Fréttabréf Naustaskóla
3. tbl 15. árgangur 2022
Kæra samstarfsfólk
Nú í byrjun marsmánaðar eygjum við loksins möguleika á nokkuð eðlilegu skólastarfi. Covid veikindi nemenda og starfsmanna hafa haft mikil áhrif en með þrautseigju og dugnaði hefur starfsfólki skólans tekist að halda uppi góðu starfi. Eins og sjá má í fréttabréfinu er nóg um að vera hjá okkur í skólanum í mars. Stóra upplestrarkeppnin er um miðjan mars þar sem tveir fulltrúar Naustaskóla keppa við aðra nemendur í grunnskólum Akureyrar. Við stefnum að útivistardegi í Hlíðarfjalli 22. mars. Fram undan eru síðan þrotlausar æfingar fyrir árshátíðina sem er í lok mars. Það gleður okkur mikið að geta boðið foreldrum á sýningarnar og í veglegt kaffihlaðborð sem er fjáröflun 10. bekkjar. Skipulag sýninganna verður nánar auglýst þegar nær dregur með bréfi til foreldra og á heimasíðu skólans. Við hlökkum mikið til að geta haldið góða árshátíð og haft gaman saman.
Við sendum bestu kveðjur úr skólanum.
Bryndís, skólastjóri
Á döfinni í mars
2.- 4.mars - Öskudagur/Vetrarfrí
9. mars - Stóra upplestrarkeppnin Naustaskóla
14. mars - Dagur Stærðfræðinnar
18. mars - Smiðjuskil
22. mars - Útivistardagur
23. mars - PISA rannsókn
Sund og skíði í vetrarfríinu á Akureyri!
Akureyrarbær býður grunn- og framhaldsskólanemum á Akureyri í sund og á skíði í vetrarfríi grunnskólanna.
Fimmtudaginn 3. mars og föstudaginn 4. mars geta grunn- og framhaldsskólanemar farið í skíðalyfturnar og sundlaugar Akureyrar án endurgjalds.
Grunnskólanemendur gefa upp kennitölu og nafn skóla í afgreiðslu og framhaldsskólanemar í VMA og MA framvísa nemendaskírteinum.
Athugið að krakkarnir þurfa að eiga rafrænt kort eða kaupa slíkt á 1.000 krónur í skíðalyfturnar. Kortin fást í afgreiðslu Hlíðarfjalls og á N1.
Góða skemmtun!
Útivistardagur 22. mars
Þið fáið nánari upplýsingar um útivistardaginn þegar nær dregur.
PISA
Þann 23.mars verður PISA könnunin lögð fyrir nemendur í 10.bekk í Naustaskóla.
Alls taka 88 lönd þátt í þessari könnun en hún er stærsta menntarannsókn heims. Könnunin metur almennan lesskilning, læsi í náttúrufræði og stærðfræði ásamt því að meta skapandi hugsun nemenda.
Ávinningur PISA er einna helst að geta metið hve vel íslenskir nemendur eru undirbúnir fyrir áframhaldandi nám eða starf eftir að skyldunámi líkur í samanburði við þátttökulönd ásamt því að bera saman færni nemenda og námsumhverfi. Einnig veitir þetta okkur tækifæri til þess að meta hvar úrbóta er þörf og setja okkur markmið út frá því.