Fréttabréf Síðuskóla
5. bréf - desember- skólaárið 2024-2025
Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!
Nóvember hefur sannarlega verið viðburðaríkur. Við héldum árshátíðina okkar og við getum verið virkilega stolt af nemendum og starfsfólki, þar sem allt gekk upp hvort sem um var að ræða undirbúning, atriði á sviði eða frágang. Síðastliðinn þriðjudag fengum við svo viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF. Þessi áfangi er mikilvægur fyrir okkur öll og undirstrikar þá vinnu sem lögð er í að efla réttindi og velferð nemenda.
Desember er rétt að ganga í garð og verður mikið um að vera hjá okkur í skólanum.
- 4. desember: Jólaþemadagur - Nemendur hvattir til að mæta í einhverju jólalegu, boðið verður upp á kakó og frjálst nesti leyfilegt. Þennan dag verður ýmislegt í boði s.s. föndur, hreyfing og fleira.
- 13. desember: Jólasöngsalur og jólamatur - Komið saman á sal og sungin jólalög, jólamatur í hádeginu.
- 19. desember: Spurningakeppni fyrir 8.-10. bekk - Skemmtileg hefð þar sem nemendur spreyta sig á ýmsum spurningum.
- 20. desember: Litlu jólin - Fyrirkomulag er að finna neðar í póstinum.
Jólafrí hefst að loknum litlu jólum og kennsla hefst aftur eftir jólaleyfi mánudaginn 6. janúar.
Nú þegar farið er að dimma er mjög mikilvægt að börnin og reyndar við öll notum endurskinsmerki eða endurskinsvesti þegar við erum í umferðinni. Í myrkri sjást gangandi og hjólandi vegfarendur illa þrátt fyrir götulýsingu.
Foreldrafélagið gaf skólanum 150 þúsund krónur til bókakaupa á bókasafnið. Skólinn þakkar foreldrum kærlega fyrir þessa gjöf, hún nýtist vel við að kaupa nýjar bækur.
Starfsfólk Síðuskóla óskar nemendum og foreldrum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári um leið og við þökkum samstarfið á árinu sem er að líða. Með hækkandi sól tökumst við á við ný verkefni, leiðarljós okkar er að vinna saman, ná árangri og gleðjast!
Með góðri kveðju!
Ólöf, Malli og Helga
Litlu jólin
Litlu jólin verða föstudaginn 20. desember. Það koma allir í skólann kl. 9.00 og fara heim um kl. 11.00. Dagskrá verður á sal þar sem nemendur í leiklistarvali á miðstigi sýna jólaleikrit og einnig er samvera í heimastofum. Að lokum hittast svo allir í íþróttasalnum og ganga saman í kringum jólatréð.
Frístund er opin þennan dag fyrir þá sem þar eru skráðir.
Síðuskóli - Réttindaskóli UNICEF
Þriðjudaginn 26. nóvember varð Síðuskóli Réttindaskóli UNICEF við hátíðlega athöfn í íþróttasal skólans. Allir nemendur og starfsmenn voru saman komin á sal til að hlýða á dagskrána í tilefni dagsins. Söngur og ræður nemenda og gesta gerðu stundina í senn skemmtilega og fróðlega. Ólöf Inga skólastjóri setti athöfnina. Sigurbjörg í 9. bekk kynnti og stjórnaði dagskránni. Fyrst sungu allir saman skólasöng Síðuskóla, svo sungu 4. bekkingar lagið um vináttuna. Fulltrúar úr réttindaráði sögðu nokkur orð, en það voru Óliver Örn í 4. bekk, Hlynur Orri í 8. bekk og Þóra Dís í 5. bekk. Baráttusöngur barnanna var fluttur af 1. bekk. Því næst ávarpaði Kristín Jóhannesdóttir sviðstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrar og óskaði Síðuskóla til hamingju með viðurkenninguna og nafnbótina. Að lokum var komið að stóru stundinni þegar Unnur Helga Ólafsdóttir, verkefnastjóri UNICEF, afhenti Síðuskóla, frístundinni ásamt Undirheimum, staðfestingu á því að þau eru Réttindaskóli UNICEF, ásamt fána sem var dregin að húni í lok athafnar. Allir nemendur fengu svo ís í eftirrétt til að gera daginn enn eftirminnilegri.
Hér eru myndir frá deginum og aðeins hvað Réttindaskóli UNICEF stendur fyrir:
Réttindaskóli UNICEF (e. Child Right Schools) er hugmyndafræði og hagnýtt verkefni fyrir skóla- og frístundastarf sem tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálanum eins og hann er iðulega nefndur, og miðar að því að auka virðingu, vernd og framkvæmd mannréttinda.
Þegar skóli gerist Réttindaskóli ákveður hann að skuldbinda sig við að gera réttindi barna að raunveruleika eftir bestu getu. Skóli, frístundaheimili og félagsmiðstöð eru jafnir samstarfsaðilar í verkefninu og er það gert með það að markmiði að setja barnið sem einstakling í miðju verkefnisins. Vinna með Barnasáttmálann hefur bein áhrif á líf barna og er mikilvægt að sú vinna fljóti sem mest milli allra þeirra uppeldisstofnanna sem barnið sækir.
Réttindaráð leiðir innleiðingu Réttindaskóla- og frístundar og hittist að minnsta kosti tvisvar í mánuði. Meðlimir ráðsins eru umsjónarmenn í skóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð, tvö börn úr hverjum árgangi og fulltrúi foreldra/forsjáraðila. Réttindaráð Síðuskóla hefur unnið að þessari nafnbót undanfarin tvö ár.
Til hamingju Síðuskóli, frístund Síðuskóla og félagsmiðstöðin Undirheima með nafnbótina.
Síðustu vikur hefur verið nóg um að vera í skólanum eins og þessar myndir sýna.
Síðuskóli varð Réttindaskóli UNICEF
Vel heppnuð árshátíð dagana 7. og 8. nóvember
Setning Litlu upplestrarkeppninnar og Upphátt
Á döfinni
2. desember
9.b.Kynfræðsla strákar
4. desember
Jólaþemadagur
5. desember
9.b. Kynfræðsla stelpur
13. desember
Jólasöngsalur - nemendur og starfsfólk klæðast einhverju jólalegu. Jólamatur í hádeginu
19. desember
Spurningakeppni í unglingadeild
20. desember
Litlu jól - jólafrí nemenda hefst
Nemendur í 5. bekk í breakout
Breakout Edu svipar til "escape" leikja. Nemendur standa frammi fyrir vanda sem þeir þurfa að leysa með því að ráða fram úr vísbendingum í sameiningu og ná að opna kassann áður en tíminn rennur út.