Fréttabréf Flóaskóla
maí 2024
Kæra skólasamfélag
Að venju er margt um að vera í skólanum, framundan eru vorverkin og ýmsir viðburðir tengdir þeim.
Uppskeruhátíðir tengdar lestri verða í 4. og 7. bekk, Litla upplestrarhátíðin í 4. bekk og Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk.
Eina viku í maí er vorskólavika þar sem nemendur í verðandi 1. bekk koma í skólann og kynnast flestum innviðum hans í leik og starfi.
Hið árlega Royalkvöld er haldið fyrir 7.-10. bekk fimmtudaginn 16. maí. Þá mæta nemendur í sínu fínasta pússi í Þjórsárver kl 18:00, borða fínan mat, fara í samkvæmisleiki og skemmta hvert öðru.Miðvikudaginn 22. maí er fyrirhugað að halda Fjölskyldudag í Flóaskóla. Þann dag geta nemendur, starfsfólk og foreldrar komið á hestum í skólann. Dagurinn verður síðan helgaður hreyfingu og útivist af ýmsu tagi, nánar er fjallað um tímasetningar og skipulag dagsins hér fyrir neðan.
Undir lok mánaðar eru svo vorferðir allra bekkja. Árleg útilega 7.-9. bekkja verður 30.-31. maí, 6. bekkur fer á sama tíma í ferð og gistir eina nótt.
Mánudaginn 3.6. er íþróttadagur og kl 17:00 þann dag er útskrift 10. bekkjar.
Skólaslit eru svo kl 10:00 þriðjudaginn 4. júní.
Búið er að hafa samband við öll heimili nemenda varðandi seinkun á skóladegi um 10 mínútur og er niðurstaða þess að færa skólabyrjun til kl 8:20. Skóla lýkur á sama tíma og verið hefur kl 14:00. Þessi breyting þéttir skóladaginn hjá nemendum en lengir hann ekki. Nokkrar breytingar eru fyrirhugaðar á vali hjá nemendum í 5.-10. bekk og verða boðaðir foreldrafundir seinnihluta maí til að kynna þær hugmyndir.
Eins og áður hefur komið fram á Flóaskóli vinaskóla í Danmörku sem heitir Gudenåskole. Við fengum Nordplus styrk í fyrra til þess að elstu bekkirnir í þessum tveimur skólum gætu heimsótt hvor annan. Þetta samstarf hefur gengið mjög vel og hafa nemendur og kennarar verið mjög ánægðir með heimsóknirnar. Við sóttum aftur um styrk fyrir komandi skólaár og fengum hann. Við erum því að fá danskan vinabekk í heimsókn til okkar 12. til 19. september og stefnt er á að fara út næsta vor.
Bestu kveðjur úr Flóaskóla með ósk um gleðilegt sumar og þökk fyrir veturinn
Þórunn Jónasdóttir
Fjölskyldudagur í Flóaskóla - miðvikudag 22. maí
Miðvikudag 22.5. er áætlað að hafa fjölskyldudag, dagurinn er helgaður hreyfingu og útivist. Fjölskyldur nemenda eru velkomnar í heimsókn til okkar hvenær sem er yfir daginn til að taka þátt í deginum með okkur. Formleg dagskrá hefst kl 10:00 og lýkur um kl 13:00.
Allir sem vilja og geta, nemendur, foreldrar og starfsmenn, mega koma á hesti í skólann. Girðing er í Villingaholti fyrir hestana. Aðrir nemendur koma með skólabílum á hefðbundnum tíma. Fyrir þá sem verða á hestum er gott að vita að stefnt er að því að safnast saman í Lyngholti og koma í hópreið síðasta spölinn. Gert er ráð fyrir að ríða af stað þaðan kl 8:45. Þeir sem vilja vera með í þeim hópi koma sér sjálfir, með sína hesta, þangað fyrir þann tíma. En svo má auðvitað líka ríða beint að heiman upp í skóla ef það hentar betur. Miðað er við að allir séu komir í skólann í síðasta lagi 9:40.
Klukkan 10:00 hefst dagskrá og áætlað er að henni ljúki um kl 13:00. Eftir það geta þeir sem eru á hestum farið að tygja sig af stað heim. Skólabílar aka svo heim á hefðbundnum tíma kl 14:00.
10:00-11:00
- Pílukast í Þjórsárveri
- Þrautabraut á leikvellinum
- Kassabílabraut á planinu við Þjórsárver
- Brauðbakstur og þjóðsögur við eldstæði á skólalóð
- Teymt undir nemendum á hestum á grasflöt bak við skólann
- Andlitsmálun í myndmenntastofu
- Kósýstöð í elsta hluta skólans, kubbar, púsl, bækur, blöð og litir
11:00-11:30 Sirkus Ísland skemmtir í boði foreldrafélags Flóaskóla
11:30-12:30
- Borðtennis í Þjórsárveri
- Frisbígolf á grasflöt bak við skólann
- Reiðhjólaþrautabraut á planinu við (þeir sem vilja taka þátt eru með sín hjól og hjálm)
- Leikurinn Ásbjörn á fótboltavellinum
- Brauðbakstur og þjóðsögur við eldstæði á skólalóð
- Andlitsmálun í myndmenntastofu
- Kósýstöð í elsta hluta skólans, kubbar, púsl, bækur, blöð og litir
Þeir sem vilja geta komið á reiðhjólum í skólann eða verið búnir að koma þeim í skólann.
9. bekkur verður með kaffi og vöfflur til sölu, fyrsta verkefni í fjáröflun þeirra fyrir útskriftarferð.
Klukkan 12:30 hefst hádegisverður, boðið verður upp á grillaða hamborgara.
Litla upplestrarhátíðin - 4. bekkur
Litla upplestrarhátíðin verður haldin hátíðleg hjá nemendum 4. bekkjar fimmtudaginn 16. apríl n.k. og ber hún yfirskriftina Að verða betri í lestri í dag en í gær. Eru það Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, sem eru í forsvari fyrir hátíðina og gefa út lesefni hennar ár hvert.
Litla upplestrarhátíðin er nú haldin í 14 sinn. Hún er litla systir Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin er á hverju ári í 7. bekk. Í þeim báðum eru sömu markmið höfð að leiðarljósi, að efla upplestur, munnlega tjáningu og framkomu nemenda. Unnið er markvisst að því að bæta lestrarfærni og efla sjálfstraust nemenda í æfingaferlinu, ásamt því að sýna vandvirkni og virðingu.
Í Flóaskóla bjóða nemendur í 4. bekk foreldrum sínum að koma á lokahátíðina. Þar flytja nemendur sönglög, ljóð og annan texta sem þau hafa verið að æfa síðustu daga. Nemendur í 3. bekk eru gestir á hátíðinni og taka þátt í söngatriði í byrjun, enda eru þau að æfa sig því þau sjá um hátíðina að ári.
Að dagskrá lokinni verður boðið upp á kaffi, djús og bakkelsi.
Stóra upplestrarkeppnin - 7. bekkur
Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar verður haldin þriðjudaginn 7. maí. Stóra upplestrarkeppnin er lestrarhátíð þar sem nemendur æfast í að lesa á sviði fyrir áhorfendur og leggja áherslu á framburð, vandaðan og skemmtilegan lestur, líkamsstöðu, raddbeitingu og fleira. Að venju taka allir nemendur 7. bekkjar þátt. Hver nemandi les textabút frá Hjálmari íslenskukennara, sem að þessu sinni er úr bókinni Öðruvísi fjölskylda eftir Guðrúnu Helgadóttur, og svo hefur hver nemandi valið ljóð til að lesa.
Dómnefnd skipuð þremur foreldrum úr sveitinni, þeim Bjarna Ólafssyni, Bjarna Stefánssyni og Margréti Drífu Guðmundsdóttur, velur tvo lesara og einn til vara sem komast áfram í Stóru upplestarkeppnina í Árnesþingi. Sú keppni verður haldin á Laugarvatni þann 23. maí næstkomandi.
Skólahreysti
Mikill metnaður hefur verið lagður í undirbúning og þátttöku skólans í Skólahreysti undanfarin ár og engin breyting er á því þetta árið. Þrautseigja, snerpa, liðsheild og óbilandi keppnisskap einkennir keppnishópinn okkar í Flóaskóla sem skilaði frábærum árangri og sigri í undankeppninni sem haldin var 18. apríl síðastliðinn. Úrslit keppninnar fara svo fram laugardaginn 25. maí í Laugardalshöll og verður þeim sjónvarpað beint á RUV.
Langspilssveit Flóaskóla í Hörpunni
Langspilssveitin okkar endaði aprílmánuð á seinni hluta samstarfsverkefnisins með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listasafni Íslands. Verkin sem Listasafnið valdi fyrir þetta verkefni voru öll eftir Ásgrím Jónsson sem alinn er upp í Flóanum og var mjög sterk tenging við Flóann í þeim sögum sem Ólafur Egill Egilsson sagði milli tónlistaratriða sem var einstaklega vel viðeigandi enda vísaði hann oft til uppruna langspilssveitarinnar í frásögn sinni. Verkefnið hefur mælst vel fyrir, er mjög vel heppnað í alla staði og erum við afar stolt af því.
Árshátíð miðstigs
Árshátíðarleiksýning miðstigs var sýnd mánudaginn 22. apríl í Þjórsárveri, fyrir fullum sal. Leikritið Forysta fær, sem var unnið út frá þemanu um Konung ljónanna, var staðfært og samið af Hallfríði Ósk Aðalsteinsdóttur. Aðalpersónur voru eins og nafnið bendir til forystukind og dóttir hennar sem lenda í ýmsum hremmingum í viðsjálverðum heimi. En allt fer þó vel að lokum eins vera ber í sönnu ævintýri. Sýningin var vel unnin og stórskemmtileg. Gaman var að sjá snilldartakta nemenda bæði í leik og söng.
Námsferð á Vestfirði
Tveir síðustu dagar aprílmánaðar voru starfsdagar í skólanum og fóru starfsmenn í námsferð á Vestfirðina. Skólarnir á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði voru sóttir heim. Þar fengum við kynningu á afar metnaðarfullu skólastarfi sem unnið hefur verið að undanfarin ár í samstarfi þessara skóla og nokkurra annarra skóla á Vestfjörðum. Enda kom hópurinn heim með fjölmörg verkfæri og hugmyndir í farteskinu sem ætlunin er að máta við skólastarfið í Flóaskóla á komandi árum.