Fréttabréf Engidalsskóla ágúst 2022
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Fréttabréf Engidalsskóla
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Hér má líta fyrsta fréttabréf skólaársins 2022-2023. Okkur hefur þótt fréttabréf góð leið til að upplýsa foreldra um það sem er að gerast í skólanum, hvað sé framundan og sýna myndir úr skólastarfinu. Foreldrar/forsjáraðilar fá líka föstudagspósta frá umsjónarkennurum sinna barna auk þess sem ýmsar upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans. Þessa dagana er verið að uppfæra síðuna engidalsskoli.is en þar á að vera hægt að finna upplýsingar um starfsmenn skólans. Umsjónarkennarar ættu að vera búnir að senda póst vegna fyrsta foreldrasamráðsdagsins.
Hagnýtar upplýsingar til foreldra:
Mikilvægt er að upplýsa skólann um forföll nemenda en hægt er að skrá veikindi beint inn á mentor.is auk þess sem hægt er að hringja í skólann í síma 5554433. Foreldrar geta ekki gefið leyfi í einstaka tímum, fyrir leyfi þarf alltaf að hringja.
Gæsla er í skólanum frá kl. 8:00 og kennsla hefst 8:10, nemendur geta mætt 7:45 og fengið hafragraut sér að kostnaðarlausu, grauturinn er í boði til kl. 8:05. Þá er mikilvægt að minna á Skólamat en hægt er að kaupa bæði ávexti að morgni og hádegismat hjá þeim. Skráning fer fram í gegnum skolamat.is , þar er líka hægt að sjá matseðil næstu viku. Sé barn með ofnæmi, óþol eða einhverja sérþarfir varðandi mat er mikilvægt að láta vita af því, þau eru tilbúin að koma til móts við þarfir barna í mat. Við leggjum áherslu á að þau börn sem ekki verða í mataráskrift komi með holt og næringarríkt nesti (sjá leiðbeiningar um nesti hér neðar í fréttabréfinu).
Engidalsskóli hefur valið sér einkunnarorðin ábyrgð, virðing og vellíðan. Við teljum það lykil að öllu námi að nemendum líði vel í skólanum. Eitt af því sem við getum gert til að öllum líði vel er að bera ábyrgð á hegðun okkar og sýna náunganum (skólafélögum og foreldrum þeirra) virðingu. Alla daga erum við öll að reyna að gera okkar besta og þó lítil börn séu ekki búin að ná tökum á öllum óskráðu siðferðis- og samskiptareglum þýðir það ekki að þau séu ómöguleg, þau vilja flest tilheyra en kunna ekki alveg leikreglurnar. Foreldrar/forsjáraðilar ættu að skoða það að skipuleggja hitting/heimboð lítilla hópa að leika í rólegu umhverfi. Við í Engidalsskóla trúum því að allir geti gert mistök en mikilvægt er hvað við lærum af þeim. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og við eigum að láta okkur annara manna börn varða og vera umhugað um þau.
Engidalsskóli er heilsueflandi skóli og það birtist meðal annars í meiri hreyfingu, lengri útivist, aukinni geðrækt og áhersla á holt og gott nesti ef við á. Við hvetjum foreldra til að passa upp á að nemendur fái nægan svefn og hvetjum ykkur til að koma því þannig fyrir að þau geti gengið eða hjólað í skólann ef einhver möguleiki er.
Með stækkandi skóla þurfum við meira pláss og í sumar fengum við afhent það rými sem áður hýsti skjalasafn Hafnarfjarðar. Þar verður Álfakot með aðstöðu fyrir 3.-4. bekk og félagsmiðstöðin Dalurinn fær sína eigin aðstöðu. Við teljum okkur geta verið með en metnaðarfyllra frístundastarf með þessum breytingum. Stundarfriður (áður frístundafjör hjá yngsta stigi) verður á sínum stað inn í töflu nemenda
Við hlökkum afskaplega til að nemendur komi í hús og væntum góðs og skemmtilegs samstarfs við ykkur foreldra/forsjáraðilar.
Með bestu kveðju stjórnendur Engidalsskóla.
Skólasetning ágúst 2022
Ekki verður hefðbundin skólasetning á sal skólans heldur mun skólastjóri senda rafræna kveðju með helstu áhersluatriðum vetrarins til foreldra/forsjáraðila í tölvupósti 24. ágúst. Foreldrar/forsjáraðilar ættu að hafa fengið boð frá umsjónarkennurum um að mæta til samráðsfundar í skólabyrjun. Fundunum verður dreift á mánudaginn 22. og þriðjudaginn 23. ágúst næstkomandi og jafnvel eitthvað næstu daga þar á eftir. Miðað er við að hvert viðtal taki um 15 mínútur og eru nemendur og foreldrar hvattir til að mæta vel undirbúnir. Umræðuefni fundanna verður líkt og í fyrra haust: hvaða væntingar foreldrar og nemendur gera til skólaársins?
Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá 24. ágúst. Hér má nálgast skóladagatal skólaársins 2022-2023.
Foreldrasamráð í skólabyrjun
Áhersla fundanna verður að heyra hvað nemendur og foreldrar vilja fá út úr komandi skólaári. Nemendur setja sér bæði félagsleg og námsleg markmið og koma með hugmyndir um hvernig hann kemst þangað, hvað hann þarf að gera og hvernig skólinn getur stutt við hann svo hann nái markmiðum sínum. Foreldrar munu fá sent eyðublað (sambærilegu því sem hér sést til hliðar) og geta valið að senda þetta inn rafrænt eða prenta það út og mæta með það á samráðsfundinn. Kennarar verða með kynningu á starfi bekkjarins síðar í haust þar sem námsefni og skipulag kennslu verður kynnt, þetta samtal er ekki hugsað til að fara yfir praktísk atriði (nema í 1. bekk). Mikilvægt er að foreldrar hafi áhrif á nám barna sinna og bæði foreldrar og nemendur hafi rödd þegar nám barna er skipulagt, það er því mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir samtalið.
Dæmi um markmið:
Ég ætla að bæta mig í lestri um 40 orð á mínútu í vetur - til þess að ná því þarf ég að vera duglegur að sinna heimalestri, skólinn þarf að að gefa mér svigrúm til að lesa í skólanum og ég verð að komast reglulega á bókasafnið, kennarinn minn þarf að hvetja mig áfram og foreldrar mínir þurfa að hlusta á mig og styðja.
Ég ætla að eignast tvo nýja vini í vetur - Til þess þarf ég að vera jákvæður og tala við aðra en ég tala venjulega við, foreldrar mínir þurfa að styðja mig og leyfa mér að bjóða heim að leika.
Heilsueflandi grunnskóli - Líðan, hreyfing og nestismál
Engidalsskóli er heilsueflandi grunnskóli, hugmyndin um heilsueflandi skóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu. Áhersluþættirnir eru átta; nemendur, nærsamfélag, hreyfing og öryggi, mataræði og tannheilsa, heimili, geðrækt, lífsleikni og starfsfólk.
Í vetur munum við áfram leggja mikla áherslu á lífsleikni og geðrækt með áherslu á sjálfsmynd nemenda og aukna hreyfingu og útiveru en einnig skoða aðra þætti. Síðasta vetur gafst nemendum tækifæri til að taka þátt í sjálfsræktarsmiðju þar sem grunnurinn var námsefni, UPRIGHT, sem verið hefur í þróun og við afskaplega stolt af því að það var meðal annars prufukeyrt hér í Engidalsskóla. UPRIGHT er samevrópskt verkefni með það að markmiði að þróa námsefni og námsumhverfi sem á að stuðla að vellíðan og seiglu meðal ungmenna með heildrænni nálgun í skólasamfélaginu. Í vetur stefnum við að því að flétta þetta meira inn í bekkjastarfið sjálft. Í smiðjum á miðstigi verður útivist og velferð og dans og leiklist nýjungar og eru þetta kennslugreinar sem við teljum mjög vel til þess fallnar að styrkja sjálfsmynd nemenda. Í vetur munu umsjónarkennarar nýta verkfæri Upright í lífsleiknikennslu.
Á síðasta skólaári óskuðum við eftir því við foreldra að þeir sem komi með nesti í skólann komi með holt og gott nesti. Hér neðar í fréttabréfinu gefur að líta leiðbeiningar að nesti sem við teljum að henti grunnskólabörnum. Foreldrar tóku málið föstum tökum og eiga hrós skilið fyrir hversu vel þeir voru almennt að nesta börnin sín. Það er mjög mikilvægt fyrir börn að fá hollan og næringarríkan mat til að hafa orku til að sinna bæði skóla- og frístundastarfi. Í okkar leiðbeiningum er stuðst við viðmið Landlæknisembættis. Vel nærð börn eiga betra með að einbeita sér og mataræði getur haft áhrif bæði á lærdómsgetu og hegðun. Börn verja stórum hluta dagsins í skólanum eða á skólasvæðinu og því er mikilvægt að þau fái hollan og góðan mat í skólanum.
Svefninn er ekki síður mikilvægur en næringin og hann þarf líka að passa vel upp á. ,,Börn taka inn mikið af upplýsingum yfir daginn og eru stöðugt að læra eitthvað nýtt. Í svefni er unnið úr þessum upplýsingum, þær flokkaðar og festar í minni. Nægur svefn eykur einnig einbeitingu og móttækileika fyrir nýjum upplýsingum. Það þarf því ekki að koma á óvart að börn sem fá nægan svefn ná betri árangri í námi og íþróttum en börn sem sofa of lítið." Þessi texti er tekinn úr grein sem opna má hér en eins er mikið af leiðbeiningum inni á vef Sálstofunnar, Heilsuveru og vef Landlæknis. Við munum eiga samtal við nemendur í vetur um mikilvægi svefns meðal annars hvernig hann getur hjálpað þeim við að ná markmiðum sínum.
Læsismálin
Í Engidalsskóla leggjum við mikla áherslu á að nemendur nái góðum tökum á lestrinum.
Við getum stolt sagt frá því að í vor voru fimm af sjö árgöngum yfir landsmeðaltali á lesfimiprófum Menntamálastofnunnar en við ætlum að gera en betur í vetur.
Lestrarþjálfunin er samstarfsverkefni heimila og skóla, ekki er nóg að nemendur lesi bara í skólanum þeir þurfa einnig að þjálfa lesturinn heima. Miðað er við að hver nemandi lesi í það minnsta 15 mínútur á dag fimm daga vikunnar og fyrir þau sem ekki eru orðin læsi sé lesið í um það bil 15 mínútur því með lestri vinnum við markvisst í að auka orðaforða nemenda.
Uppeldi til ábyrgðar
Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433