Heiðarskóli
Samvinna skilar árangri
Kæru foreldrar/forráðamenn.
Við þökkum fyrir góða mætingu í dag á skólasetninguna. Við upplifðum gleði og spenning hjá flestum meðan einhverjir upplifðu smá kvíða sem er alveg eðlilegt. Saman ætlum við öll að gera skólaárið árangursríkt og skemmtilegt og leggja áherslu á að líða vel í starfi og leik.
Við höfum tekið ákvörðun að senda fréttabréf til ykkar í vetur sem í verða ýmsar upplýsingar um það sem er að gerast í skólastarfinu okkar en einnig munum við dreifa fróðleik og skemmtilegum sögum. Eins og ég sagði svo oft í dag og nefni hér aftur, þá viljum eiga gott samstarf við ykkur og hvetjum ykkur til að hafa samband og ræða málin.
Hlökkum til samstarfsins í vetur.
f.h. stjórnenda
Lóa Björg Gestsdóttir
Skólastjóri
Fyrsti skóladagurinn
Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 24. ágúst. Nemendur í 1. bekk mæta á skólasetningu kl. 8:10 en fara svo í sínar heimastofur.
Skrifstofa skólans opnar kl. 7:30 alla daga. Forföll er hægt að tilkynna í gegnum Mentor eða á skrifstofu skólans í síma 420 4500. Mikilvægt er að tilkynna forföll áður en skóli hefst.
Við minnum á heimasíðuna okkar, en þar má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi skólann og skólastarfið. Hlekkur á heimasíðuna og Facebook síðu skólans má sjá hér fyrir neðan.
Fyrsti skóladagurinn er Uppbyggingarstefnudagur, þá vinna nemendur að verkefnum tengd uppbyggingu með sínum umsjónarkennara. Nemendur í 1. - 4. bekk vinna að þessum verkefnum frá kl. 8:10 - 11:10 (fjórar kennslustundir) og nemendur í 5. - 10. bekk vinna að þessum verkefnum frá kl. 9:50 - 11:50 (þrjár kennslustundir).
Skólasamfélagið okkar
Eins og staðan er í dag eru 421 nemandi við skólann og 70 starfsmenn. Við bjóðum bæði nýja nemendur og og nýtt starfsfólk velkomið í hópinn okkar. Sjö nýir kennarar eru komnir til starfa við skólann, 3 stuðningsfulltrúar og það er þó nokkuð um nýja nemendur.
Skólasamfélag samanstendur af starfsfólki, nemendum, foreldrum og nærumhverfi. Við í Heiðarskóla eru svo heppin að allt þetta fólk hefur metnað og áhuga til að vera skólasamfélag í fremstu röð. Við þurfum samt að passa að vökva vel rætur samfélagsins til að það haldi áfram að blómstra og vera jafn öflugt og það er. Það er ekki ofmælt að segja að samvinna og samstarf starfsfólks og foreldra er mikilvægasti lykillinn að farsælli skólagöngu barnanna.
Mentor
Á heimsíðu Mentors eru ítarlegar handbækur fyrir aðstandendur og nemendur undir liðnum Aðstoð, sjá link hér fyrir neðan. Ef aðstandanda vantar lykilorð þá er best að fara inn á innskráningarsíðuna á heimasíðu mentors og smella á Gleymt/nýtt lykilorð. Þar þarf að setja inn sína kennitölu (ekki kt. barnsins) í gluggann. Þið fáið þá nýtt lykilorð í tölvupósti á það netfang sem er skráð í mentor. Við hvetjum ykkur til að skoða mentor vel.
Skólaárið 2023-2024
Þá hefjum við skóláárið 2023 - 2024. Við höfum þá stefnu að nemendur eru settir í öndvegi og kappkostað að þeim líði vel, séu lífsglaðir, fróðleiksfúsir og að hæfileikar og færni hvers og eins fái notið sín. Við ætlum að hafa skólaárið gleðilegt og ánægjulegt og leggja öll okkar af mörkum að sýna hvort öðru kurteisi og virðingu.