Fréttabréf Grenivíkurskóla
6. tbl. 5. árg. - júní 2024
Kæra skólasamfélag
Þá er skólaárinu lokið og langþráð sumarfrí tekið við, sem verður vonandi sólríkt og skemmtilegt.
Síðasti mánuður skólaársins var að vanda fjörugur og skemmtilegur. Runólfur, kveðjuhátíð 10. bekkjar, var á sínum stað, nemendur fóru í sveitaferðir og skemmtu sér á útivistardögum og ótal margt fleira. Þá fóru nemendur á unglingastigi í vel heppnað skólaferðalag undir lok mánaðar. Grenivíkurskóla var svo slitið föstudaginn 31. maí sl. Um eitthvað af þessu má lesa nánar hér að neðan, en einnig má finna myndir úr skólastarfinu neðst í fréttabréfinu.
Skóli hefst á nýjan leik að loknu sumarfríi þann 22. ágúst næstkomandi. Hér má skoða skóladagatal komandi skólaárs.
Fyrir hönd starfsfólks skólans þakka ég ykkur fyrir liðið skólaár og óska ykkur gleðilegs sumars!
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Skólaferðalag 2024
Nemendur á unglingastigi fóru í frábært skólaferðalag til Benidorm undir lok maímánaðar. Farið var í vatnsleikjagarð, skemmtigarð, í Go-Kart, á ströndina og ýmislegt fleira. Óhætt er að segja að nemendur hafi skemmt sér konunglega í ferðinni og að þeir komi reynslunni ríkari heim.
Runólfur
Runólfur, kveðjuhátið 10. bekkjar, var haldin þann 21. maí síðastliðinn. Runólfur á sér langa sögu, en á þessari hátíð eru nemendur 10. bekkjar í sviðsljósinu og eru það samnemendur þeirra á unglingastigi, ásamt kennurum, sem sjá um að undirbúa daginn. Hátíðin var hin besta skemmtun, farið var í leiki, sagðar sögur og ljúffengar veitingar voru á boðstólum.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "gleðilegi júní". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Myndir úr skólastarfinu
Á döfinni í ágúst
- 15.-21. ágúst: Undirbúningsdagar starfsfólks.
- 22. ágúst: Skólasetning / útivistardagur.
- 23. ágúst: Útivistardagur.
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli