Fréttabréf Engidalsskóla sept 2024
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Fréttabréf Engidalsskóla
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Engidalsskóli hefur farið vel af stað á þessu hausti. Við lögðum af stað mjög vel mönnuð með reynda kennarara og kennaranema í bland. Flestir okkar kennaranemar eru að ljúka námi í vor (5 árs nemar) en það er gott að hafa reynslu og nýjar hugmyndir í bland í skólastarfi þar sem á að vera gerjun. Við fengum nokkra nýja kennara í haust: Bryndís Eyjólfsdóttir 4. árs kennaranemi kom inn í 1. bekk, Sigurveig Birgisdóttir kom inn í 2. bekk en Sigurveig hefur áratuga reynslu af kennslu yngri barna. Með Sigurveigu í 2. bekk kom Karen Ýrr Hjaltested 5. árs nemi með 5 ára kennslureynslu frá Bretlandi og í 4. bekk kom Emilía Þorsteinsdóttir sem líkt og Sigurveig hefur áratuga reynslu af kennslu á yngsta stigi. Aldís Anna 5. árs nemi sem verið hefur hjá okkur í forföllum síðustu ár tók við 6. bekk. Sara Jóna Haraldsdóttir kom til okkar í byrjun september en hún mun leysa af í íþróttum fram á vor vegna fæðingarorlofs Elínar. Sara hefur áratuga reynslu af kennslu íþrótta í grunnskóla. Einn nýr stjórnandi bættist í hópinn en Stefán Haukur Gylfason gegnir nú hlutverki deildarstjóra yngsta stigs. Stefán hefur 10 ára reynslu af kennslu í grunnskóla og þekkir ágætlega til í Engidalsskóla en hann kenndi í sameinuðum Engidals- og Víðistaðarskóla í 5 ár. Helga Kristín Guðlaugsdóttir tók við stjórn skólabókasafnsins í haust en hún kemur til okkar frá Veðurstofunni og hefur lofað logni og blíðu þar.
Einhverjar breytingar hafa orðið í Álfakoti þar sem hluti af unga fólkinu fór til náms og aðrir komið í staðin. Nánar um það hér neðar í fréttum frá Álfakoti.
Í ljósi skelfilegs atburðar í samfélaginu hefur umræðan um aukið samstarf gegn uppeldi verið meira áberandi. Það sem einkennir ,,íslenska módelið" sem farið hefur um allan heim er samstaða allra sem að börnum okkar koma. Við leggjum áherslu á að vera með skýrar reglur og samræmdar reglur eins og útivistatíma, kynnumst vinum barna okkar og foreldrum þeirra og pössum upp á náungann. Ég hef áður hvatt foreldra til að gera með sér sáttmála. Heimili og skóli hafa í áratugi gert fyrirmyndir að sáttmálum sem í dag bera heitið farsældarsáttmáli.
Gott samstarf allra sem koma að hverju og einu barni hefur sýnt sig að skiptir mjög miklu máli fyrir líðan og velgengni barnsins. Þar erum við að tala um samskipti í bekkjum, samskipti heimilis og skóla og samskipti milli foreldra þeirra barna sem sækja sama skóla, æfa saman íþróttir og leika saman. Færa má sterk rök fyrir því að foreldrar séu mikilvægasta breytan þegar kemur að velgengni barnanna í lífinu. Þegar foreldrar sýna barni sínu umhyggju og aðhald, taka þátt í daglegu lífi þess, sýna náminu áhuga og miðla jákvæðu viðhorfi til menntunar eru meiri líkur á að börnum líði vel, þau standi sig vel í námi og velji síður áfengi og önnur vímuefni. Þátttaka foreldra í skólastarfinu og hversu vel þau þekkja skólafélaga barnanna sinna og foreldra þeirra skiptir miklu máli.
Bekkjarfulltrúa þarf í hvern árgang. Starf bekkjarfulltrúa er ekki og á ekki að vera íþyngjandi heldur gefandi og skemmtilegt. Í lögum foreldrafélags Engidalsskóla kemur fram að hlutverk bekkjarfulltrúa sé að efla og styrkja samstarf foreldra og barna og leitast við að treysta sambandi heimilis og skóla innan hverrar bekkjardeildar með nánu samstarfi við umsjónarkennara. Samstarfið í bekknum er einn allra besti samráðs- og samstarfsvettvangur sem foreldrar hafa um uppeldi og menntun barna sinna.
Mikilvægt er að foreldrar ræði um uppeldisleg viðmið sín á milli – t.d. samskipti, útivistartíma, tryggja að yngstu börnin láti foreldra vita þegar þau fara í heimsókn til skólafélaga eftir skóla, afmælisboð, gistingar, símanotkun, tölvunotkun, notkun á samskiptamiðlum, partý o.s.frv.
Foreldrafélag Engidalsskóla er ungt félag sem þó hefur komið inn með krafti og þeir viðburðir sem félagið hefur staðið að hafa verið mjög vel sóttir. Þarna er vettvangur fyrir foreldra til að hafa áhrif á starfið. Foreldrafélagið á fulltrúa í Skólaráði þar sem lagðar eru fyrir allar breytingar sem gerðar eru á skólastarfinu til að mynda starfsáætlun, skólanámskrá og skóladagatal fer þar til samþykktar svo eitthvað sé nefnt. Þannig að þar er virkilega hægt að hafa áhrif. Lög félagsins og fundargerðir má finna á heimasíðu skólans.
Á heimasíðu Heimilis og skóla má sjá leiðbeinandi hlutverk foreldrafélaga:
Hlutverk foreldrafélagsins er meðal annars eftirfarandi:
- Að styðja við skólastarfið.
- Stuðla að velferð nemenda skólans.
- Efla tengsl heimilis og skóla.
- Hvetja til virkrar þátttöku foreldra í skólastarfi.
- Hagsmunagæsla, aðhald og eftirlit með skólastarfinu.
Aðallfundur foreldrafélagsins verður á næstu vikum (nánar auglýst síðar) og hvetjum við ykkur til að mæta og taka þátt í því góða starfi sem þar fer fram.
Eitt af okkar verkfærum til að stuðla að góðu samstarfi og upplýsingagjöf er fréttabréfið okkar. Í öllum fréttabréfum eru hnappar á gagnlega tengla eins og samvinnu um lestur, mentorleiðbeiningar og myndir af verkefnum nemenda, nestisleiðbeiningar og punkta er varðar uppeldi til ábyrgðar. Þá vekjum við athygli ykkar á að hægt er að finna öll eldri fréttabréf á heimasíðu skólans. Þá viljum við benda á mikið af gagnlegum upplýsingum og leiðbeiningum á heimasíðu Heimilis og skóla.
Síðasta haust gerðum við tilraun til að hefja samstarfið með svokölluðum líðanfundum. Þar komu saman foreldrar, umsjónarkennarar og skólastjórnandi. Þessir fundir koma í stað hinna hefðbundu haustfunda. Fundirnir byrja á stuttu innleggi skólastjóra á sal en svo fara foreldrar með umsjónarkennurum og einum skólastjórnanda í bekkjarstofur þar sem foreldrar ræða barnahópinn í heild og deila líðan sinna barna. Þessir fundir hafa mælst mjög vel fyrir í þeim skólum þar sem þeir eru hefð. Mikilvægt er að það mæti allavega einn frá hverjum nemanda. Fundirnir hefjast sem hér segir á sal skólans:
17. september kl. 17:30 - 1. - 2. bekkkur - Íris og Stefán
19. september kl. 17:30 - 3. og 4. bekkur - Stefán og Margrét
19. september kl. 19:30 - miðstig - Inga María, Íris Anna og Margrét
Við hlökkum til ánægjulegs samstarfs og höfum afríska máltakið ,, það þarf heilt þorp til að ala upp barn" að leiðarljósi.
Með bestu kveðju,
Skólastjórnendur Engidalsskóla.
Fréttir úr Álfakoti
Kæru foreldrar og forsjáraðilar,
Það má með sanni segja að undanfarnir dagar hafa verið erfiðir vegna mikillar manneklu hjá okkur. Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir veittan skilning þegar við höfum þurft að loka vegna þessa en fall er fararheill og vonandi fer þetta bara upp á við héðan af.
Ráðningarnar gengu ágætlega og eru fimm nýir starfsmenn sem hófu störf í ágúst/september. Það eru þau Helga Sóley, Róbert Dagur, Kristján Már, Olena og Pavlo.
Við höfum tekið mið af foreldrakönnun sem send var út í vor hvernig við getum bætt starfið hjá okkur og var þá helst talað um meiri upplýsingar um starfið í frístund. Við höfum hengt upp dagskrá Álfakots sem og val dagsins í anddyrum allra Hjartarýma og þegar hlutirnir eru farnir að rúlla ætlum við að hafa klúbbastarf á hverjum degi. Upplýsingarnar um klúbbastarf verður inni í Hjartarýmum og þið eruð alltaf velkomin að kíkja þar inn og skoða hvað er í boði.
Kær kveðja,
Magnea og starfsfólk Álfakots
Fréttir úr Dalnum félagsmiðstöð
Kæru foreldrar og forsjáraðilar,
Í síðustu viku byrjaði Dalurinn á nýjan leik eftir sumarfrí. Það var mjög mikil spenna hjá nýliðum okkar í 5.bekk og voru þau stútfull af hugmyndum um hvað þeim þætti gaman að fá að gera í Dalnum. Við höfum sett upp hugmyndakassa og erum við að benda krökkunum á að setja hugmyndir í kassann. Við ætlum svo reglulega að fara yfir hugmyndirnar og flokka þær eftir hægt að gera, kannski og ekki hægt að gera. Þannig stuðlum við að lýðræði barnanna í Dalnum og mætum óskum þeirra.
Það eru fjórir starfsmenn sem eru með fastar vaktir í Dalnum en það eru þau Julia, Högni, Amanda og Maria José.
Mig langar að minna á að Engidalsskóli er símalaus skóli og það sama gildir um Dalinn. Við þurfum samt að fá ykkur og börnin með okkur í lið til þess að þetta gangi vel.
Kær kveðja,
Magnea og starfsfólk Dalsins
Upptaka frá foreldrafundi Heimilis og skóla í Hafnarfirði
Dalurinn
Uppeldi til ábyrgðar - Skýr mörk Engidalsskóla
Haustið 2021 hóf Engidalsskóli innleiðingu á uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Innleiðingin hefur gengið vel og munum við halda henni áfram á þessu skólaári. Lykil spurning stefnunnar er hvernig manneskja viltu vera? Gengið er út frá því að þú sért við stjórnvölinn á eigin hegðun og þó við gerum öll mistök er mikilvægt að læra af þeim. Við forðumst ásakanir, afsakanir, skammir, tuð og uppgjöf og segjum JÁ eins oft og við getum. Það er alltaf hægt að segja já en stundum þarf þó að setja skilyrði í framhaldi, já þegar við erum búin að þessu eða þegar þú ert orðinn x gamall og svo framvegis. Við förum yfir hlutverk hvers og eins með nemendum, skilgreinum þarfir okkar og gerum bekkjarsáttmála. Nánar má lesa um stefnuna á uppbygging.is
Í Engidalsskóla eru ekki skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er þá vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta. Minniháttar atvik leysum við á svokölluðu sáttarborði.
Í Engidalsskóla viljum við:
Ekkert ofbeldi hvorki líkamlegt né andlegt
Engin barefli né önnur vopn
Engin ávanabindandi efni eða fíkniefni þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur
Engar alvarlegar ögranir eða hótanir
Engin skemmdarverk
Enga áhættuhegðun
Engan þjófnað
Verkefni nemenda úr smiðjum
Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433