Fréttabréf Flóaskóla
ágúst 2024
Kæra skólasamfélag
Vonandi hafið þið átt yndislegt sumar þrátt fyrir að nokkra vætutíð og sumarvinda. Starfsmenn skólans eru allir mættir til vinnu og undirbúningur skólastarfs gengur vel. Við erum full tilhlökkunar að hitta nemendur og foreldra í næstu viku.
bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir skólastjóri
Skólasetning og skólabyrjun
Skólasetning Flóaskóla verður föstudaginn 23. ágúst næstkomandi í Þjórsárveri kl 10:00, gert er ráð fyrir að allir nemendur mæti með sínum forráðamönnum.
Að loknu stuttu ávarpi skólastjóra fylgja nemendur umsjónarkennurum í heimastofu. Kennarar kynna skipulag skólastarfs komandi vetrar, fyrirkomulag náms og aðra mikilvæga þætti í skólastarfinu.
Skólahald og skólaakstur hefst síðan samkvæmt stundaskrá mánudaginn 26. ágúst. Kennsla hefst kl 8:20 og er það 10 mínútna seinkun frá síðasta vetri. Kennslu lýkur samt kl 14:00 hjá öllum nemendum.
Gjaldfrjálsar skólamáltíðir
Ákveðið hefur verið að skólamáltíðir í Flóaskóla verði gjaldfrjálsar frá og með komandi skólaári og a.m.k. til loka árs 2027. Þar sem nær allir nemendur skólans hafa verið í mataráskrift teljum við heppilegast að allir skráist sjálfkrafa í áskriftina nema óskað sé eftir öðru af foreldri/forráðamanni. Mikilvægt er að láta vita ef ekki á að nýta þjónustuna svo hægt sé áætla hæfilegt magn matar og koma í veg fyrir að matarsóun aukist við vegna þessara breytinga.
Frístund
Líkt og undanfarin ár er lengd viðvera eftir skóla – frístund - í boði fyrir nemendur í 1. - 4. bekk, skráningu í hana fyrir komandi skólaár þarf að vera lokið 19. ágúst. Sumarfrístund verður opin frá og með 19. ágúst, mánudag til fimmtudags frá kl. 8:00 til 16:30 og frá kl. 8:00 til 16:00 á föstudag, fram að skólasetningu. Senda þarf sér skráningu vegna þessara daga.
Starfsfólk Flóaskóla skólaárið 2024-2025
Lítil hreyfing er á starfsmannahópi skólans frá fyrra ári. Þær Guðfinna ritari og Maríanna umsjónarkennari eru þó farnar til annarra starfa og þökkum við þeim kærlega fyrir gott samstarf. Síðan hafa fjórir nýir starfsmenn bæst í hópinn. Það eru þær Rut Stefánsdóttir ritari, Erla Jónatansdóttir umsjónarkennari, Ólöf Kristín Knappett Ásgeirsdóttir umsjónarkennari og Eyrún Jónasdóttir tónmenntakennari og kórstjóri. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar til starfa við skólann.
Umsjónarkennarar á komandi skólaári eru:
1.-4. bekkur, Ólöf Kristín, Hafdís Gígja og Íris
5.-7. bekkur, Unnur, Kristín Lilja og María Hödd
8. bekkur Elmar
9. bekkur Pálína
10. bekkur Erla
Í skólabílstjórahópnum varð líka sú breyting að Sigurður Ólafsson hætti skólaakstri en Gunnar Larsen var ráðinn í hans stað. Við þökkum Sigurði kærlega fyrir hans störf og bjóðum Gunnar velkominn til starfa.
Fullskipað er í allar stöður við skólann nema við leitum enn að almennum starfsmanni í 40-60% stöðu. Ef þið vitið um einhvern sem myndi vilja fylla þá stöðu, þætti okkur vænt um að heyra frá viðkomandi.
Framkvæmdir við Flóaskóla
Í skólanum hefur ekki verið slegið slöku við í sumar. Iðnaðarmenn hafa áorkað miklu og sér fyrir endan á fyrsta áfanga framkvæmda. Margt er tilbúið og áætluð verklok eru á haustdögum. Búið er að stækka myndmenntastofu, heimilisfræðistofu og smíðastofu umtalsvert auk þess sem ýmsar smærri breytingar og tilfærslur hafa orðið innan húss. En skólalóðin á líka eftir að taka töluverðum breytingum, búið er að malbika og undirbyggja fyrir skjólveggi fyrir útisvæði við smíða- og heimilisfræðistofu og í farvatninu er að mála á planið við skólann svo það nýtist enn betur fyrir ýmiskonar leiki. Það er því mikilvægt að öll umferð við skólann sé um bílaplanið við Þjórsárver.
Nordplus samstarf
Samstarf Flóaskóla við grunnskólana í uppsveitum Árnessýslu
Síðustu ár hafa grunnskólar í uppsveitum Árnessýslu: Kerhólsskóli, Reykholtsskóli, Bláskógaskóli Laugavatni, Þjórsárskóli og Flúðaskóli unnið saman að hluta þess valgreinanáms sem nemendum á mið og elsta stigi skólanna stendur til boða. Við í Flóaskóla höfum tekið ákvörðun um að taka þátt í þessu samstarfi á komandi skólaári. Í þessu starfi gefst nemendum kostur á ýmiskonar fjölbreyttu vali sem ekki væri endilega hægt að mæta í fámennari hópi. Auk þess gefst nemendum kostur á að kynnast og starfa með jafnöldrum úr nærliggjandi sveitum. Nemendur hittast fjórum sinnum yfir skólaárið. Elsta stig er frá hádegi á fimmtudegi fram til kvölds og síðan aftur á föstudegi frá skólabyrjun fram á miðjan dag. Miðstig er á fimmtudögum á skólatíma. Sjá má dagsetningar þessara smiðja inni á skóladagatalinu. Kynningarfundir verða fyrir nemendur og síðan foreldra áður en fyrsta smiðjan hefst.