4. bekk sem þar eru skráðir.
Börnum sem fara í grunnskóla í haust er heimilt að koma aftur í leikskólann nái sumarleyfi ekki að byrjun grunnskóla. Líkt og áður taka börnin 4 vikna samfellt sumarleyfi. Eftir 14. ágúst verða börn fædd 2017 ekki í leikskólum. Þau hafa þá val um að vera í sumarleyfi eða á frístundaheimili. Það er á ábyrgð foreldra að sjá til þess að börnin séu skráð á frístundaheimili þessa aukaviku.
Síðasti dagur til innritunar vegna þessarar aukaviku á frístundaheimili er 20. maí nk. Best er að senda innritun á netfangið flataskoli-fristund@flataskoli.is
Í tölvupóstinum þarf að koma fram nafn og kennitala barns auk nafn og kennitala greiðanda. Eins þarf að gefa upplýsingar er varða t.d. ofnæmi, fæðuóþol eða annað sem varðar barnið og er til þess fallið að einfalda barni og starfsfólki þessa breytingu á lífi þess.
Fyrir þessa sjö daga verður innheimt frístundagjald kr. 16.900.- auk þess sem foreldrar greiða sérstaklega fyrir hádegismat og síðdegishressingu. Gjaldið er óháð dvalartíma barns og ekki er veittur neinn afsláttur af gjaldi fyrir þessa viku. Við bendum á að þessi skráning gildir fyrir þessa sjö daga.
Hefðbundin skráning á frístundaheimili fyrir veturinn 2023-2024 fer fram á heimasíðu Garðabæjar í gegnum þjónustugáttina á gardabaer.is. Skráning fyrir veturinn 2023-2024 er þegar hafin og skal fara fram fyrir 15. júní 2023. Öllum börnum sem skráð eru fyrir 15. júní eða fyrr er tryggð dvöl á frístundaheimili frá og með 24. ágúst, eftir þann tíma er hugsanlegt að einhverjar tafir geti orðið á því að barn geti hafið dvöl sína en það ræðst af starfsmannahaldi á hverju frístundaheimili. Bent er á að sækja þarf sérstaklega um systkinaafslátt á heimasíðu Garðabæjar.
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla
Í ár verða Foreldraverðlaun Heimilis og skóla afhent í 26. sinn og er opið fyrir tilnefningar á heimasíðu samtakanna www.heimiliogskoli.is út 21. maí 2023.
Leitað er eftir tilnefningum vegna einstaklinga eða hópa/verkefna sem hafa með einhverjum hætti stuðlað að því að efla samstarf heimilis og skóla og nærsamfélagsins.
Verkefnin mega vera á öllum skólastigum og hægt er að tilnefna hvort sem er einstaklinga eða hópa sem standa fyrir verkefninu. Ekki er verra ef verkefnin hafa fest sig í sessi.
Þá erum leitað eftir einstaklingum sem hafa með framlagi sínu til lengri tíma haft jákvæð áhrif á samstarf heimila og skóla á einhverju skólastigi.
Kveðja frá Heimili og skóla - landssamtökum foreldra
Orkudrykkir
Að gefnu tilefni viljum við benda á skemmtileg stuttmyndbönd "Draumur í dós" sem fjalla um áhrif orkudrykkja á heilsu barna og ungmenna. Um er að ræða 5 myndbönd þar sem hvert er um 2 mínútur. Gerð myndbandanna var styrkt af Lýðheilsusjóði og er fræðsluefnið unnið af sérfræðingum úr háskólasamfélaginu.
Við hvetjum forráðamenn til að kynna sér myndböndin og enda virðist neysla orkudrykkja meðal barna nokkuð útbreidd en rannsóknir sýna að orkudrykkir hafa víðtæk neikvæð áhrif á heilsu barna og ungmenna undir 20 ára aldri, þ.á.m. á andlega heilsu, svefnlengd og svefngæði.
Hér að neðan má nálgast fyrsta myndbandið en hin má nálgast á slóðinni https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/naering/orkudrykkir/
Skóladagatal næsta skólaárs
Skóladagatal næsta skólaárs liggur fyrir og má sjá það hér fyrir neðan (hægt að smella á myndina til að fá fulla stærð). Skólasetning verður 23. ágúst, vetrarleyfi dagana 19.-23. febrúar og skólaslit 7. júní.
Mentor - handbók fyrir aðstandendur
Opnunartími skrifstofu
Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.
Flataskóli Garðabæ
Email: flataskoli@flataskoli.is
Website: flataskoli.is
Location: Flataskóli, Gardabaer, Iceland
Phone: 513 3500