Fréttabréf Engidalsskóla okt 2024
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Fréttabréf Engidalsskóla
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Haustið hefur farið ágætlega af stað og við finnum að sú seinkun sem var gerð á skólabyrjun á morgnanna er að koma vel út, nú mæta til dæmis mun fleiri í hafragraut en síðasta vetur og allir eru einhvern vegin rólegri.
Einkunnarorð skólans ábyrgð, virðing og vellíðan er í huga okkar alla daga. Við ræðum oft við nemendur um vellíðan og það hvernig við náum henni fram. Allir verða að bera ábyrgð á sjálfum sér bæði hegðun og gjörðum og sýna öðrum virðingu. Það er líka mikilvægt að sýna sjálfum sér, náttúrunni, eigum sínum og annarra virðingu. Ef við náum þessu munum við ná fram vellíðan.
Það getur verið flókið að vera barn sem flækist með allskonar tilfinningar sem það ræður ekki við og þar komum við fullorðna fólkið til hjálpar.
Við höfum áður hvatt foreldra til að eiga í góðu sambandi við aðra foreldra því þegar eitthvað kemur upp á til dæmis í samskiptum er gott að geta hringt og átt samtal um hvernig hægt sé að hjálpa börnunum að leysa úr málunum. Stjórn foreldrafélagsins endurnýjaðist að hluta í haust og búið er að fá bekkjartengla í alla árganga og hvetjum við ykkur til að taka þátt í því starfi sem þau halda utan um.
Fastir liðir eru margir á haustin í skólanum og eitt af því er að nemendur á miðstigi nýta kosningarétt sinn við val á fulltrúum í nemendaráð og skólaráð. Allir nemendur fá svo að kjósa fulltrúa í umhverfisráð en þetta eru vissulega fyrstu skref nemenda í átt að því að taka þátt og hafa áhrif í lýðræðisþjóðfélagi.
Neðst í þessu fréttabréfi er mikið af fallegum myndum af verkefnum nemenda sem við hvetjum ykkur til að skoða.
Með bestu kveðju,
Skólastjórnendur Engidalsskóla.
Niðurstöður úr lesfimiprófi í september
4. og 5. bekkur lesa sama texta (texti sem var áður lesinn í 4. bekk)
6. og 7. bekkur lesa sama texta (texti sem var áður lesinn í 7. bekk)
Í 1. - 3. bekk voru engar breytingar. Lesfimiviðmið fyrir hvern árgang eru þau sömu og áður.
Á meðfylgjandi mynd má sjá niðurstöður úr fyrsta lesfimiprófi skólarsinn þær koma ágætlega út miða við landið. Í tveimur árgöngum eru sóknarfæri og eru við viss um að niðurstöður í þeim árgöngum verði aðra í janúarprófinu.
Stafainnlögn í 1. bekk
Hér var verið að leggja inn stafinn L/l og upplagt að samþætta það náttúrufræði, safna laumum og búa til ljón.
Verkefni í 2. bekk
Sjálfsrækt
Nemendur voru að vinna með tilfinningar og gerðu nemendur bækur sem sýna túlkun þeirra á mismunandi tilfinningum.
Fréttir úr Álfakoti
Kæru foreldrar og forsjáraðilar,
Undanfarnar vikur hafa síður en svo verið fordæmandi fyrir starfið sem við viljum halda uppi í Álfakoti og vil ég byrja á því að þakka ykkur fyrir skilninginn og þolinmæðina þegar við höfum þurft að loka vegna manneklu. Veðurblíðan þennan mánuðinn hefur svo sannarlega verið okkur haldreipi þar sem við höfum geta boðið upp á mikla útiveru og höfum við lagt upp með að allir fari út klukkan 15:30 og klári daginn úti.
Í mánuðinum hefur hver árgangur farið í íþróttasal og bókasafn einu sinni til tvisvar í viku. Við höfum náð að halda uppi einhverju klúbbastarfi í október og þemað að þessu sinni var hrekkjavökuföndur og dansklúbbar.
Mig langar að hvetja foreldra til að senda póst fyrir hádegi ef barn á að fara heim á öðrum tíma en er skráð til þess að minnka álagið á símanum á meðan Álfakot er í fullu fjöri.
Við vonum að þið njótið vel í vetrarfríinu og við hlökkum til að taka á móti börnunum eftir helgi!
Kær kveðja,
Magnea og starfsfólk Álfakots
7. bekkur Skólabúðir
Í vikunni 30. okt - 3 nóv fór 7. bekkur í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. UMFÍ rekur skólabúðirnar er þetta annað starfsárið þeirra á Reykjum. Dvölin í heppnaðist í alla staði mjög vel.
Ólumpýuhlaup ÍSÍ
Föstudaginn 13. september tóku nemendur í Engidalsskóla þátt í Ólumpýuhlaupi ÍSÍ. Eins og undanfarin ár fór hlaupið fram á Víðistaðatúni. Nemendur hlupu að meðaltalai 3.9 kílómetra. Vel gert hjá okkar efnilega nemendahóp.
Fréttir úr Dalnum félagsmiðstöð
Kæru foreldrar og forsjáraðilar,
Það hefur verið mikið stuð í Dalnum í október þar sem þemað var hrekkjavaka. Kökukeppnin var mjög skemmtileg og krakkarnir mættu með mjög flottar og bragðgóðar kökur. Þann 18.október var skólaskate á vegum Brettafélags Hafnarfjarðar fyrir allar miðdeildir í Hafnarfirði. Fulltrúi Dalsins tók 2.sætið í keppninni og óskum við honum innilega til hamingju með árangurinn.
Ég vil að lokum minna á að Dalurinn verður lokaður í vetrarfríinu en við hlökkum til að taka á móti krökkunum eftir vetrarfrí!
Kær kveðja,
Starfsfólk Dalsins
Uppeldi til ábyrgðar - Skýr mörk Engidalsskóla
Haustið 2021 hóf Engidalsskóli innleiðingu á uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Innleiðingin hefur gengið vel og munum við halda henni áfram á þessu skólaári. Lykil spurning stefnunnar er hvernig manneskja viltu vera? Gengið er út frá því að þú sért við stjórnvölinn á eigin hegðun og þó við gerum öll mistök er mikilvægt að læra af þeim. Við forðumst ásakanir, afsakanir, skammir, tuð og uppgjöf og segjum JÁ eins oft og við getum. Það er alltaf hægt að segja já en stundum þarf þó að setja skilyrði í framhaldi, já þegar við erum búin að þessu eða þegar þú ert orðinn x gamall og svo framvegis. Við förum yfir hlutverk hvers og eins með nemendum, skilgreinum þarfir okkar og gerum bekkjarsáttmála. Nánar má lesa um stefnuna á uppbygging.is
Í Engidalsskóla eru ekki skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er þá vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta. Minniháttar atvik leysum við á svokölluðu sáttarborði.
Í Engidalsskóla viljum við:
Ekkert ofbeldi hvorki líkamlegt né andlegt
Engin barefli né önnur vopn
Engin ávanabindandi efni eða fíkniefni þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur
Engar alvarlegar ögranir eða hótanir
Engin skemmdarverk
Enga áhættuhegðun
Engan þjófnað
Verkefni nemenda úr smiðjum
Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433