
Fréttabréf Garðaskóla
Október 2017 - 41. árgangur - 2. tölublað
Í þessu fréttabréfi:
2. Notum Innu
3. Samráðsfundir heimila og skóla 17. október
4. Snjalltæki í skólastarfi
5. Kynning á nýrri stjórn foreldrafélagsins
6. Forvarnir: Verum öll vakandi
7. Nýir starfsmenn í Garðaskóla
Pistill skólastjóra: Lifum vel
Það er gaman að starfa í Garðaskóla. Nemendur eru jákvæðir, metnaðarfullir og stoltir af skólanum sínum. Forráðamenn styðja vel við bakið á skólanum. Kennarar eru sterkir fagmenn og umhyggjusamir í samskiptum sínum við nemendur. Heilt yfir gengur skólastarfið mjög vel og nemendur ná miklum árangri.Í góðum skóla koma samt daglega upp atvik sem eru ekkert sérstaklega skemmtileg. Kennari nær ekki að sinna öllum nemendum í hópnum sínum. Nemandi gengur ekki frá eftir sig í matsalnum eða sýnir starfsmanni ókurteisi. Stjórnandi svarar ekki fyrirspurn frá foreldri samdægurs.
Samt sem áður segjum við fullum fetum að skólastarfið gangi vel. Í fyrsta lagi eru góð, uppbyggileg og skemmtileg atvik mun fleiri en þau neikvæðu. Í öðru lagi er skólinn bara eins og lífið allt. Í skólanum starfa manneskjur og manneskjur gera mistök. Manneskjur eru misvel upp lagðar, þeim líður stundum vel og stundum illa. Í Garðaskóla ætlum við okkur að fást við þetta allt af yfirvegun og velvilja með það að markmiði að hver einstaklingur fái tækifæri til að þroskast og menntast. Það þýðir að við setjum ramma og stefnu í starfinu en gefum svigrúm þegar það þarf. Skólinn gætir þess að svigrúm sé vel skilgreint. Of mikið frelsi skapar hættu á að skólinn sinni ekki því menntastarfi sem honum er ætlað.
Skólastarf gengur vel í Garðaskóla vegna þess að nemendur, starfsfólk og forráðamenn deila sameiginlegri sýn á starfið. Við vitum að nám er ekki alltaf auðvelt. En nám er mikilvægt bæði til að dagurinn í dag verði innihaldsríkur og til að við getum hlakkað til framtíðarinnar og staðið okkur vel í því sem framundan er.
Notum Innu
Í Garðaskóla notum við Innu (sjá https://nam.inna.is) til að halda utan um dagleg samskipti heimila og skóla. Mikilvægt er að allir forráðamenn hafi litið inn í Innuna og farið yfir upplýsingar um fjölskylduna. Eru allir rétt skráðir? Eru öll símanúmer komin inn? Á heimasíðu Garðaskóla má finna handhægar leiðbeiningar fyrir Innu: http://gardaskoli.is/hagnytt/inna/leidbeiningar-fyrir-innu/
Unnið er að uppsetningu á þeim hluta Innunnar sem mun birta mat á námi nemenda og vonumst við til að þau gögn fari að birtast nemendum nú í október.
Mikilvægt er að Innan þjóni þeim þörfum sem henni er ætlað. Við viljum gjarnan heyra frá nemendum og forráðamönnum um hvernig notkunin gengur. Sendið póst á gardaskoli@gardaskoli.is og við skoðum málin.
Samráðsfundir heimila og skóla 17. október
Snjalltæki í skólastarfi
Forvarnarvika Garðabæjar var haldin 2.-6. október. Eins og á síðasta ári var athygli beint sérstaklega að net- og snjalltækjanotkun og áhrifa hennar á líf einstaklinga og samskipti. Í Garðaskóla leggjum við áherslu á að nýta snjalltæki sem þau sjálfsögðu tæki sem þau eru orðin í lífi fólks. Nemendur mega hafa tækin í skólanum og nýta þau undir stjórn kennara í kennslustundum. Í snjalltækjum eru háþróaðar myndavélar og upptökutæki sem nýtast auðveldlega í skapandi starfi og til að koma hugmyndum á framfæri.
Einnig er aragrúi námsforrita nýttur til að ná vel skilgreindum markmiðum. Enskudeildin kennir til dæmis lesskilning í forritinu ReadingPlus, margar deildir nota Kahoot til að setja upp minnisleiki um námsefnið, náttúrufræðikennarar nota smáforritið Plickers til að fylgjast með hvort allir nemendur hafi náð skilningi á því efni sem er til umræðu.
Bæði nemendur og kennarar hafa þó áhyggjur af því að snjalltæki séu alltof oft truflandi, nemendur eru þá að nýta þau í verkefni sem hafa ekkert með námið í kennslustundinni að gera. Við leysum ekki þann vanda með því að banna tækin. Við leysum þann vanda með því að horfast í augu við markmið skólastarfsins og bera ábyrgð á hegðun okkar. Kennarar ræða þessi mál við nemendur og mikilvægt er að forráðamenn geri það líka. Í hvað er síminn notaður? Hvenær er hann ekki notaður? Er vandamál að leggja símann til hliðar? Af hverju? Hvernig fyrirmyndir eru forráðamenn? Hvernig er hægt að leysa þann vanda?
Á forvarnardaginn 4. október síðastliðinn unnu allir nemendur umræðuverkefni um snjalltækjanotkun á heimilum. Niðurstöður þeirrar vinnu verða birtar í þessari viku á vef skólans.
Kynning á nýrri stjórn foreldrafélagsins
Foreldrafélagið hélt aðalfund sinn 19. september síðastliðinn. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa flutti Lára G. Sigurðardóttir, læknir, doktor í lýðheilsuvísindum og foreldri í skólanum, erindi um þær áskoranir sem mæta foreldrum sem vilja ala upp hrausta unglinga.
Foreldrafélagið kom einnig að vinnu við fræðsluerindi sem foreldrum var boðið upp á í forvarnarviku Garðabæjar og var mjög vel sótt.
Ný stjórn foreldrafélagsins er skipuð:
- Berglind Rós Guðmundsdóttir, formaður
- Guðrún Kristjánsdóttir, varaformaður
- Íris Anna Karlsdóttir, gjaldkeri
- Bergþóra Jónsdóttir, ritari
Auk þess starfa með stjórninni að ýmsum verkefnum: Anna Teitsdóttir, Ásta Margrét Magnúsdóttir, Berglind Bragadóttir, Gyða Dan Johansen, Helena Guðmundsdóttir, Katrín Rós Gýmisdóttir, Kristjana Axelsdóttir, Kristmundur Carter og Sigríður Inga Sigurðardóttir.
Nánar má lesa um störf foreldrafélagsins á vef skólans. Við minnum líka á Facebook síðu félagsins.
Forvarnir: Verum öll vakandi
Ástæða þess að snjalltækjanotkun er orðið forvarnarmál er m.a. áhyggjur okkar af því að með stöðugri notkun á snjalltækjum og samskiptamiðlum séu börn, unglingar og fullorðið fólk hætt að tala saman, hætt að eiga samskipti augliti til auglitis. Þótt orsakasamhengi sé ekki skýrt sjáum við vaxandi kvíða og þunglyndi hjá unglingum samhliða vaxandi notkun samfélagsmiðla. En er þetta símunum að kenna?
Það er fleira sem hefur breyst í samfélaginu á undanförnum árum. Til dæmis er góðærið komið tilbaka og fjölmargir hafa meira milli handanna: geta verslað dýrari síma, flottari föt og farið í fleiri utanlandsferðir. En það njóta ekki allir góðærisins og í Garðaskóla sjáum við unglinga upplifa sársaukann sem fylgir því að eiga ekki jafn mikið og aðrir, að geta ekki veitt sér það sama og „hinir”. Hvaða afleiðingar hefur slíkur samanburður á hugarfar og lífsstíl einstaklingsins?
Annað mál sem hefur ef til vill fallið í skuggann á umræðunni um ofnotkun á netinu er sú þróun að neysla kannabisefna er að aukast meðal ungmenna. Við höfum séð þetta í niðurstöðum könnunarinnar Ungt fólk síðustu 2-3 árin. Við heyrum þetta líka á tali nemenda í Garðaskóla. Fleiri nemendur tala nú um að þeir þekki einhvern sem hefur prófað að reykja kannabis. Fleiri nemendur tala um að það sé mjög auðvelt að redda sér efnum. Fleiri nemendur tala um að kannabis sé ekki skaðlegt efni. Samfélagsmiðlarnir koma þarna vissulega til sögunnar. Á samfélagsmiðlum er auðvelt að komast í sögur af dásemdum eiturlyfja. Þar er líka auðvelt að finna þá sem vilja selja þér efni. En við getum varla kennt samfélagsmiðlum alfarið um þá staðreynd að fleiri unglingar reykja nú kannabisefni en fyrir nokkrum árum. Þar hlýtur fleira að koma til.
Fyrir fimm árum var staðan vissulega svo góð að hún gat varla orðið betri. Árið 2012 höfðu aðeins 2% nemenda í 10. bekk í Garðabæ prófað að reykja kannabisefni. Þau mál sem vitað var um í Garðaskóla tengdust alltaf víðtækari vanda hjá einstaklingunum. Þessi mál voru teljandi á fingrum annarrar handar en nú eru þau það ekki lengur. Skv. niðurstöðum könnunarinnar Ungt fólk 2016 höfðu 9% nemenda í 10. bekk Garðaskóla prófað að reykja kannabis. Miðað við núverandi nemendafjölda væru þetta um 15 unglingar. Viljum við það? Viljum við taka áhættuna sem fylgir því að fleiri unglingar prófi að nota efni sem eru ávanabindandi og geta haft mjög alvarleg og neikvæð áhrif á taugakerfið?
Við viljum það að sjálfsögðu ekki og hvetjum því foreldra allra unglinga í Garðabæ að rifja upp hvað minnkaði alla neyslu ávanabindandi efna meðal unglinga á Íslandi um árabil. Það var samstaða. Foreldrar töluðu saman, kynntu sig fyrir foreldrum vina barnanna sinna og hringdu til að vita hver tæki á móti barninu sínu í gistingu. Foreldrar fóru saman í rölt um bætinn og heimsóttu þá staði þar sem líklegt var að unglingar væru að gera það sem við vildum ekki að þeir væru að gera. Foreldrar stilltu sig saman og skiptu sér af öllu og það skilaði gífurlegum árangri.
Foreldrar barna og unglinga í Garðabæ eru öflugur hópur. Foreldrar eru samstilltir og umhyggjusamir. Þeir skipta sér af á jákvæðan hátt. Það er vopnið sem getur komið í veg fyrir að hugmyndin um skaðleysi kannabisefna komist á meira flug en raunin er orðin.
Nýir starfsmenn í Garðaskóla
Arnar Hólm Einarsson
Soffía Bæringsdóttir
Barbara Maria Zuchowicz
Karin Milda Varðardóttir
Vanda Cristina Agostinho Louro
Ari Jóhannsson
Katrín Halldórsdóttir
Guðný Rut Gylfadóttir
Erla Karlsdóttir
Alexey Matveev
Hagnýtar upplýsingar á heimasíðu Garðaskóla
Á vefsíðu Garðaskóla eru upplýsingar um starf skólans alltaf aðgengilegar.
Tölvu- og netstefna Garðaskóla og aðgangur nemenda að þráðlausu neti
Garðaskóli
Kl. 7:30-15:00 mán-fim
Kl. 7:30-14:30 fös
Starfsmenn skrifstofu:
Anna María Bjarnadóttir, ritari
Óskar Björnsson, skrifstofustjóri
Email: gardaskoli@gardaskoli.is
Website: www.gardaskoli.is
Phone: 590-2500
Facebook: https://www.facebook.com/Gar%C3%B0ask%C3%B3li-635137559954040/