
Fréttabréf Flóaskóla
maí 2025
Kæra skólasamfélag
Að venju er margt um að vera í skólanum, framundan eru vorverkin og ýmsir viðburðir tengdir þeim.
Nýtt þema hófst eftir páska og verður það kennt til vors, unnið er út frá grunnþættinum sjálfbærni og er áherslan á vatnið, hafið, orkunýtingu, vatnsnotkun og vatn í nánasta umhverfi.
Uppskeruhátíðir tengdar lestri verða í 4. og 7. bekk, Litla upplestrarhátíðin í 4. bekk og Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk.
Smiðjur verða haldnar í Flóaskóla þar sem nemendur Listaháskóla Íslands stýra fjölbreyttum smiðjum og afraksturinn verður svo settur upp í sýningu í Félagslundi.
Eina viku í maí er vorskólavika þar sem nemendur í verðandi 1. bekk koma í skólann og kynnast flestum innviðum hans í leik og starfi.
Hið árlega Royalkvöld verður haldið fyrir 7.-10. bekk mánudaginn 26. maí. Þá mæta nemendur í sínu fínasta pússi í Þjórsárver kl 18:00, borða fínan mat, fara í samkvæmisleiki og skemmta hvert öðru.Skólahreystin verður haldin 6. maí og við erum að sjálfsögðu með okkar keppnislið þar.
Mánudaginn 2.6. er íþróttadagur og kl 17:00 þann dag er útskrift 10. bekkjar.
Skólaslit eru svo kl 10:00 þriðjudaginn 3. júní.
Nánari upplýsingar um þessa viðburði og fleiri s.s. langspilsvöku, vorferðir nemenda, skólaþing og skóladagatal 25-26 má finna hér neðar í Fréttabréfinu.
Við í skólanum óskum ykkur öllum gleðilegs sumars
með kærum þökkum fyrir viðburðarríkan og farsælan vetur.
Þórunn Jónasdóttir
Söngleikurinn Grease fluttur af 1.-7. bekk
Fimmtudaginn 3. apríl var heldur betur hátíðisdagur í Flóaskóla. Þá stigu allir nemendur í 1.-7. bekk á svið og tóku þátt í söngleiknum Grease. Leiksýningin var einstaklega vel heppnuð og öllum til mikils sóma. Það voru forréttindi að fá að fylgjast með öllum sem komu að verkefninu, allir samhentir og tilbúnir að leggja allt að mörkum til að ná sem bestum árangri. Sjón er sögu ríkari og hér fyrir neðan er hlekkur á sýninguna.
Stærðfræðiþraut í tilefni af degi stærðfræðinnar
Nokkrir kennarar skipulögðu þraut, í tilefni af degi stærðfræðinnar, sem lögð var fyrir nemendur, ýmsum hlutum var komið fyrir inni í dósum og krukkum og nemendur áttu á giska á þyngd hvers íláts, þar voru m.a. garn, möndlur, girðingalykkjur, hveiti og fleira. Síðan var aukaverkefni að búa til dæmi þar sem útkoman væri sem næst 1,5 kg. Nemendur á yngsta stigi sýndu mikinn metnað í verkefninu, skiluðu inn langflestum lausnum og hrepptu alls 5 verðlaun, Á miðstigi giskuðu nemendur á þyngdirnar en skiluðu ekki aukaverkefninu. Einungis tvær lausnir komu frá elsta stigi og voru hvorug þeirra til þess fallnar að hreppa verðlaun. Vinningshafar á yngsta stigi voru: Sölvi Þór, Brynhildur Katrín, Héðinn Fannar, Lilja og Guttormur. Á miðstigi var Viktor Logi hlutskarpastur.
Skólaþing 6.-10. bekkinga 9.4.
Skólaþing var haldið í vikunni fyrir páska. Þar tóku þátt nemendur í 6.-10. bekk ásamt kennurum. Skipt var upp í 10 vinnuhópa sem fengu 5 umræðuefni að fara yfir og taka afstöðu til. Ástæða þess að þessi aldurhópur var valinn er sá að tvö viðfangsefnanna eru tekin út úr Nemendakönnun Skólapúlsins sem þessi aldurshópur svaraði. Farið var stuttlega yfir niðurstöður Skólapúlsins áður en þau málefni voru rædd.
Viðfangsefnin sem nemendur ræddu voru þessi:
- Umgengni í skólabyggingunni, Þjórsárveri og á skólalóð, hvernig getum við bætt hana?
Hvað getið þið gert til að auka trú á eigin getu og auka þrautseigju? (úr Skólapúlsi)
- Skipuleggið einn viðburð eða einn skóladag þar sem skólinn blandast þvert á alla árganga
- Virk þátttaka nemenda í tímum og tíðni leiðsagnarnáms Hvernig er hægt að breyta kennslustundum til að þið, nemendur, verðið virkari í tímum og hvað geta kennarar gert til að þið vitið betur hvernig gengur í náminu? (úr Skólapúlsi)
Smiðjur með uppsveitaskólunum. Ræðið um smiðjurnar og skráið niður ykkar hugmyndir
Hvað gekk vel og hvað má bæta?
Þessi vinna gekk afar vel. Nemendur voru mjög virkir í hópavinnunni og komu fram með góðar hugmyndir sem áhugavert verður að vinna úr. Í maí verður svo rýnihópur starfsmanna og fulltrúa nemenda í 6.-10. bekk sem fara yfir niðurstöður og ákveða á hvern hátt við getum bætt skólastarfið út frá niðurstöðum nemenda.
Skólaþing 1.-5. bekkjar á dagskrá 23.5.
Nemendur í 1.-5. bekk verða með skólaþing föstudaginn 23.5. kl 10:30-11:30. Aðaláhersla þess þings verður umgengni, samskipti og skólalóð.
Framkvæmdir á skólalóðinni
Töluverðar framkvæmdir hafa verið á skólalóðinni undanfarið. Búið er að skipta um undirlag undir rólunum og pannavellinum, búið að setja gúmmímottur kringum ærslabelginn en síðan var stærsta verkefnið að setja upp klifurgrindina sem sem skólinn fékk að gjöf á 20 ára afmælinu. Það var mikill spenningur hjá nemendum að komast í grindina og biðröð myndaðist fyrstu dagana. Þetta er sannarlega kærkomin mikil búbót í flóru leiktækja á skólalóðinni.
Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar í Flóaskóla þriðjudag 29.4.
Nú er nýafstaðin undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar. Nemendur í 7. bekk stigu öll á svið og fluttu ljóð að eigin vali eftir Þórarinn Eldjárn og textabút úr sögunni Kennarann sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Stóra upplestrarkeppnin er lestrarhátíð þar sem nemendur æfast í að lesa á sviði fyrir áhorfendur og leggja áherslu á framburð, vandaðan og skemmtilegan lestur, líkamsstöðu, raddbeitingu og fleira.Upplestur og framsögn er mikilvægur þáttur í lestrarnáminu og hluti af námsmati þeirra og dýrmæt reynsla sem nemendur öðlast með þátttöku sinni.
Dómnefnd skipuð þeim, Hjálmari Benónýsyni kennara, Bjarna Stefánssyni í Túni og Sólveigu Þórðardóttur frá Skúfslæk, valdi tvo þátttakendur og einn til vara sem verða fulltrúar Flóaskóla á Stóru upplestrarkeppninni í Árnesþingi sem haldin veður á Flúðum um miðjan maí, þar sem uppsveitaskólarnir fimm eiga einnig fulltrúa. Í þetta sinn eru það Nökkvi Steinn Jónsson og Kristján Reynisson sem verða fulltrúar skólans og Jón Bragason varamaður.
Foreldrar og forráðamenn, afar og ömmur mættu til að hlýða á upplesturinn og þáðu kaffiveitingar að honum loknum. Þetta var hátíðleg stund og nemendum til mikils sóma.
Námsferð til Brighton
Dagana 30.4.-4.5. verður starfsfólk Flóaskóla í námsferð í Brighton. Þar verður farið í skólaheimsóknir og síðan á námskeið í útikennslu. En hún er einmitt einn þeirra þátta í skólastarfinu sem við viljum efla á komandi árum.
Skólahreystiliðið okkar keppir 6. maí næstkomandi kl 14:00 í Mosfellsbæ
Smiðjur 8.-10. bekkja með uppsveitaskólum í Flóaskóla 8.-9. maí
Síðasta smiðjan, á elsta stigi, í uppsveitavalinu þennan veturinn verður haldin í Flóaskóla 8.-9. maí nk. Þessa daga kemur Listalestin til okkar, en það eru listnámsnemar úr Listaháskólanum sem koma og verða með smiðjurnar. Smiðjurnar eru óhefðbundnar að þessu sinni út af þessu samstarfi við Listaháskólann. Háskólinn hefur unnið að þessu verkefni Listalestinni undanfarin ár og hér á þessum hlekk https://veita.listfyriralla.is/title/listalest-lhi-2024/ má sjá afrakstur þessa verkefnis sem unnið var í Hvolskóla með nokkrum skólum í Skaftafells- og Rangárvallasýslum síðasta vor. Verkefninu lýkur með Listasýningu í Félagslundi kl 16:00 á föstudeginum, þangað eru allir velkomnir og viljum við hvetja alla til að gefa sér tíma til að koma og skoða afrakstur þessara metnaðarfullu listrænu verkefna. Það er upplifun fyrir bæði nemendur og aðra að sjá verkefnin sett upp á alvöru listsýningu.
Nemendur verða lengur í skólanum þessa daga, en tímasetningar og skipulag sjást hér fyrir neðan.
Nemendur mæta í skólann á hefðbundnum tíma 8:20.
Fimmtudagur 8. maí
8:20-9:30 hefðbundinn skóli
9:30-16:00 vinna í smiðjum með matarhléum og frímínútum
16:15 heimkeyrsla
Föstudagur 9. maí hefst vinna í smiðjum kl
8:20-9:30 hefðbundinn skóli
9:30-12:00 er kennsla í smiðjum síðan er hádegismatur.
12:40-13:20 fyrirlesturinn "Taktu pláss-heimurinn bíður eftir þér" frá Birnu Rún Eiríksdóttur í Þjórsárveri,
13.30-15:30 valstöðvar í boði Flóaskóla, t.d. boltaleikir, spil, útivist, vöfflubakstur o.fl.
15:30 skólabílar fara í Félagslund
16:00 listasýning opnar í Félagslundi, aðstandendur og aðrir velkomin
17:15 akstur heim frá Félagslundi
8. og 9. maí hjá yngsta og miðstigi
8. 5. Skólakórarnir okkar fara í ferð á Selfoss fyrir hádegi. Þeir nemendur sem ekki eru í kórunum verða í hefðbundinni kennslu í skólanum á meðan. Eftir hádegi fer allt yngsta stig á íþróttaleika í Þingborg í samstarfi við Þjótanda. En miðstig lýkur sínum skóladegi í Flóaskóla.
9.5. Nemendur á miðstigi fara í Þjórsárskóla í smiðjur. Eftir hádegi er miðstigshópurinn svo í íþróttum í Þingborg. Yngsta stig fer í vettvangsferð í tengslum við þemað, vatnið og kemur heim í skóla rétt fyrir kl 14:00.
Tilnefning til verðlaunahátíðar barna - Sögur
Hjördís fræðslustjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur upplýst okkur um að Langspilssveitin okkar var tilnefnd sem flytjandi ársins og jólatónleikarnir voru tilnefndir sem viðburður ársins, af Sinfóníuhljómsveit Íslands, á Sögur, verðlaunahátíð barnanna.
Sögur - verðlaunahátíð barnanna er haldin á hverju vori og er sýnd í beinni útsendingu á RÚV.
Hátíðin er lokapunkturinn í stóru samstarfsverkefni þar sem verk barnanna eru verðlaunuð og þau fá tækifæri til að verðlauna það menningarefni fyrir börn sem þeim finnst hafa skarað fram úr í barnamenningu á liðnu ári. Kosningin fer fram í apríl og maí. https://www.sogur.is/verdlaunahatidin. Auðvitað eru mörg verk og margir flytjendur tilnefndir en það er heiður og mjög ánægjulegt að fá þessa tilnefningu 🥰
Litla upplestrarhátíðin - 4. bekkur
Litla upplestrarhátíðin verður haldin hátíðleg hjá nemendum 4. bekkjar miðvikudaginn 14. maí n.k. og ber hún yfirskriftina Að verða betri í lestri í dag en í gær. Eru það Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, sem eru í forsvari fyrir hátíðina og gefa út lesefni hennar ár hvert.
Litla upplestrarhátíðin er nú haldin í 15 sinn. Hún er litla systir Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin er á hverju ári í 7. bekk. Í þeim báðum eru sömu markmið höfð að leiðarljósi, að efla upplestur, munnlega tjáningu og framkomu nemenda. Unnið er markvisst að því að bæta lestrarfærni og efla sjálfstraust nemenda í æfingaferlinu, ásamt því að sýna vandvirkni og virðingu.
Í Flóaskóla bjóða nemendur í 4. bekk foreldrum sínum að koma á lokahátíðina. Þar flytja nemendur sönglög, ljóð og annan texta sem þau hafa verið að æfa síðustu daga. Nemendur í 3. bekk eru gestir á hátíðinni og taka þátt í söngatriði í byrjun, enda eru þau að æfa sig því þau sjá um hátíðina að ári.
Að dagskrá lokinni verður boðið upp á kaffi, djús og bakkelsi.
Vorskóli verðandi 1.bekkinga
Vikuna 12.-16. maí er vorskólin í Flóaskóla þá koma verðandi 1.bekkingar í skólann og kynnast flestum þáttum starfsins. Þetta er mjög mikilvægur undirbúningur fyrir skólaskiptin og hjálpar börnunum við aðlögun að nýjum skóla. Fundur verður með foreldrum þessara nemenda miðvikudaginn 7.5. kl 18:00.
Brauðtertu og ostakökukeppni Konungskaffis og Kaffi Krúsar 26.5.
Eins og þið kannist eflaust við þá höfum við gaman af því að taka þátt í ýmiskonar keppnum og gaman að taka þátt á ólíkum vettvangi. Framundan er brauðtertu og ostakökukeppni Konungskaffis og Kaffi Krúsar og höfum við verið með valhóp núna á vorönn sem er að undirbúa sig undir þátttöku í keppninni undir leiðsögn Iðunnar Ýrar heimilisfræðikennara. Nánari upplýsingar: https://www.sunnlenska.is/frettir/braudtertu-og-ostakokukeppni-konungskaffi-og-kaffi-krusar/
Royalkvöld 7.-10 bekkur, mánudaginn 26. maí
Hefð er fyrir því að halda veislu í lok skólaárs, svokallað Royalkvöld. Við þetta tilefni eru 7. bekkingar boðnir velkomnir á elsta stig og 10. bekkingar eru kvaddir af unglingahópnum. Þetta er hátíðleg kvöldstund, með glæsilegum veitingum, allir í sínu fínasta pússi, salurinn skreyttur og gleðin við völd. Nemendur nota dagana fyrir Royalkvöldið í vinaleik, hver og einn dregur eitt nafn og sá er leynivinur viðkomandi þessa daga, á Royalkvöldinu upplýsa svo allir um hver þeirra leynivinur er.
Ferðir nemenda í maí
Föstudaginn 9.5. fara nemendur á yngsta stigi í vettvangsferð í tengslum við þema vorsins, vatnið.
Vikuna 19.-21.5. fara 10. bekkingar í útskrifarferðina sína að Bakkaflöt í Varmahlíð. Föstudaginn 30.5. er Útikennslu og grenndardagur í skólanum. Þann dag fara nemendur á yngsta stigi í Skagás ásamt elstu nemendum Krakkaborgar, verja þar deginum við leik og störf og grilla saman pylsur. Nemendur á miðstigi fara saman í ferð í Alviðru í Ölvusi, en það er fræðslusetur Landverndar. Einkunnarorð Alviðru eru: Fróðleikur, skemmtun, útivist. Nemendur á elsta stigi fara einnig í ferð þennan dag en skipulag þeirrar ferðar liggur enn ekki fyrir.
Eins og sjá má af þessari upptalningu þá er ekki þar að finna gistinætur nema hjá 10. bekk. Ákveðið hefur verið að fella niður tjaldútilegu sem verið hefur í nokkur ár hjá 7.-9. bekk, nemendur kusu milli nokkurra viðburða í skólastarfinu og niðurstaðan varð að þessi viðburður naut minnstrar hylli. Eins verður ekki af ferð 6.bekkjar um uppsveitir Árnessýslu og gistinótt í félagsheimili. Þetta eru breytingar sem stefnt er að varanlega ekki bara þetta skólaár.
Langspilsvaka 5.-6. bekkja
Eins og undanfarin ár smíðuðu nemendur í 5. bekk sér langspil á haustönn. Ekkert varð af langspilsvöku á þeim tíma af því að stóra verkefnið með Sinfóníuhljómsveitinni tók mikinn tíma. Við viljum þó gjarna halda við þeirri hefð að hafa langspilsvöku og stefnt er að því að halda hana þriðjudaginn 20. maí kl 18:00 í Þjórsárveri. Í þetta sinn verða það nemendur í 5. og 6. bekk sem stíga á stokk. Nánari útfærsla verður send út þegar slíkt liggur fyrir.
Útskrift 10. bekkinga og skólaslit
Mánudagurinn 2.6. hefst með íþróttadegi. Hann er skipulagður af nemendum og kennurum í 7.-10. bekk, en bekkirnir keppa þá sín á milli í ýmsum óhefðbundnum greinum. Í lokin eru svo fótboltaleikir milli bekkja og síðasti leikurinn er 10. bekkingar á móti starfsmönnum skólans.
Síðar þennan sama dag er svo útskrift 10. bekkjar kl 17:00 í Þjórsárveri. Búast má við um klukkustundar langri dagskrá. Hefð er fyrir því að vera með Pálínuboð, fjölskyldur útskriftarnemenda koma með meðlæti á kaffiborð og boðið er til veislu að útskrift lokinni.
Þriðjudag 3.6. eru svo skólaslit kl 10:00 í Þjórsárveri, þá mæta nemendur í 1.-9. bekk ásamt foreldrum / forráðmönnum. Stutt dagskrá er í Þjórsárveri en síðan fara nemendur í sínar heimastofur með umsjónarkennurum og taka við vitnisburðum vetrarins, kveðja og halda út í sumarið.