Foreldrabréf Hraunvallaskóla
Skólaárið 2023-2024
Mars
Teymiskennsla
Teymiskennsla er hluti af teymisvinnu en nær eingöngu til kennara sem kenna saman einum nemendahópi. Um er að ræða langvarandi og skuldbindandi samvinnu þar sem tveir eða fleiri kennarar bera sameiginlega ábyrgð á námi og kennslu, líðan nemenda, daglegum samskiptum og samstarfi. Teymiskennslan er talin góð leið til að þróa kennsluhætti í átt að einstaklingsmiðuðu námi því hún býður upp á meiri sveigjanleika í kennsluaðferðum sem hjálpar kennurum að bregðast við einstaklingsbundnum þörfum nemanda.
Góð og árangursrík teymiskennsla tekur tíma að þróast. Ólíkir einstaklingar auðga teymi með því að ýta undir skapandi hugsun. Mikilvægt er að allar raddir innan teymis fái hljómgrunn því allir hafi eitthvað fram að færa og gegna mismunandi hlutverki innan teymisins. Helstu kostir teymiskennslu eru sameiginleg ábyrgð, stuðningur, skipulag og vinnuhagræðing þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín. Teymiskennsla minnkar líkur á einangrun kennara auk þess sem teymismeðlimir græða bæði faglega og hugmyndalega á vinnunni. Helstu ókostir teymiskennslu eru fleiri fundir, flóknara skipulag og erfiðara er að bregðast við áhugaverðum aðstæðum.
Í hnotskurn fyrir nemendur:
- Meiri sveigjanleiki og fjölbreytni í verkefnum
- Hægt að hafa smærri hópa og mæta ólíkum þörfum nemenda
- Fleiri kennarar á svæðinu til að aðstoða nemendur
- Aðstæðum sem koma upp á er hægt að sinna strax, nemendur síður skildir eftir einir.
- Félags-, tilfinninga- og námsþarfir nemandans eru ræddar af kennurum sem allir þekkja nemandann
- Nemendur tengjast fleiri kennurum, hafa fleiri til að leita til með ráðleggingar og aðstoð
- Nemendur geta fylgst með góðum samskiptum milli kennaranna og upplifa jákvæða fyrirmynd í samskiptum fullorðinna
- Öryggið er fyrir hendi þótt einn kennara vanti
- Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni
- Námsmat sanngjarnara þar sem fleiri koma að því - betur sjá augu en auga
- Fjölbreyttari félagahópur og getur leitt til meiri samheldni innan nemendahópsins
Í hnotskurn fyrir kennara:
- Meira samstarf, skemmtilegra í vinnunni, minni einangrun
- Samvinna og stuðningur, ekki síst við erfið samskipti og agamál
- Kennarar fá mikinn stuðning frá hverjum öðrum við markmiðsgerð, val aðferða og leiða
- Kennarar geta nýtt mismunandi hæfileika sína eftir því sem við á
- Meiri líkur á fjölbreyttari vinnubrögðum og aðferðum
- Vinnuhagræðing / verkaskipting / álagið dreifist
- Hægt er að bregðast strax við aðstæðum sem koma upp
- Fjölbreyttari sýn á nemendur
- Námsmat samræmdara
- Kennarar læra hver af öðrum
- Unnið eftir námsáætlun eins og hægt er þó einn kennara vanti
- Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni
Verkáætlun um teymisvinnu í Hraunvallaskóla
Hraunvallaskóli hefur gert sér verkáætlun um teymisvinnu sem öll kennsluteymi skólans vinna í upphafi skólaárs. Markmið vinnunnar er fyrst og fremst að teymin setji sér grunnreglur, samræmi og þekki einnig áherslur og væntingar meðlima. Með því að fara sameiginlega í gegnum þætti eins og kennsluskipulag, samstarf og fundarmenningu styrkjum við samstarfið og tryggjum það að teymin nái að þroskast og dafna.
Helstu kennsluteymi í Hraunvallaskóla eru árgangateymi, list- og verkgreinateymi, íþróttakennarateymi, stoðþjónustuteymi, ÍSAT teymi, Fjölgreinadeildarteymi og stjórnendateymi.
Gott samstarf í teymum er forsenda þess að teymin nái árangri og er lykilinn að árangri nemenda. Að þróa áfram faglegt samstarf krefst þess að allir í teyminu leggi sig fram í vinnu og leitist við að sjá styrkleika allra þátttakenda í teyminu.
Kennaraþrenna/tvenna - teymiskennsla í 1.-7. bekk í Hraunvallaskóla
Í Hraunvallaskóla samanstanda árgangateymin af tveimur eða þremur umsjónarkennurum í 1.-7. bekk. Unnið er með árganginn sem einn hóp með tveimur eða þremur umsjónarkennurum sem vinna saman sem teymi við undirbúning og framkvæmd kennslu en nemendahópnum er skipt í mismunandi hópa á svæðinu.
Umsjónarkennarar í sama árgangi vinna saman að öllum undirbúningi fyrir sinn árgang. Það er til að tryggja að öllum nemendum standi til boða sambærileg námstækifæri og einnig til að efla faglega umræðu og ígrundun kennara og nýta örugglega styrkleika hvers og eins þannig að allur nemendahópurinn njóti. Með kennaraþrennu eða paraumsjón er verið að reyna að jafna álag á kennara og auka sveigjanleika í skipulagningu. Þetta fyrirkomulag gefur nemendum möguleika á að kynnast fleiri félögum og auka þannig færni þeirra á vinnu verkefna með ólíkum hópum.
Meginmarkmið:
- Að efla samvinnu og samstarf umsjónarkennara í árgangi
- Að efla samvinnu kennara og nemenda árgangsins
- Að efla samvinnu nemenda í árganginum
- Að auka öryggi og vellíðan nemenda
- Að nýta mismunandi styrkleika kennara betur
- Að jafna álag á kennara vegna ,,krefjandi“ verkefna/samskipta
- Að skapa meiri sveiganleika í útfærslu hópa og samvinnu nemenda
- Að efla samstarf kennara í teymi við foreldra í árgangi.
Hver kennari er tengiliður við heimili ákveðins hluta hópsins og er umsjónarkennari þeirra nemenda. Í daglegu starfi er nemendum í árgangi skipt upp í mismunandi hópa eftir viðfangsefnum, náms- og/eða félagslegum þörfum. Kennarar bera því sameiginlega ábyrgð á námsframvindu og velferð allra nemenda samkvæmt Aðalnámskrá.
Námsmat, röðun í námshópa og skipulag kennslu þvert á árganginn er unnið sameiginlega af umsjónarkennurum, sérkennurum, kennurum nemenda með íslensku sem annað tungumál (ÍSAT) og þroskaþjálfum eftir því sem við á. Sérkennari, ÍSAT kennari og/eða þroskaþjálfi geta ýmist stutt við nemendur sína inni á kennslusvæði með umsjónarhópnum eða í sérrými þar sem unnið er að sérstökum verkefnum. Það er ávallt sameiginleg ákvörðun umsjónarkennara og viðkomandi fagaðila hvor leiðin er valin hverju sinni. Þetta fyrirkomulag er ákveðið á vikulegum samráðsfundum út frá viðfangsefnum næstu viku með hagsmuni nemandans að leiðarljósi. Þannig tekst teymið saman á við verkefni, deilir undirbúningi og ábyrgð með það að markmiði að styrkleikar allra í teyminu nýtist til fulls í þágu nemenda. Lögð er áhersla á að kennarar í teymi styðji hvern annan í samskiptum sem snúa að nemendum og foreldrum t.d. við undirbúning eða framkvæmd funda.
Skilaboð frá samskipta- og eineltisteyminu
Við megum vera eins og við erum - á meðan við hvorki meiðum okkur né aðra
Líðanfundirnir
Líðanfundirnir okkar hafa gengið framar vonum og vonum við innilega að þetta eigi eftir að opna og styrkja betur samstarf milli foreldra annars vegar og foreldra og skólans hins vegar. Við viljum þakka ykkur kærlega fyrir að taka þátt í þessu verkefni með okkur og höldum við ótrauð áfram saman með þetta verkefni.
Við hlökkum til að eiga góðar stundir með ykkur öllum í áframhaldandi líðafundum sem verða aftur í haust.
Framundan í mars
Lokakeppni stóru upplestrarkeppninnar
Föstudaginn 8. mars verður lokakeppni stóru upplestrarkeppninnar í skólanum þar sem nemendur í 7. bekk keppa um hver mun fara fyrir hönd skólans í aðalkeppnina sem verður í 19. mars í Víðistaðakirkju. Allir nemendur í 7. bekk hafa unnið sinn sigur með þátttöku og eiga þeir hrós skilið. Foreldrar/forsjáraðilar þeirra sem eru að keppa eru velkomnir að koma og horfa á.
Nemendurnir sem taka þátt á föstudaginn eru:
Benedikt Aron Sigurgeirsson
Emilía Björg Jakobsdóttir
Eva Lára Róbertsdóttir
Guðrún Telma Steinsdórsdóttir
Gunnar Sigurðsson
Hafdís Sigurðardóttir
Hanna Strzop
Íris Lindberg Sumarliðadóttir
Jónatan Arnar Davíðsson
Maja Kobrynska
Þórey Eva Þórisdóttir
Sara María M. Mencynski
Við óskum þessum frábæru fulltrúum góðs gengis.
Spurningakeppni miðdeildar
Miðvikudaginn 13. mars er spurningakeppni miðdeildar. Nemendur hafa haft góðan tíma til þess að lesa 10 fyrirfram ákveðnar bækur. Keppnin er byggð upp á því að allir getu tekið þátt á einhverjum tímapunkti. Mikil fjölbreytni er í spurningum og aðferðum við að svara s.s. kahoot, fá aðstoð úr sal, spurninghjól og leikræn tjáning. Það myndast mikil og skemmtileg stemning í salnum og nemendur á fullu að hjálpa sínum árgangi. Við viljum fá ykkur foreldra til þess að hvetja nemendur til þess að lesa þær bækur sem eru undir og spyrja þau út í spurningakeppnina.
Dagur stærðfræðinnar 14. mars
Haldið verður upp á alþjóðlegan Dag stærðfræðinnar fimmtudaginn 14. mars 2024. Dagsetningin tengist tölunni pí (3,14) eins og margir vita.
Þemað í ár er Leikið með stærðfræði – Playing with Math. Markmiðið er að fagna leikgleðinni sem felst í því að leysa þrautir, spila og vinna með stærðfræði í leik en líka með því að kanna, gera tilraunir og uppgötva.
Á vefnum International Day of Mathematics má finna ýmsar upplýsingar og hugmyndir að verkefnum í tilefni dagsins. Verkefnin eru til á mörgum tungumálum og má finna verkefni sem hafa verið þýdd á íslensku. Einnig er hægt að nýta verkefnahugmyndir frá Degi stærðfræðinnar 2020, 2017 og 2016 sem má finna á flatarmal.is.
Grúskið
Nú fer að líða að "Grúski" en það verður í síðustu vikunni fyrir páska. Þessa daga verður mikið um uppbrot og margt skemmtilegt gert. Hver árgangur vinnur eftir ákveðnu þema og síðan er foreldrum/forsjáraðilum boðið á opið hús föstudaginn 22. mars.
Þemu árganganna eru:
1. bekkur - Húsdýrin
2. bekkur - Hafnarfjörður
3. bekkur - Íslenskir þjóðhættir
4. bekkur - Hafið
5. bekkur - Landnám Íslands
6. bekkur - Norðurlöndin, ferðaskrifstofur
7. bekkur - Evrópa
Unglingadeild - Stuttmyndir og plaggöt
Fjölgreinadeildin - Tónlist frá mismunandi löndum
Alþjóðlegi downsdagurinn
Fimmtudagurinn 21. mars er alþjóðlegi downsdagurinn og við tökum þátt í að fagna fjölbreytileikanum.
Við ætlum að taka þátt með því að mæta í mislitum sokkum í skólann þennan dag. Við hvetjum alla til þess að taka þátt.
Opið hús föstudaginn 22. mars
Föstudagurinn 22. mars er skertur dagur í 1.-10. bekk.
Foreldrum/forsjáraðilum er boðið á opið hús milli kl. 09:30-11:30. Foreldrar/forsjáraðilar í 1.-5. bekk koma á opið hús með barni sínu sem mun sýna hvað það hefur verið að gera undanfarna daga. 7. bekkur mun boða foreldra/forsjáraðila hvers nemanda á sérstökum tímum þar sem þeirra verkefni er öðruvísi. Í 6., 8., 9. og 10. bekk taka nemendur á móti foreldrum/forsjáraðilum milli kl. 09:30-11:30.
Hlökkum til að sjá ykkur öll áður en við förum í páskafrí.
Páskafrí
Páskafrí verður 23. mars til 1. apríl.
Nemendur mæta hressir og kátir í skólann þriðjudaginn 2. apríl.
Hraunsel
Hér koma upplýsingar um skráningu í lengda viðveru í mars.
SKILABOÐ FRÁ HEILSUEFLANDI TEYMI SKÓLANS
Mikilvægi svefns
Við mælum með að þið horfið á þennan TED þátt um svefn: Sleep is our superpower með Matt Walker. https://www.ted.com/talks/matt_walker_sleep_is_your_superpower?hasProgress=true&referrer=playlist-talks_to_inspire_you_to_go_to
SAMSTARF HEIMILIS OG SKÓLA
Röskun á skólastarfi vegna óveðurs
Við hvetjum ykkur foreldrar/forsjáraðilar góðir til þess að lesa yfir hvað gerist við óveður. Hér er linkur á heimasíðu skólans sem gott er að lesa og vita af ef óveður skyldi skella á:
Foreldrarölt
Nú er foreldraröltið farið af stað að fullu og við þurfum á ykkur að halda. Við erum öll saman í liði og það er á okkar allra ábyrgð að passa að börnum og unglingum í hverfinu líði vel og séu öruggir. Það þarf þorp til þess að ala upp barn. Hér er foreldraröltsbæklingurinn og á öftustu síðunni eru dagsetningar hvers árgangs. Þið sem hafið áhuga á því að taka þátt í foreldrarölti megið senda tölvupóst á sarap@hraunvallaskoli.is. Þið sem hafið nú þegar skráð ykkur, kærar þakkir fyrir.
FRÍSTUNDASTARFIÐ
Hraunsel
Hlutverk frístundaheimila er að bjóða upp á fjölbreytt frístunda- og tómstundastarf án aðgreiningar fyrir börn á aldrinum 6-9 ára eftir að kennslu lýkur. Markmið starfsins er að efla sjálfstraust og félagsfærni. Starfsemi frístundaheimila hefur áhrif á félagsþroska barna og er vettvangur þar sem þau æfa sig í vináttu og samskiptum. Börnin læra gagnkvæma virðingu, traust og umburðarlyndi í gegnum leik og starf. Umhverfi frístundaheimila einkennist af öryggi og fagmennsku. Aðstæður eiga að einkennast af jákvæðum samskiptum og lýðræðislegum starfsháttum. Í frístundaheimilinu er hlustað, rætt saman og ekki síst er pláss fyrir allar tilfinningar.
Mosinn - unglingadeild
Mosinn er opinn á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í vetur frá kl. 19:30-22:00. Við hvertjum alla nemendur í miðdeild til þess að mæta og taka þátt. Við skorum á ykkur foreldra/forsjáraðila til þess að hvetja nemendur til þess að mæta og vera með. Þarna kynnast nemendur öðrum nemendum og annan hátt en í skólanum og byggja tengsl sem nýtast líka á skólatíma.
Hér er dagskrá Mosans:
https://www.facebook.com/felagsmidstodinmosinn
Instagram - Mosinn
Mosinn - miðdeild
Mosinn er opinn á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum í vetur frá kl. 17:00-19:00. Við hvertjum alla nemendur í miðdeild til þess að mæta og taka þátt. Við skorum á ykkur foreldra/forsjáraðila til þess að hvetja nemendur til þess að mæta og vera með. Þarna kynnast nemendur öðrum nemendum og annan hátt en í skólanum og byggja tengsl sem nýtast líka á skólatíma
Hér er dagskrá Mosans:
HHH félagsmiðstöð
Í vetur verður áfram hinsegin hittingur í Hafnarfirði. Allt er farið af stað og við hvetjum þau sem vilja að kíkja í hitting. Það er líka hægt að "follow" bæði á Facebook og Instagram, sjá hér undir:
https://www.facebook.com/hinseginhittingurihfj
Instagram - hinseginhittingurihfj