Fréttabréf Engidalsskóla ágúst 2021
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Fréttabréf Engidalsskóla
Hér má líta fyrsta fréttabréf skólaársins 2021-2022. Skólinn heldur áfram að stækka og í vetur munu nemendur í 1.-7. bekk sækja hann, samtals um 220 nemendur. Við höfum fengið töluvert af nýju starfsfólki annarsvegar vegna stækkandi skóla en líka til að leysa af í fæðingarorlofi en nú þegar hafa þrjú börn fæðst starfsmönnum skólans og eiga þrír til viðbótar von á sér á næstu vikum. Unnið er í að uppfæra heimasíða skólans engidalsskoli.is en þar á að vera hægt að finna upplýsingar um starfsmenn skólans. Þið sem fáið nýjan umsjónarkennara fyrir ykkar barn ættuð að vera farin að fá póst frá þeim um foreldrasamráðsdaginn. 1. ágúst hóf störf hjá okkur nýr skrifstofustjóri, Lilja Hrönn, sem mun svara þegar þið hringið í síma skólans 5554433. Við minnum á að hægt er að skrá veikindi nemenda í gegnum mentor.is.
Því miður lítur út fyrir að við verðum að takmarka heimsóknir foreldra í skólann allavega fyrst um sinn og ekkert verður um stórar samkomur líkt og skólasetning. Foreldrar fá að koma í samtal sem við höfum nefnt foreldrasamráð en þá eru þið ein í rýminu með kennurum og eigið ekki að þurfa hitta neina aðra. Við biðjum ykkur að mæta með grímu og starfsmenn sjá um að sótthreinsa á milli samtala. Líkt og síðasta vetur munum við leggja ofur áherslu á vellíðan nemenda og munum við fylgja því eftir með ýmsum leiðum sem eru meðal annars tíundaðar hér neðar í þessu fréttabréfi. Eftir töluvert samráð eru starfsmenn sammála um að breyta einkunnar orðum skólanas úr ábyrgð, virðing og vinátta í ábyrgð, virðing og vellíðan.
Gæsla er í skólanum frá kl. 8:00-8:10 auk þess sem nemendur geta mætt 7:45 og fengið sér hafragraut sér að kostnaðarlausu, grauturinn er í boði til kl. 8:05. Þá er mikilvægt að minna á Skólamat en hægt er að kaupa bæði ávexti að morgni og hádegismat hjá þeim. Skráning fer fram í gegnum skolamat.is en þar er líka hægt að sjá matseðil næstu viku. Sé barn með ofnæmi, óþol eða einhverja sérþarfir varðandi mat er mikilvægt að láta vita af því, þau eru mjög tilbúin að koma til móts við þarfir barna í mat. Við leggjum áherslu á að þau börn sem ekki verða í mataráskrift komi með holt og næringaríkt nesti.
Við hlökkum afskaplega til að nemendur komi í hús og væntum góðs og skemmtilegs samstarfs við ykkur foreldra/forsjáraðilar.
Með bestu kveðju stjórnendur Engidalsskóla.
Skólasetning ágúst 2021
Foreldrar/forsjáraðilar ættu að hafa fengið boð frá umsjónarkennurum um að mæta til samráðsfundar. Fundunum verður dreyft á mánudaginn 23. og þriðjudaginn 24. ágúst næst komandi. Hvert viðtal tekur um 15 mínútur og eru nemendur og foreldrar hvattir til að mæta vel undirbúnir. Umræðuefni fundanna verður, hvaða væntingar foreldrar og nemendur gera til skólaársins og eru nemendur beðnir að setja sér bæði félagsleg og námsleg markmið. Ekki verður hefðbundin skólasetning á sal skólans heldur mun skólastjóri senda rafræna kveðju með helstu áhersluatriðum vetrarins til foreldra/forsfjáraðila í tölvupósti 24. ágúst.
Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá 25. ágúst. Hér má nálgast skóladagatal skólaársins 2021-2022.
Foreldrasamráð í skólabyrjun
Áhersla fundanna verður að heyra hvað nemendur og foreldrar vilja fá út úr komandi skólaári. Nemendur setja sér bæði félagsleg og námsleg markmið og koma með hugmyndir um hvernig hann kemst þangað, hvað hann þarf að gera og hvernig skólinn getur stutt við hann svo hann nái markmiðum sínum. Foreldrar munu fá sent eyðublað (sambærilegu því sem hér sést til hliðar) og geta valið að senda þetta inn rafrænt eða prenta það út og mæta með það á samráðsfundinn. Kennarar verða með kynningu á starfi bekkjarins síðar í haust þar sem námsefni og skipulag kennslu verður kynnt, þetta samtal er ekki hugsað til að fara yfir praktísk atriði (nema í 1. bekk). Mikilvægt er að foreldrar hafi áhrif á námbarna sinna og bæði foreldrar og nemendur hafi rödd þegar nám barna er skipulagt, það er því mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir samtalið.
Uppeldi til ábyrgðar
Heilsueflandi grunnskóli - Líðan, hreyfing og nestismál
Engidalsskóli er heilsueflandi grunnskóli, hugmyndin um heilsueflandi skóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu. Áhersluþættirnir eru átta; nemendur, nærsamfélag, hreyfing og öryggi, mataræði og tannheilsa, heimili, geðrækt, lífsleikni og starfsfólk.
Í vetur munum við leggja mikla áherslu á lífsleikni og geðrækt með áherslu á sjálfsmynd nemenda. Nemendum gefst tækifæri til að taka þátt í sjálfsræktarsmiðju þar sem grunnurinn verður námsefni, UPRIGHT, sem verið er að þróa.
UPRIGHT er samevrópskt verkefni með það að markmiði að þróa námsefni og námsumhverfi sem á að stuðla að vellíðan og seiglu meðal ungmenna með heildrænni nálgun í skólasamfélaginu. Við erum afskaplega stolt af því að efnið verður prufukeyrt í Engidalsskóla.
Foreldrar munu á næstu dögum fá send viðmið um það nesti sem við teljum að henti grunnskólabörnum, þetta gerum við af gefnu tilefni þar sem við sjáum sum börn koma með mjög næringasnautt nesti. Við munum styðjast við viðmið Landlæknisembættis og köllum eftir góðu samstarfi við foreldra. Vel nærð börn eiga betra með að einbeita sér og mataræði getur haft áhrif bæði á lærdómsgetu og hegðun. Börn verja stórum hluta dagsins í skólanum eða á skólasvæðinu og því er mikilvægt að þau fái hollan og góðan mat í skólanum.
Mikilvægt er að allir passi vel upp á svefninn. ,,Börn taka inn mikið af upplýsingum yfir daginn og eru stöðugt að læra eitthvað nýtt. Í svefni er unnið úr þessum upplýsingum, þær flokkaðar og festar í minni. Nægur svefn eykur einnig einbeitingu og móttækileika fyrir nýjum upplýsingum. Það þarf því ekki að koma á óvart að börn sem fá nægan svefn ná betri árangri í námi og íþróttum en börn sem sofa of lítið." Þessi texti er tekinn úr grein sem opna má hér en eins er mikið af leiðbeiningum inni á vef Sálstofunnar, Heilsuveru og vef Landlæknis. Við munum eiga samtal við nemendur í vetur um mikilvægi svefns meðal annars hvernig hann getur hjálpað þeim við að ná markmiðum sínum.
Lestur og annað heimanám
Heimanámsstefna skólans er í endurskoðun en við erum ekki að gera ráð fyrir öðru heimanámi nemenda en lestri nema þá í undantekninga tilfellum og þá ólíkt hefðbundu heimanámi sem flestir þekkja. Sé það vilji nemenda og foreldra að fá meira heimanám er hægt að vera í sambandi við umsjónarkennara og lausn verður fundin á því. Ástæða þessara breytinga á heimanáminu er að ekki hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti (nema síður sé) að heimanám umfram lestur skili árangri.
Áhugasvið nemenda
Samþætt frístundastarf - Frístundafjör og Stundafriður
Búið er að taka frá 30 mínútur á dag fyrir 3.-7. bekk en 40 mínútur fyrir 1.-2. bekk í þetta verkefni. Morgunfrímínútur 1.-4. bekkjar hafa verið lengdar úr 20 í 30 mínútur. Morgunfrímínútur 5.-7. bekkjar eru áfram 20 mínútur en síðari frímínútur eru teknar undir Frístundafjör og Stundafrið. Með þessum breytingum erum við að reyna að koma betur til móts við öll börn sérstaklega þau sem eiga erfitt með að finna félaga eða eitthvað við að vera í frímínútum. Áfram verður í boði að velja fótbolta og frjálsan leik en við aukum gæslu með frjálsa leiknum og bjóðum upp á margt annað og vonum að þannig náum við að koma til móts við alla.
Reykjaferð 7. bekkjar
að auka samstöðu og efla samvinnu milli kennara og nemenda
- að auka félagslega aðlögun nemenda
- að þroska sjálfstæði nemenda
- að nemendur fáist við áður óþekkt viðfangsefni
- að nemendur kynnist nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta
- að örva löngun nemenda til að athuga og rannsaka umhverfið og komast að niðurstöðu
- að auka athyglisgáfu nemenda
Foreldrar nemenda í 7. bekk hafa fengið sent bréf um nánara skipulag en einnig er hægt að skoða heimasíðu skólabúðanna hér.
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433