Fréttir úr Varmahlíðarskóla
15. september 2020 2 fréttabréf
Starfsdagur föstudaginn 18. september
Samræmd próf í 4. og 7. bekk
Nú líður að fyrirlögn samræmdra prófa í 4. og 7. bekk. Búið er að senda heim upplýsingapóst og bréf til forráðamanna.
Kennarar vinna nú með nemendum að undirbúningi prófanna á ýmsan hátt.
Mikilvægt er að nemendur fái góða hvíld fyrir prófdagana og séu vel upplagðir.
Gott er að ræða við nemendur um að prófin séu verkefni sem þarf að leysa og að allir geri sitt besta.
Prófdagar 7. bekkjar eru fimmtudagur, 24. september - íslenska og föstudagur, 25. september - stærðfræði. Prófdagar 4. bekkjar eru miðvikudagur, 30. september - íslenska og fimmtudagur, 1. október - stærðfræði.
Gaman saman
Í vikunni fóru nemendur í 1. og 2. bekk út og skoðuðu blóm og tíndu laufblöð í nágrenni skólans. Verið er að vinna með bókina "Blómin á þakinu" í Byrjendalæsi og höfum við unnið margvísleg verkefni í tengslum við hana. Meðal annars höfum við föndrað blóm og sett þau á "þak" í gluggunum í stofunni okkar. Laufblöðin sem við tíndum, eru komin í pressun og verða nýtt í föndur á næstunni.
Þá fengum við krakkana úr skólahópi Birkilundar í heimsókn til okkar í vikunni og áttum mjög góða og skemmtilega samverustund. Við fórum umhverfis skólann og kynntum okkur skólalóðina. Einnig fórum við í bekkjarstofu 1. og 2. bekkjar og lékum saman í stöðvavinnu
Nemendafélag Varmahlíðarskóla - kosningar
Nú styttist í kosningar nemenda í stjórn nemendafélags Varmahlíðarskóla. Nemendafélagið vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Stjórn nemendafélagsins er skipuð fulltrúm úr hverjum árgangi í 6.-10. bekk sem nemendur velja sjálfir. Í 6.-9. bekk er einn aðalmaður og annar til vara en tveir fulltrúar í 10. bekk og tveir til vara. Fulltrúar 10. bekkjar eru jafnframt formenn nemendafélagsins og fulltrúar nemenda í skólaráði.
Varúð vegna vegaaframkvæmda í Varmahlíð
Um þessar mundir eru miklar vegaframkvæmdir á veginum upp að Varmahlíðarskóla. Stór og mikil vinnutæki að störfum sem vegfarendum getur stafað hætta af. Nemendur skólans hafa ekki leyfi til að yfirgefa skólalóð á skólatíma. Í vettvangsferðum okkar með nemendur leggjum við áherslu á að nota gönguleiðir sunnar eða norðar í hverfinu.
Nú þegar íþrótta- og tómstundastarf fer af stað og umferð gangandi barna eykst að loknum skóladegi biðlum við til foreldra að eiga samtal við börnin um að ganga ekki veginn þar sem framkvæmdirnar eru. Það er afar mikilvægt að allir vegfarendur sýni sérstaka aðgát og þolinmæði. Þannig tryggjum við betur öryggi okkar og annarra.
Varmahlíðarskóli
Email: varmahlidarskoli@varmahlidarskoli.is
Website: varmahlidarskoli.is
Location: Birkimelur 2, Varmahlíð, Iceland
Phone: 4556020