
Fréttabréf Grenivíkurskóla
1. tbl. 6. árg. - janúar 2025
Kæra skólasamfélag
Fyrir hönd starfsfólks Grenivíkurskóla sendi ég ykkur öllum bestu nýársóskir með þökk fyrir samvinnuna á liðnum árum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við ykkur á nýju ári og höfum fulla trú á að komandi ár verði okkur farsælt og heilladrjúgt.
Að vanda var mikið um að vera hjá okkur í desember en mánuðurinn litaðist af jólaundirbúningi og gleði. Við fórum í kyndlagöngu, vorum með laufabrauðsdag, hátíðarmat og litlu jól og þá fórum við í jóga og fleira í hreyfistundum sem mæltist vel fyrir. Þá má ekki gleyma opnun bókabúðar nemenda á miðstigi, en nánar má lesa um það hér að neðan. Myndir úr starfi skólans má nálgast í gegnum tengla á myndaalbúm neðar í fréttabréfinu.
Nýtt ár færir okkur að vanda nýjar áskoranir og ný tækifæri. Við tökum á móti nemendum með bros á vör og hlökkum til gera okkar besta til þess að önnin framundan verði skemmtileg og lærdómsrík.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Bókabúð nemenda á miðstigi
Eins og áður hefur komið fram hafa nemendur á miðstigi unnið að skemmtilegu verkefni á haustönn sem ber heitið "Frá kveikju til bókar". Nemendur hafa með aðstoð kennara sinna og rithöfundarins Þórunnar Rakelar Gylfadóttur skrifað bækur, útbúið textaverk, búið til tækifæriskort og merkimiða og ýmislegt fleira, en verkefnið hlaut styrk úr Sprotasjóði.
Þann 5. desember sl. var svo komið að uppskeruhátíð í tengslum við verkefnið en þá opnaði bókaútgáfan Þengilhöfði bókabúð í skólanum þar sem bækur og önnur verk nemenda voru til sölu. Það er skemmst frá því að segja að dagurinn var í alla staði frábær. Yfir 100 gestir sóttu viðburðinn og hlýddu á nemendur lesa úr verkum sínum, gæddu sér á veitingum og keyptu svo verk nemenda. Landinn kom í heimsókn og fylgdist með, en innslag um verkefnið var svo birt í þættinum þann 15. desember, og þar að auki höfðu nemendur og kennarar farið í útvarpsviðtöl og fleiri fréttir um það birst á ýmsum miðlum.
Bróðurparti ágóðans úr bókabúðinni ákváðu nemendur að ánafna Velferðarsjóði Eyjafjarðar, en hátt í hálf milljón safnaðist, hvorki meira né minna! Nemendur gerðu sér einnig glaðan dag fyrir jólin, fóru í bæjarferð þar sem þeir afhentu styrkinn, skelltu sér í sund og fóru út að borða.
Frábæru verkefni er þar með lokið og óskum við nemendum og starfsfólki til hamingju með framúrskarandi skapandi og skemmtilega vinnu á undanförnum vikum og mánuðum.
Kyndlaganga og litlu jól
Nemendur og starfsfólk skólans fóru í árlega kyndlagöngu þann 16. desember sl., en hefð er orðin fyrir því að fara í slíka göngu í jólamánuðinum. Gengið var að leikskólanum Krummafæti, Grýtu og Grenilundi og sungið fyrir nemendur, starfsfólk og heimilisfólk á viðkomandi stöðum. Við heimkomu gátu göngugarpar svo yljað sér með kakói og nartað í piparkökur með því.
20. desember var svo hátíðarmatur í hádeginu og litlu jól haldin seinni partinn. Í hátíðarmatnum stigu nemendur í 7. bekk á svið og voru með jólaupplestur og þá fengum við að hlýða á píanóleik nemenda á unglingastigi. Annars vegar léku þær Aníta Ingvarsdóttir og Katla Eyfjörð Þorgeirsdóttir lagið "Dansaðu vindur" fjórhent og hins vegar léku þær Björg Guðrún Sigurbjörnsdóttir, Aníta Ingvarsdóttir og Móeiður Alma Gísladóttir lagið "Aðfangadagskvöld" sexhent.
Á litlu jólunum var byrjað á stofujólum, þar sem nemendur opnuðu pakka frá samnemenda, lesin var jólasaga, og þá kíktu nokkir jólasveinar í heimsókn og gerðu usla. Að stofujólum loknum var haldið niður í græna sal þar sem séra Magnús spjallaði við okkur um jólin, farið var í nokkra leiki og þá þökkuðu nemendur hver öðrum fyrir gjafirnar með sérstakri þakkarkeðju, sem er ávallt falleg stund. Í lokin var svo dansað í kringum jólatréð við undirleik Elínar Jakobsdóttur og að endingu haldið heim og í jólafrí.
Möndlugrautur
Fimmtudaginn 19. desember var möndlugrautur í hádeginu hér í skólanum, en hefð er fyrir því að lauma nokkrum möndlum í grautarskálarnar og verðlauna heppna nemendur með gjöf.
Þrír nemendur voru svo heppnir að hitta á skál með möndlu, en það voru þau Kristjana Elín Sigþórsdóttir, Bella Guðjónsdóttir og Stefán Atli Sigurðsson. Hóbba bætti svo um betur og laumaði möndlu í skál hjá starfsmanni skólans, og var Edda Björnsdóttir svo lánsöm að hreppa hnossið að þessu sinni!
Viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn
Útbúin hefur verið viðbragðsáætlun sem höfð er til hliðsjónar ef skólasókn nemenda er af einhverjum ástæðum ábótavant. Samkvæmt 19. gr. laga um grunnskóla bera foreldrar ábyrgð á því að börn þeirra sæki skóla og ber skólastjóra eftir atvikum að vísa ófullnægjandi skólasókn nemenda til fræðslu- og barnaverndaryfirvalda.
Athuga skal þó að hvert og eitt mál er ávallt metið út frá stöðu hvers og eins og lögð er áhersla á að eiga í góðri samvinnu við heimilin við vinnslu mála af þessum toga. Á myndinni hér að neðan má sjá viðmið um viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn sem stuðst er við.
Grænfáninn
Í grænfánadálki fréttabréfsins í vetur verður sjónum meðal annars beint að hinum ýmsu hugtökum sem varða umhverfisnefnd.
Hugtak janúarmánaðar er gróðurhúsaáhrif. Gróðurhúsaáhrif eru náttúrulegt fyrirbæri í lofthjúpi Jarðar sem heldur henni mátulega hlýrri. Án gróðurhúsaáhrifanna væri Jörðin of köld til að við gætum lifað hér. Aukin gróðurhúsaáhrif valda hins vegar því að Jörðin hlýnar og því fylgja loftslagsbreytingar sem eru mjög slæmar fyrir lífríkið og okkur mannfólkið.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "hamingja í janúar". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Myndir úr skólastarfinu
Á döfinni í janúar
- 1. janúar: Nýársdagur.
- 3. janúar: Starfsdagur - frí hjá nemendum.
- 6. janúar: Þrettándinn - skóli hefst að loknu jólafríi.
- 24. janúar: Bóndadagur - fyrsti dagur í þorra. Þorrablót í skólanum.
Matseðill
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli