Fréttabréf Grenivíkurskóla
2. tbl. 4. árg. - febrúar 2023
Kæra skólasamfélag
Þá er fyrsti mánuður ársins þotinn hjá og við tekur febrúar með hækkandi sól, bollu-, sprengi- og öskudegi og ýmsu fleiru skemmtilegu. Undir lok mánaðar verður vetrarfrí í skólanum en starfsfólk skólans mun nýta fríið vel og fara í námsferð til Svíþjóðar.
Foreldraviðtöl verða mánudaginn 20. febrúar, en dagana 21.-24. febrúar er svo frí hjá nemendum. Nánari upplýsingar um þetta berast þegar nær dregur.
Að öðru leyti stefnir í skemmtilegan mánuð þar sem skammdegið hörfar smám saman fyrir birtunni sem eykst með hverjum deginum sem líður, og áður en við vitum af verður komið vor.
Ég minni á að alltaf er hægt að hafa samband við skólastjóra eða umsjónarkennara ef spurningar vakna um nám og velferð nemenda, og hvetjum við ykkur til að vera í sambandi ef einhverjar áhyggjur vakna þar að lútandi.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Heilsueflandi skóli
Lífshlaupið hófst þann 1. febrúar, en það er árlegt heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambandsins. Markmiðið er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu, en í þeim segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Við hvetjum nemendur, starfsfólk og aðstandendur til að taka þátt í verkefninu. Nánar má fræðast um verkefnið á heimasíðu Lífshlaupsins.
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "Vinalegi febrúar". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Grænfánanefndin vill að þessu sinni vekja athygli á verkefninu Saman gegn sóun, en þar er áherslan lögð á nægjusemi, betri nýtni og minni sóun ásamt því að auka fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs.
Kannanir sýna að langflestir vilja leggja sitt af mörkum til að draga úr sóun og neikvæðum umhverfisáhrifum, og því er spurningin bara sú hvernig best er að fara að því. Á heimasíðunni samangegnsoun.is er að finna ótal ráð sem geta nýst í þeirri baráttu og hvetjum við ykkur til að kynna ykkur efni á síðunni.
Þessu tengt má benda á þessa frétt frá 12. janúar sl., en þar er fjallað um matarsóun og hvernig hún er ekki síður peningamál en umhverfismál, en rannsóknir benda til þess að allt að þriðjungi matvæla sem framleidd eru í heiminum sé hent í ruslið, og því ljóst að spara má talsverðar fjárhæðir með því að draga úr slíkri sóun.
Á döfinni í febrúar
- 6. febrúar: Dagur leikskólans
- 7. febrúar: Dagur tónlistarskólans
- 11. febrúar: Dagur íslenska táknmálsins
- 13. febrúar: 1.-4. bekkur fer á skauta
- 19. febrúar: Konudagurinn
- 20. febrúar: Bolludagur - Foreldraviðtöl
- 21. febrúar: Sprengidagur - Starfsdagur - frí hjá nemendur
- 22. febrúar: Öskudagur - vetrarfrí
- 23. febrúar: Vetrarfrí
- 24. febrúar: Vetrarfrí
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Email: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Website: http://www.grenivikurskoli.is
Location: Grenivík
Phone: 414-5413
Facebook: https://www.facebook.com/search/top?q=greniv%C3%ADkursk%C3%B3li