Fréttabréf mars
3. tbl 15 árg. 1.mars 2024
Kæra skólasamfélag
Nú er byrjað að huga að næsta vetri og styttist í að sent verði út skóladagatal næsta skólaárs. Eins og áður hefur komið fram höfum við í vetur verið að leggja áherslu á leiðsagnarnám sem snýst m.a. um að auka ábyrgð nemenda á eigin námi. Við höfum verið að flétta læsi í víðum skilningi við leiðsagnarnámið með áherslu á ritun. Sú vinna mun halda áfram næsta vetur.
Einnig er verið að skoða kennsluhætti í náttúrufræði í öllum grunnskólum Akureyrarbæjar og er þessi vinna í framhaldi af niðurstöðum QUINT og Pisa.
Nýliðinn viðburður Mathöll Naustaskóla er gott dæmi um hversu vel samþætting námsgreina getur orðið, en áhersla er lögð á samþættingu námsgreina í nýrri Menntastefnu Akureyrar. Ánægjulegt er hversu margir sáu sér fært um að koma á viðburðinn.
Árshátíð nemenda verður 21.mars og eru allir komnir á fullt í undirbúning. Í kjölfarið fara nemendur í sitt hefðbundna páskafrí sem nær fram í apríl og þá er vorið á næsta leiti.
Með kærri kveðju
Stjórnendur og starfsfólk í Naustaskóla
Mathöll Naustaskóla
Það er ánægjulegt að segja frá að 10. bekkur Naustaskóla var með spennandi POP-up viðburð þar sem samþættar voru námsgreinar og nemendur & kennarar tóku höndum saman og buðu upp á í matarferðalag um heiminn og mikil metnaður lagður í verkefnið. Hér eru nokkrar myndir af viðburðinum.
Símamál og símareglur
Eins og flestum á að vera kunnugt er bærinn að vinna drög að símareglum. Búið er að senda kannanir á alla þá sem mögulega eiga aðkomu að því að móta reglurnar, þ.e. nemendur, foreldra og starfsfólk skóla. Búið er að halda málþing um símareglur þar sem fulltrúar nemenda ræddu sín viðhorf til þessara mála og settu niður sínar hugmyndir og vilja.
Það er rétt að minna á að nú þegar eru í gildi símareglur sem má sjá á heimasíðu Naustaskóla.
Upphátt upplestrarkeppni
Hér má sjá veggspjald í tengslum við Upphátt sem var valið úr innsendum myndum frá nemendum í 7.bekk á Akureyri. Það er um leið boðskort á keppnina sem fer fram í Hömrum í Hofi 7. mars en foreldrum og forráðamönnum nemenda í 7.bekk eru boðnir velkomnir.
Í ár voru þrír nemendur sem voru valdir úr í innanhús keppninni í skólanum, það eru síðan tveir fulltrúar sem taka þátt fyrir hönd Naustaskóla í sjálfri Upphátt keppninni.
1. Eyþór Páll Ólafsson
2. Konný Björk Þórðardóttir
3. Máni Kristjánsson, varamaður.
Skipulag á árshátíðardegi
Það styttist í árshátíð nemenda og er undirbúningur kominn á gott skrið og við hlökkum mikið til.
21. mars er sýningardagur og er tvöfaldur dagur þar sem verða sýndar 4 sýningar frameftir degi. 22. mars er síðan kósýdagur nemenda þar sem verður uppbrot og við gerum okkur glaðan dag.
Foreldrum og ættingjum er boðið að koma og horfa á sýningar nemenda. Í lok hverrar sýningar mun 10. bekkur ( og foreldrar þeirra) sjá um kaffisölu en þau eru að safna fyrir útskriftarferðinni sinni í vor. Það kemur svo að því að ykkar barn fari í 10.bekk og nýtur þá góðs af þessari samvinnu foreldra.
Sú hefð hefur skapast í Naustaskóla að hvert heimili kemur með einn rétt eða eina köku á hlaðborðið. Búið er að setja upp skipulag yfir hvað ætlast er til að hver árgangur komi með. Ef í skólanum eru fleira en eitt barn frá sama heimili má velja hvorn réttinn það kemur með. Við tökum á móti veitingum í heimilisfræðistofunni á milli kl 8:15 -11:00 á árshátíðardaginn. Hefð er komin fyrir þessu fyrikomulagi í tengslum við árshátíð skólans og hefur það gengið vel hingað til og vonum við að svo verði áfram.
Við biðjum ykkur að merkja ílát vel með nafni barns ykkar svo það skili sér aftur heim.
Verð fyrir fullorðna á kaffihlaðborðið er 1000 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir grunnskólanemendur.
Nákvæmara skipulag verður sent út þegar nær dregur.
Á döfinni
4.mars - fræðsla fyrir 8.bekk um stafrænt ofbeldi.
5. mars - fræðsla fyrir 3., 6., og 9. bekk. Samtökin 78,
12. mars fræðsla fyrir 7.bekk. Hinsegin fræðsla.
7. mars - kl.14:30 - 16:00 Upphátt í Hofi. Tveir fulltrúar nemda úr 7.bekk taka þátt í upplestrarkeppninni.
21. mars - árshátíð nemenda, tvöfaldur dagur. Frístund opin.
22. mars - árshátíð/kósýdagur nemenda. Frístund opin.
25. mars - 1. apríl Páskafrí
25. - 27. mars eru skráningardagar í frístund.