Heiðarskóli
Fyrri hluti skólaársins að ljúka.
Desember
Þá er fyrri hluta skólaársins að ljúka og desember vel hálfnaður. Jólaljósin eru komin upp um allt hverfið og aðventan í fullum skrúða með öllum sínum jólahefðum. Í desember lögðum við áherslu á að skapa notalegt andrúmsloft með nemendum okkar með ýmsu móti. Fullveldisdagurinn var notaður til að búa til jólaskreytingar og fara í jólagírinn. Í framhaldi af honum var skólinn skreyttur af nemendum og starfsfólki og er hann ansi jólalegur. Skólinn bauð nemendum upp á piparkökur og heitt súkkulaði, sem þau fengu sér með bekknum sínum og höfðu kósýstund. Við fengum upplestur úr bókum eða fyrirlestra fyrir alla nemendahópa og eins og mörg síðustu ár fóru nemendur í Tarzan leik í íþróttahúsinu. Á fimmtudaginn borðuðum við hátíðarmat saman og var ís í eftirrétt sem vakti mikla lukku. Við finnum fyrir örlitlu hærra spennustigi meðal nemenda okkar þessa dagana sem er svo eðlilegt í desember og því skiptir máli að búa til góðar stundir þar sem allir geta notið sín.
Hér fyrir neðan má svo sjá upplýsingar um jólahátíðina okkar og litlu jólin ásamt myndum úr starfinu okkar.
Við ætlum að njóta vel síðustu dagana fyrir jólafrí nemenda okkar, eiga góðar stundir sem ljúka með jólahátíð. Ég vil nýta tækifærið og hrósa starfsfólki Heiðarskóla fyrir jákvæðni og umhyggju í garð nemenda sinna og um leið foreldrum/forráðamönnum skólans fyrir mjög gott samstarf á þessu hausti.
Lóa Björg Gestsdóttir
Skólastjóri
Jólahátið og litlu jólin
Nemendur eiga að mæta snyrtilega klæddir kl. 8.45 í heimastofur og áætlað er að skemmtuninni ljúki um kl. 10.30
Myndir af starfinu í desember
Mæting á nýju ári.
Starfsfólk skólans byrjar á starfsdegi 3. janúar en nemendur mæta aftur í skólann fimmtudaginn 4. janúar samkvæmt stundarskrá.