Fréttamolar úr MS
18. október 2024
Það fer að síga á seinni hlutann á haustönn og framundan þrjár annasamar vikur hjá nemendum og kennurum. Matsdagar eru á næsta leyti, föstudag 24. okt. og mánudag 28. okt. og mikilvægt fyrir nemendur að nýta þessa daga vel og mæta í sín verkefni og sjúkrapróf ef það á við.
Nú er aldeilis tíminn til að bretta upp ermar og taka námið mjög föstum tökum, mæta vel og sinna náminu af kostgæfni. Þannig er líklegra að uppskeran verði góð.
Vetrarönn hefst af krafti með 85 viku og nemendur geta því farið að finna til allskonar 80's klæðnað fyrir vikuna og ballið.
Dagsetningar framundan
23. okt.: Bleiki dagurinn
25. okt.: Matsdagur
28. okt.: Matsdagur
8. nóv.: Síðasti kennsludagur haustannar
19. nóv.: Fyrsti kennsludagur vetrarannar
18.-22. nóv: 85 vika SMS
21. nóv.: 85 ball
Hefur þú áhuga á tónlist?
Á vetrarönn geta nemendur sótt um að komast í áfanga þar sem nemendur læra undirstöðuatriði í því að búa til tónlist og fara í nokkrar tónsmíðaferðir í Tónhyl þar sem unnið verður að tónlistinni undir leiðsögn reynds tónlistarfólks. Áfanginn er samstarfsverkefni Menntaskólans við Sund og Tónhyls fyrir tilstilli styrkts úr Sportasjóði.
Nemendur geta nú óskað eftir að taka þátt með því að hafa samband við Einar Rafn kennara (einarth@msund.is).
Orðsending til foreldra vegna hækkunar á gjaldi í foreldraráð MS
Kæru forráðamenn,
Við viljum byrja á að þakka ykkur fyrir stuðning við Foreldraráð MS sem erum við öll.
Árið 2017 var upphaf þess að gjald var sett, sem rann til foreldraráðs MS. Í upphafi var ekki ljóst hvernig sjóðurinn myndi þróast og í hvað nákvæmlega peningarnir færu.
Edrú potturinn hefur nú sýnt gildi sitt og er mikilvægur þáttur í að styðja og efla krakkana til að forðast áfengi. Á síðasta skólaári var tekin ákvörðun hjá skólanum að skylda alla nýnema að blása við komu á ball. Sem hefur aukið þátttöku nemenda í pottinum til muna, sem er vel. Við hvert ball rennur í heildina 150.000 kr. í gjafakort, sem um 30 nemendur njóta góðs af og böllin eru fjögur á skólaári. Við viljum styrkja þennan pott enn frekar. Einnig veitum við styrki til skólastarfsins, kaupum fyrirlestra fyrir okkur forráðamenn og nemendur. Allar ábendingar um fyrirlestra eða málefni eru vel þegnar.
Gjaldið hefur verið óbreytt frá árinu 2017 eða 350 kr á önn. Til að tryggja að við getum viðhaldið og eflt þetta mikilvæga starf hefur verið ákveðið að hækka gjaldið úr 350 kr. í 1.000 kr. á önn. Þessi hækkun er nauðsynleg til að við getum áfram haldið að vaxa og dafna með hagsmuni ungmennana okkar að leiðarljósi.
Fyrir foreldra með tvö eða fleiri ungmenni í skólanum þarf einungis að greiða fyrir eitt ungmenni. Vinsamlega hafið samband við skrifstofu skólans ef þetta á við um ykkur!
Með bestu kveðjum,
Stjórn foreldraráðs MS
Gettu betur forpróf ⌛📝
Gettu betur forpróf fara fram þriðjudaginn 22. október og fimmtudaginn 24. október kl. 12:05 í stofu ÞRÍ22. Einnig mun málfundarfélagið ganga í stofur í Krossgötum og kynna forprófin. Hvetjum öll til að mæta!
Stöðupróf í dönsku og spænsku í MS 25. október
Þann 25. október næstkomandi fara fram stöðupróf í dönsku og spænsku í MS. Dönskuprófið er aðeins fyrir nemendur MS og hefst kl. 11. Spænskuprófið er opið öllum og hefst kl. 13. Nemendur geta fengið allt að 20 einingar metnar í tungumálinu með stöðuprófi. Athugið að gert er ráð fyrir góðri þekkingu á málinu til að taka stöðupróf, þ.e. að hafa dvalið langdvölum í landi þar sem tungumálið er talað eða hafa það sem annað mál / móðurmál.
Skráning í spænskuprófið fer fram hér: https://www.msund.is/is/vidburdir/stoduprof-i-spaensku
Fyrir dönskuprófið þarf að hafa samband við Hildi Höllu náms- og starfsráðgjafa (hildurhg@msund.is).
Próftökugjald er 15.000 kr. og er óendurkræft og ganga þarf frá greiðslu í síðasta lagi þriðjudaginn 22. október.
Stöðupróf í Kvennó 8. nóvember
Stöðupróf í albönsku, arabísku, filippeysku (filipino) og víetnömsku verða haldin í Kvennaskólanum í Reykjavík föstudaginn 8. nóvember kl. 14:30.
Prófin verða í húsnæði Kvennaskólans að Fríkirkjuvegi 1.
Mest geta nemendur fengið 20 einingar metnar, 15 einingar á 1. þrepi og 5 einingar á 2. þrepi.
Skráning og nánari upplýsingar hér að neðan ⏬
Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna 🎬
Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna hefur opnað fyrir umsóknir. Hátíðin verður haldin í Bíó Paradís 15.- 16. mars 2025.
Skilafrestur til að senda inn myndir er mánudaginn 2. desember 2024
Það eru veitt verðlaun á hátíðinni m.a fyrir bestu myndina, besta leik, bestu tæknilegu útfærsluna, bestu myndatökuna, uppáhalds mynd áhorfenda o.s.fv. Til dæmis eru hæstu verðlaun (það er fyrir bestu myndina) sumarnámskeið í New York Film Academy!!! Heiðursgestir hátiðinnar síðustu árin hafa verið t.d. - Gísli Örn Garðarsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Dagur Kári og Jón Gnarr.
Athugið að myndin sjálf þarf ekki að vera tilbúin fyrir 2. desember, það er í lagi að senda inn umsókn þótt myndin sé ekki kláruð. Við köllum síðan eftir myndunum sjálfum í lok janúar. Hægt er að skila inn umsókn á www.filmfestival.is
Góðgerðarvika SMS 2024 💗
Góðgerðarvika Menntaskólans við Sund fór fram vikuna 30. september til 4. október 2024. Góðgerðarvika er árlegur viðburður á vegum skólafélags MS, þar sem Hagsmunaráð SMS stendur fyrir ýmsum viðburðum til styrktar góðu málefni. Í ár rann allur ágóði vikunnar til Barnaheilla, sem vinna að bættum hagsmunum barna á Íslandi og erlendis.
Ýmsar áskoranir voru lagðar fram og lögðu nemendur mikið á sig til að styðja við málefnið. Meðal annars hlupu þrír nemendur til Hveragerðis, miðhópur fékk sér húðflúr, nemendur gátu keypt rjómadiska og kastað á starfsfólk skólans, SMS stuttermabolir voru til sölu og margt fleira. Allar áskoranirnar má sjá á Instagram síðu skólafélagsins og hagsmunaráðs. Viðbrögðin voru frábær og þátttakan mikil, sem sýnir samhug og samstöðu nemenda og starfsfólks.
Samtals söfnuðust 300.000 krónur til styrktar Barnaheilla. Framkvæmdarstjóri samtakanna, Tótla I. Sæmundsdóttir, tók við styrknum við formlega athöfn í matsal skólans þann 9. október síðastliðinn.
Hagsmunarráð SMS þakkar öllum sem lögðu sitt af mörkum, bæði nemendum, starfsfólki og öðrum stuðningsaðilum.
Ráðið vill minna á heimasíðu Barnaheilla, www.barnaheill.is, ásamt söfnunarreikning fyrir frjálsframlög samtakanna. Kennitala: 521089-1059 og reikningsnúmer: 0327-26-1989.