Fréttabréf
Nóvember 8. tbl. 16 árg 2024
Kæra skólasamfélag
Í nóvember höldum við hinn árlega nemendadag og í ár reynir á hæfileika starfsfólks en einnig fer fram keppni í blak, fóbolta og körfubolta á milli starfsfólks og nemenda í 10.bekk. Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember og verður smá dagskrá á sal en þann dag hefst formlega Upphátt lestrarkeppnin sem nemendur í 7.bekk taka þátt í.
Í lok október fengu nemendur í 10.bekk boð í MA og VMA til að skoða námsframboð og er líklegt að öll geti þau fundið nám við sitt hæfi, en ungmenni á Akureyri eru heppin að hafa gott námsframboð á sínu svæði og í næsta nágrenni.
Inn á heimasíðu skólans má sjá Starfsáætlun Naustaskóla sem og starfsáætlanir teymana.
Nú eru komnir bekkjarfulltrúar fyrir alla árganga nema fyrir 8. bekk og hvetjum við foreldra í þeim árangi til að setja sig í samband við sína kennara og gefa kost á sér í þetta mikilvæga hlutverk.
Vikuna 11.- 15. nóvember er opin vika fyrir foreldra og hvetjum við ykkur til að kíkja við sem það geta.
Með kveðju
Stjórnendur Naustaskóla
Viðtalsdagur
Viðtalsdagur er í skólanum 12. nóvember nk. Opnað verður fyrir skráningu inn á mentor í viðtöl þann 4. nóvember kl: 14:00 hvert viðtal er 15. mínútur, við biðjum ykkur að virða tímamörk. Við bendum ykkur á að íþróttakennarar og smiðjukennarar eru til viðtals í sínum stofum. Sjá staðsetningu viðtala er hér fyrir neðan í viðhengi.
Lestur og læsir appið
Nú eru liðnir u.þ.b. tveir mánuðir af skólaárinu og við búin að prufukeyra Læsir appið þann tíma en 1.- 10.bekkur tekur þátt í verkefninu. Þátttaka foreldra í þessu þróunarverkefni er lykilatriði og gaman að sjá hve mörg ykkar eru ánægð með appið. Hugbúnaðurinn er enn í þróun svo það má búast við breytingum og skemmtilegum nýjungum sem eiga eftir að bætast við. Til gamans þá má hér sjá tölfræði yfir hvernig lestur gengur hjá einum árangi og viðmið.
Dagur gegn einelti
Dagur gegn einelti. Það er ekki einfalt að ákveða hvort um einelti sé að ræða þegar samskiptavandi kemur upp. Samskiptavandi birtist á margvíslegan máta og er misalvarlegur. Þegar upp kemur vandi í samskiptum er mikilvægt að orka og athygli fari ekki eingöngu í að skilgreina hversu alvarlegur vandinn er og hvort um einelti sé að ræða eða ekki. Mikilvægast er að finna farsælar leiðir til að takast á við vandann, skoða umhverfið í heild sinni og gefa öllum aðilum máls tækifæri til að axla ábyrgð á hegðun sinni og breyta til hins betra. Því þegar allt kemur til alls þá er vandinn sá sami, hvaða nafni sem við köllum hann.
Hér má sjá aðgerðaráætlun Naustaskóla gegn einelti. Á heimasíðu Naustaskóla má sjá hnapp þar sem hægt er að tilkynna einelti eða ef grunur er um slíkt. Einnig er virk fræðsluáætlun gegn einelti sem unnið er með í nóvember, sérstaklega.
Upphátt upplestrarkeppni
Fyrir þau sem ekki hafa átt barn í 7.bekk þá er kannski gaman að vita að Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna Akureyri hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember.
Nemendur í 7.bekk hafa í mörg tekið þátt í þessari keppni sem er um leið mikilvægu þjálfun. Ræktunarhlutinn er sá hluti sem skiptir hvað mestu máli og á sér stað innan veggja skólanna þar sem lögð er sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk. Ræktunarhlutinn spannar tímabilið frá 16. nóvember til loka febrúar. Hátíðarhlutanum má skipta í tvennt, upplestrarhátíð í hverjum skóla og svo lokahátíð þar sem fulltrúar úr hverjum skóla koma saman. Miðað er við að upplestrarhátíð skólanna verði í lok febrúar og lokahátíðin í byrjun/miðjan mars.
Hrekkjavaka
Nemendur og starfsfólk tóku þátt í hrekkjavökunni og mátti sjá mikinn metnað í búningum. Unglingarnir stóðu síðan fyrir balli fyrir yngsta stig og var ekki annað að sjá en að það hafi vakið gleði. Það er alltaf gaman að gera sér dagamun og voru margar kynjaverur á sveimi þennan dag í skólanum.
Óskilamunir
Það er gott að kíkja í óskilamuni í leiðinni og foreldrar/forráðamenn koma í skólann á viðtalsdaginn. Einnig viljum við vekja athygli á að nauðsynlegt er að merkja föt barnanna vel. En ómerkt flík getur verið glötuð flík - að sama skapi er alltaf líklegra að flíkin komist í réttar hendur ef hún er merkt meða nafni og símanúmeri. Það er gott að muna og minna börnin okkar á að það geta legið margar vinnustundir að baki til að kaupa eina úlpu eða vettlinga. Þann tíma gætum við kannski notað í samveru með börnunum okkar, fjölskyldunni og eða annað sem nærir okkur.
Aðeins um styrkleika og eiginleika þeirra
Styrkleikar eru jákvæðir eiginleikar eða einkenni sem birtast í hugsunum, tilfinningum og hegðun okkar ( Peterson & Seligman, 2004).
Ýmsar tegundir styrkleika:
Hæfileikar (talent). Meðfætt.
Færni, það sem við þjálfum okkur til að gera.
Áhugi. Hverju brennum við fyrir.
Gildi. Það sem okkur þykir mikilvægast.
Rannsóknir benda til að með því að vinna með og að nýta styrkleika okkar getum við:
- Öðlast innsæi inn í líf okkar.
- Orðið bjartsýnni.
- Aukið sjálfstraust og jafnvel orku.
- Komið í veg fyrir ýmiskonar heilsufarsvandamál (þar sem við erum að gera hluti sem næra).
- Aukið þrautseigju sem leiðir af sér jákvæðar tilfinningar.
Með því að þekkja styrkleika sína og nota þá á fjölbreyttan hátt getum við aukið hamingju og minnkað þunglyndi.
Námið í skólanum
Hér má sjá nokkrar myndir úr skólastarfinu, annarsvegar námsveggi í stærðfræði (Leiðsagnarnám) á unglingastigi og svo nokkur viðfangsefni frá því á þemadögunum.
Rúmfræði
Stærðfræði. Laun og skattaútreikningur
Námsveggur í stærðfræði - flatamál
18.gr barnasáttmálans
Foreldrar bera aðalábyrgð á uppeldi barna sinna. Þegar barn á ekki foreldra tekur annað fullorðið fólk við ábyrgðinni á uppeldi barnsins. Þeir sem annast uppeldi eiga að meta og taka tillit til þess sem er barninu fyrir bestu og eiga stjórnvöld að hjálpa og leiðbeina þeim. Þegar barn á tvo foreldra bera þeir almennt báðir ábyrgð á uppeldi barnsins.
Viðburðir í nóvember
1. nóvember: Nemendadagur. "Húllumhæ í skólanum."
7. nóvember: Starfsdagur.
8. nóvember: Baráttudagur gegn einelti.
12. nóvember: Viðtalsdagur.
16. nóvember: Dagur íslenskrar tungu.
16. nóvember: 7. bekkur. Upplestarkeppnin Upphátt hefst.
20. nóvember: Dagur mannréttindabarna.
29. nóvember: Skreytingardagur
Fræðslur sem koma inn í skólann
4. nóvember: FVSA - vinnuréttindi 10.bekkur.
13. nóvember: Félak - fræðsla um fíkn 8.bekkur.
20. nóvember: Netumferðarskólinn.
21. nóvember: Félak - Nikótín fræðsla 7.bekkur.