
Fréttabréf Flóaskóla
apríl 2025
Kæra skólasamfélag
Marsmánuður hófst með þrenningunni bolludegi, sprengidegi og öskudegi. Fyrst voru borðaðar bollur í öll mál, síðan tóku við saltkjöt og baunir og á öskudaginn var boðið upp á sælgæti þegar búið var að slá köttinn úr tunnunni. Nemendur og starfsfólk klæddu sig upp í tilefni dagsins og skemmtu sér saman, í lok dags var slegið upp öskudagsballi.
14.3. var svo alþjóðlegur dagur stærðfræðinnar. Hefð er fyrir að vinna að stærðfræðiverkefnum þann dag og gefa samtök stærðfræðikennara út verkefni sem tengjast alþjóðlegu þema hvers árs. Í ár var þemað stærðfræði, listir og sköpun.
10. bekkurinn okkar fór til Danmerkur 23. mars og dvaldi þar í viku í samstarfi við félaga sína í Nordplusverkefninu.
Í samstarfi leik- og grunnskóla voru tvær heimsóknir í mánuðinum, elstu nemendur Krakkaborgar komu í heimsókn í Flóaskóla og síðan var hist í Skagási í verkefninu skemmtilega Gullin í grenndinni.
Í febrúar var lögð fyrir ykkur foreldra könnun á vegum Skólapúlsins, um ykkar skoðun á skólastarfinu og liggja niðurstöður þeirrar könnunar fyrir, nánar er fjallað um þær hér neðar í fréttabréfinu.
Nemendur í 4.-10. bekk tóku þátt í Íslensku æskulýðsrannsókninni í febrúar og nemendur í 10. bekk taka svo þátt í PISA könnun í 7. apríl næstkomandi. Þannig að mat á skólastarfinu og líðan nemenda er sífellt í gangi.
Viðamesta verkefni aprílmánaðar er leiksýning 1.-7. bekkja á Grease. Næstkomandi miðvikudag 2. apríl er generalprufa, á hana verður elstu nemendum leikskólans boðið og einnig nemendum elsta stigs Flóaskóla og starfsmönnum. Sýning fyrir foreldra og aðra aðstandendur er síðan fimmtudaginn 3. apríl klukkan 9:30. Boðið verður upp á hressingu að sýningu lokinni.
Skólaþing verður haldið miðvikudaginn 9. apríl, þar taka þátt nemendur í 6.-10. bekk og þeir kennarar sem koma að þeim bekkjum. Viðfangsefnið að þessu sinni eru niðurstöður nemendakönnunar Skólapúlsins og ýmis málefni er varða skipulag skólastarfsins.
Í lok aprílmánaðar þann 29. verður haldin skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk. Úrslit þeirrar keppni verða svo haldin í Flúðaskóla í byrjun maí og þangað fara tveir fulltrúar Flóaskóla.
Námsferð starfsmanna er á dagskrá 30. apríl til 4. maí. Þar af eru tveir starfsdagar 30.4. og 2.5. og er frístund lokuð þá daga. Ferðinni er heitið til Brighton þar sem við kynnum okkur leiðsagnarnám og förum síðan á útikennslunámskeið.
Framkvæmdir standa yfir á skólalóðinni þar sem útikennslustofur og klifurgrind eru að rísa.
Eins og sjá má eru viðfangsefnin fjölmörg og fjölbreytileg eins og jafnan áður.
Vorið er svo rétt handan við hornið
Bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir
Skólapúlsinn - foreldrakönnun frá febrúar 2025
Í febrúar var lögð fyrir ykkur foreldra könnun á vegum Skólapúlsins. Tilgangur hennar var að gefa ykkur tækifæri til að lýsa skoðun ykkar á skólastarfinu. Foreldrakönnunin mælir 41 þátt í sex flokkum: Nám og kennslu, velferð nemenda, aðstöðu og þjónustu, foreldrasamstarf, heimastuðning og síðan eru nokkrar opnar spurningar.
Þegar á heildina er litið þá virðast foreldrar almennt mjög sáttir við skólastarfið í Flóaskóla. Helstu sóknarfæri skólans út frá þessum niðurstöðum eru að auka upplýsingaflæði til foreldra um námslega stöðu nemenda, sérstaklega á elsta stigi. Eins eru vísbendingar um að námsefni elstu nemendanna mætti vera meira krefjandi. Þá sýna niðurstöður að þátttaka foreldra í námi barna sinna er minni hér en á landsvísu. Ferla og vinnu í eineltismálum þarf líka að skýra og fylgja betur eftir, nánari útlistun á því er hér fyrir neðan.
Við þökkum þeim sem tóku þátt í könnuninni kærlega fyrir það er okkur í skólanum mjög mikilvægt að fá ykkar sýn á starfið, bæði hvað gengur vel að ykkar mati en ekki síður hvar við höfum tækifæri til að gera betur.
Allar niðurstöður kannana eru aðgengilegar á heimasíðu skólans.
Þegar grunur vaknar um einelti er mikilvægt að koma því í rétt ferli
Í gögunum koma fram upplýsingar um að foreldrar fimm nemenda telja að barnið sitt hafi verið lagt í einelti á skólaárinu. Allir segjast hafa tilkynnt eineltið til skólans. Formleg erindi til skólans varðandi grun um einelti eru þó ekki svo mörg það sem af er skólaárinu. Þannig að einhversstaðar er þarna misbrestur á að upplýsingar rati í rétt ferli. Við viljum því benda foreldrum á að mjög mikilvægt er að það sé skýrt gangvart þeim sem tekur við eineltistilkynningu frá foreldrum (oftast eru það umsjónarkennarar eða stjórnendur) að foreldri sé ekki bara að benda á erfið samskipti heldur vilji að unnið sé með málið samkvæmt eineltisáætlun skólans. Best er ef fylgir tilkynningunni útfyllt tilkynningablað. Við ítrekum líka fyrir starfsmönnum að ef þeir fá slíka tilkynningu að koma henni í formlegt ferli. Það er mikilvægt að virkja eineltisáætlun ef grunur er um einelti frekar en bíða átekta. Það kemur fljótt í ljós þegar farið er að vinna eftir áætluninni hvers eðlis vandinn er og þá er hægt að vinna úr honum samkvæmt því.
Á heimasíðu Flóaskóla er að finna áætlun þegar grunur vaknar um einelti. Farið er undir flipann skólinn, þar inn í áætlanir þá birtast flipar. Einn þeirra er forvarna og samskiptaáætlun, á bls 12 í því skjali er fjallað um einelti, verkferla og hvernig á að tilkynna einelti til skólans.
Alþjóðlegur dagur stærðfræðinnar 14.3.2025
14.3. var alþjóðlegur dagur stærðfræðinnar. Dagsetningin er engin tilviljun því hún tengist tölunni pí (3,14) sem er eitt þekktasta tákn stærðfræðinnar. Hefð er fyrir að vinna að stærðfræðiverkefnum þann dag og gefa samtök stærðfræðikennara út verkefni sem tengjast alþjóðlegu þema hvers árs. Í ár var þemað stærðfræði, listir og sköpun. Stærðfræði og listir hafa verið samofin í gegnum tíðina. Hvort sem um ræðir samhverfur í náttúrunni, gullinsnið í myndlist, endurtekningu og mynstur í tónlist eða reiknirit í tölvulist er hægt að sjá hvernig stærðfræðileg hugsun mótar sköpun í margvíslegu formi. Í gegnum tíðina hafa listamenn nýtt stærðfræðileg hugtök til að skapa heillandi verk og á sama tíma hefur stærðfræðin krafist sköpunar þegar kemur að lausnaleit og nýjum uppgötvunum. Auk ýmissra verkefna tengdum stærðfræði og listum bauðst öllum nemendum að spreyta sig á stærðfræðiþraut þar sem giskað var á þyngdir hinna ýmsu íláta, þar var að finna ílát með; girðingalykkjum, hveiti, garni, tölum og möndlum. Síðan var aukaþraut þar sem nemendum gafst kostur á að raða saman boxum í reikningsdæmi sem gæfi samanlagt 1,5 kg. Ákveðið var að leyfa þrautinni að standa fram í auka viku þannig að sem flestir næðu að taka þátt. Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hver varð hlutskarpastur í þrautinni, en verðlaun verða veitt í næstu viku, ein fyrir besta svar á hverju stigi og síðan ein verðlaun fyrir reikningsdæmið. Niðurstöður verða birtar á heimasíðu og facebooksíðu skólans.
Grease í flutningi 1.-7. bekkja fimmtudag 3.4. kl 9:30
Síðustu vikur hafa nemendur og starfsfólk yngsta og miðstigs unnið að undirbúningi leiksýningar á Grease. Verkið verður flutt fimmtudaginn 3. apríl kl 9:30. Höfundar verksins eru þeir Varren Casey og Jim Jacobs en leikgerðin er í höndum Hallfríðar Óskar Aðalsteinsdóttur. Að venju er um örlitla staðfærslu að ræða og þau Sandy og Danni er að sjálfsögðu í Flóaskóla og einhverjum kunnuglegum nöfnum bregður fyrir í sýningunni. Mikil vinna hefur farið í undirbúning, leikmuna og búningagerð, söngæfingar og textavinnu, auk fjölmargra leikæfinga. Seinni hluti föstudagsins í síðustu viku var æfingardagur þar sem verkið var slípað enn betur saman með hljómsveitinni, en hún samanstendur af starfsmönnum skólans þeim Eyrúnu, Hafdísi og Jónasi en auk þeirra fengum við lánaðan bassaleikarann Joel Durksen. Þetta verður mikil veisla fyrir augu og eyru og hvetjum við alla sem hafa tök á til að koma og njóta með okkur.
Svipmyndir frá æfingadegi, undirbúningur, æfingar með hljómsveit og pizzuveisla
Framkvæmdir á skólalóð
Töluverðar framkvæmdir eru á skólalóðinni þessa dagana. Útikennslustofur fyrir utan smíða- og heimilisfræðistofu er nánast fullbúnar, búið er að reisa skjólveggi og smíða bekki bæði innan og utan þeirra. Síðan er hafin uppsetning á klifurgrind sem skólinn fékk að gjöf á afmælinu.
Svipmyndir frá öskudegi
10. bekkur í Nordplusferð í Danmörku síðustu vikuna í mars
Í síðustu viku fóru nemendur í 10. bekk ásamt Elmari og Snædísi kennurum til Danmerkur að heimsækja Nordplus félaga sína í Gudenåskolen í Danmörku. Heimsóknin gekk mjög vel og var lærdómsrík fyrir alla. Hluta tímans var varið í Kaupmannahöfn þar sem hópurinn fór í klifur, hjólaferð um borgina og siglingu þar sem þau sáu litlu hafmeyjuna og óperuhúsið. Amelíuborg og þinghúsið voru líka skoðuð á gönguferðum hópsins um borgina. Auk þess var Himmelbjarget og Mols bjerge skoðað, farið var í lestarferð, klifur og ýmislegt fleira.