Fréttabréf Engidalsskóla des. 2024
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Desember er alltaf dásamlegur tími í skólastarfinu þá brjótum við skólastarfið meira upp en venjulega. Nemendur fara í vettvangsferðir um bæinn og vinna saman að skreytingum í skólastofunni. Nokkrar hefðir eru að skapast í unga Engidalsskóla. Við setjum upp hurðaskreytingar, 7. bekkur skreytir jólatréð okkar og einhverjir árgangar heimsækja Fríkirkjuna eða Víðistaðakirkju og fá þar kakó og eitthvað góðgæti. Þá heimsækja allir fallega Hellisgerði og ganga jafnvel í gegnum jólaþorpið. Við reynum þó að hafa allt frekar lágstefnt og njóta. Þessi tími gefur tækifæri til að haka við mörg markmið í námskránni því verkefnin eru fjölbreytt og áskoranir margar.
Við erum alltaf að velta fyrir okkur hvernig best er að ná til foreldra með upplýsingar er varða skólastarfið. Á heimasíðunni er að finna mikið af hagnýtum upplýsingum. Fréttabréfin færa ykkur upplýsingar um starfið og innihalda mikið af myndum af verkefnum nemenda. Umsjónarkennarar senda fréttir á föstudögum úr sínum umsjónarbekkjum og svo koma einhverjir tölvupóstar sem við reynum þó að halda í lágmarki. Á næstu vikum ætlum við að stofna bæði Instagram og Facebook síður fyrir skólann þar sem áætlað er að sýna frá starfinu frá degi til dags, hvað er í matinn, heimsóknum sem við fáum og sitthvað fleira. Þetta er allt í undirbúningi, verið að setja upp markmið og fleira, en farið verður eftir lögum og stífum verkferlum við notkun þessara miðla. Það er von okkar að þetta mæti enn frekar þörf foreldra/forsjáraðila varðandi upplýsingagjöf.
Jólastund foreldrafélagsins verður haldin sunnudaginn 8. desember milli kl. 12 og 14. Þetta hefur alltaf verið góð stund og kjörið tækifæri til að kynnast öðrum foreldrum og skólafélögum barna ykkar. þá mun foreldrafélagið standa fyrir fræðslu frá Heimili og skóla um farsældarsáttmála foreldra 15. janúar kl. 17:30, mjög góður vettvangur fyrir foreldra til að stilla saman strengi þegar kemur að uppeldi og velferð barna.
Með bestu kveðju og ósk um yndislega aðventu,
Skólastjórnendur Engidalsskóla.
Litlu jólin 19. desember frá kl. 9:30-11:00
19. desember
Allir nemendur mæta kl : 9:30
Smákökur (sparinesti) og fernudrykkir
Sparidagur, allir spariklæddir
Ekki er skipst á gjöfum
Frístund opnar kl. 11:00 þennan dag
Lag, texti og söngur þessarar kveðju var í höndum á nemenda í 4. bekk og var unninn í smiðjum.
Rafræn skráning á heimalestri
Við í Engidalsskóla erum að taka upp rafræna skráninga á heimalestri. Foreldrar/forsjáraðilar þurfa að sækja app í App store eða Play store. Appið heitir Læsir sjá meðfylgjandi mynd. Foreldra fá síðan kóða sem þeir nota til að skrá nemanda inn í appið. Kerfið er á íslensku og ensku. Leiðbeiningar um uppsetning á appi er að finna hér fyrir neðan.
Hvernig set ég upp Læsir fyrir mitt barn
Fréttir úr Álfakoti
Kæru foreldrar og forsjáraðilar!
Nóvember var aldeilis skemmtilegur hjá okkur þetta árið. Í byrjun mánaðarins var vinavikan og í tilefni af henni gerðum við föndur tengt vinavikunni og vinabönd.
Veturinn gerði líka vart við sig og ekki þurfti mikinn snjó til að kæta. Krakkarnir dustuðu rykið af rassaþotunum og fóru út að renna.
Í byrjun mánaðar byrjuðu líka tveir nýir starfsmenn hjá okkur þær Diljá Eik og Enika Máney og hafa krakkarnir tekið mjög vel á móti þeim.
Að lokum langar mig að minna á skráninguna fyrir jólafrístund en hún verður opin til miðnættis 5.desember. Ekki verður tekið við skráningum eftir þann tíma svo það er um að gera að sækja um ef þið ætlið að nýta ykkur þjónustuna. Það verður opið 08:00-16:30 23.,27. og 30.desember og 2.janúar 2025.
Kær kveðja,
Magnea og starfsfólk Álfakots
Dalurinn
Kæru foreldrar og forsjáraðilar,
Við áttum góðar stundir með krökkunum í Dalnum í nóvember. Við fengum líka heimsókn frá Birki sem er aðstoðarverkefnastjóri tómstundamiðstöðvar í Setbergsskóla en hann var með okkur tvo daga um miðjan mánuð og leist bara nokkuð vel á aðstöðuna hjá okkur. Það var líka ping-pong mót í mánuðinum og fengu sigurvegararnir gjafabréf á Huppu í verðlaun.
Í desember munum við leggja upp með jólalegu þema en ég læt dagskrána fylgja með ef þið hafið áhuga á að skoða hvað verður í boði fyrir jól.
Að lokum langar mig að minna á að Dalurinn verður lokaður í jólafríinu en síðasta opnun annarinnar verður 18.desember.
Kær kveðja,
Magnea og starfsfólk Dalsins
Uppeldi til ábyrgðar - Skýr mörk Engidalsskóla
Haustið 2021 hóf Engidalsskóli innleiðingu á uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Innleiðingin hefur gengið vel og munum við halda henni áfram á þessu skólaári. Lykil spurning stefnunnar er hvernig manneskja viltu vera? Gengið er út frá því að þú sért við stjórnvölinn á eigin hegðun og þó við gerum öll mistök er mikilvægt að læra af þeim. Við forðumst ásakanir, afsakanir, skammir, tuð og uppgjöf og segjum JÁ eins oft og við getum. Það er alltaf hægt að segja já en stundum þarf þó að setja skilyrði í framhaldi, já þegar við erum búin að þessu eða þegar þú ert orðinn x gamall og svo framvegis. Við förum yfir hlutverk hvers og eins með nemendum, skilgreinum þarfir okkar og gerum bekkjarsáttmála. Nánar má lesa um stefnuna á uppbygging.is
Í Engidalsskóla eru ekki skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er þá vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta. Minniháttar atvik leysum við á svokölluðu sáttarborði.
Í Engidalsskóla viljum við:
Ekkert ofbeldi hvorki líkamlegt né andlegt
Engin barefli né önnur vopn
Engin ávanabindandi efni eða fíkniefni þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur
Engar alvarlegar ögranir eða hótanir
Engin skemmdarverk
Enga áhættuhegðun
Engan þjófnað
Verkefni nemenda úr smiðjum
Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433