Tíðindi frá Hólabrekkuskóla
24. mars 2023
Þemavika 27. - 31. mars
Þemadagar mánudag - miðvikudags
Næsta vika verður þemavika hér hjá okkur í Hólabrekkuskóla og er þemað að þessu sinni Ævintýri. Þemadagarnir eru á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Á fimmtudeginum er foreldrasýning og á föstudag er árshátíð í skólanum fyrir alla nemendur.
Nemendur mæta 08:30. Skólinn klárast 13:40 á mán - mið!
Nemendur mæta mánudaginn 27. mars klukkan 8.30 í sínar heimastofur. Þar verður þeim skipt í hópa en í hverjum hóp eru nemendur frá 1. og upp í 10. bekk sem munu vinna saman mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Nemendur í 9. og 10. bekk eru hópstjórar og sjá þeir um að fylgja sínum hóp á stöðvar og í frímínútur og hádegismat ásamt því að aðstoða yngri nemendur við verkefnavinnu á stöðvum.
Hver hópur er með sína stundatöflu þessa vikuna en það er 21 stöð í boði víðsvegar um skólann og fer hver hópur á sjö stöðvar. Stöðvavinnu lýkur alltaf klukkan 13.00 og þá enda nemendur í sinni heimastofu með sínum umsjónarkennara. Skóla lýkur svo 13.40 hjá öllum nemendum og þeir sem ekki fara í frístund fá þá að fara heim. Svona verður þetta hjá okkur mánudag, þriðjudag og miðvikudag.
Foreldrasýning á fimmtudag klukkan 09:00 - 09:45
Á fimmtudag er foreldrasýning klukkan 09:00 – 09:45. Þá er ykkur, kæru foreldrum, boðið að koma í skólann þar sem verður haldin sýning á afrakstri þemavikunnar. Verkin verða hengd upp á veggjum fyrir utan stofurnar en í stofunum verða umsjónarkennarar með önnur verkefni nemenda til sýnis og er ykkur velkomið að ganga hér á milli og skoða og spjalla við bæði kennara og annað starfsfólk. Foreldrasýningin verður hér á milli 9.00 og 9.45 en að sjálfsögðu má mæta fyrr ef börnum er fylgt í skólann klukkan 8.30. Kór skólans mun syngja af þessu tilefni klukkan 09:00.
Að öðru leyti er fimmtudagurinn hefðbundinn skóladagur og kennt samkvæmt stundatöflu þann daginn.
Árshátíðardagur á föstudag hjá 1. - 7. bekk - skóla lýkur 13:40!
Á föstudag verður árshátíðardagur hjá 1. – 7. bekk. Þá er í boði að taka með sér sparinesti í skólann ásamt því að öllum nemendum verður boðið upp á hádegismat. Starfsfólk skólans mun þá skreyta salinn fyrir hádegismatinn til að hafa hátíðlegt. Klukkan 13:00 verður slegið upp balli á sal skólans fyrir nemendur í 1. – 5. bekk. 6. og 7. bekkur mun fara í spennandi árshátíðardagskrá klukkan 12:50. Skólinn klárast klukkan 13:40 hjá nemendum í 1. – 7. bekk þennan dag. Nemendur sem ekki eru í frístund fá þá að fara heim í kærkomið páskafrí, frístundin er opin eins og venjulega þennan dag. 8. – 10. bekkur klárar hefðbundinn skóladag.
Árshátíð unglinga á fimmtudag. Þau mæta 10:10 á föstudag!
Árshátíð unglinga verður haldin þann 30. mars og opnar húsið með fordrykk klukkan 18.30. Borðhald hefst klukkan 19.00 og verður boðið upp á steikarhlaðborð og eftirrétt ásamt drykk með matnum. Á meðan borðhaldi stendur verður ýmis skemmtun í gangi en að borðhaldi loknu tekur við dansleikur þar sem Ingi Bauer mun halda uppi fjörinu fram eftir kvöldi. Árshátíðinni lýkur svo 23.00. Nemendur í 8. – 10. bekk mæta í skólann 10:10 á föstudagsmorgni.
Það kostar 3.000 krónur á árshátíðina og er miðasalan í gangi alla virka daga á milli 9.50 og 10.10 í stofu 8.
Páskaleyfi hefst 31. mars
Starfamessa
Úrslit stóru upplestrarkeppninnar
Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar í Breiðholti fór fram í Fella- og Hólakirkju, miðvikudaginn 15. mars 2023. Fulltrúar Hólabrekkuskóla þau Kristín Birna Sigurjónsdóttir og Haukur Jón Hallgrímsson stóðu sig frábærlega enda hafa þau æft af kappi síðastliðnar vikur og tekið tilsögn og ráðleggingum afar vel. Við óskum þeim innilega til hamingju með frábæran árangur og þá sérstaklega Hauki Jóni sem hreppti þriðja sætið og var sannarlega vel að því kominn.
Nemandi okkar í 1. sæti! í árlegri smásagnakeppni FEKÍ – A Story of Light and Darkness
Félag ensku kennara á Íslandi, FEKÍ, er með árlega smásagnakeppni og er tekið fyrir ákveðið þema í hvert sinn, í ár var þemað POWER. Félagið skiptir keppninni í fjóra flokka eftir aldursstigi og var Hólabrekkuskóli að taka þátt í fyrsta skipti. Skólinn mátti senda frá sér 3 sögur af hverju stigi sem og hann gerði. Þegar í ljós kom að ein af sögunum sem við sendum komst áfram í úrslit bauð Eliza Reid forsetafrú okkur á Bessastaði í verðlaunaafhendingu. Þar kom í ljós að Paula Sóley Finnsdóttir nemandi í 10. bekk hafi lent í 1. sæti í sínum flokki með söguna A Story of Light and Darkness.
Innilega til hamingju með þetta Paula Sóley! Kveðja frá Hólabrekkuskóla.
Kóræfing hjá skólakórnum
Réttindaráð skólans fundar
One dish one wish
Karlmennskan með fræðslu á unglingastigi
ART félagsfærni
Nemendur í 9. 8. 7. og 3. bekk fóru saman í fótbolta á dögunum
Hólabrekkuskóli
tekin saman af stjórnendum skólans
Lovísa Guðrún Ólafsdóttir, skólastjóri
Arnór Heiðarsson, aðstoðarskólastjóri
Heiða Berta Guðmundsdóttir, deildarstjóri eldra stigs
Hjördís Þórðardóttir, deildarstjóri yngra stigs
Email: holabrekkuskoli@rvkskolar.is
Website: www.holabrekkuskoli.is
Location: Suðurhólar 10, Reykjavík, Iceland
Phone: 4117550
Facebook: https://www.facebook.com/profile.php?id=100054356808058