Flataskólafréttir
Skólaárið 2022-2023 - 1. janúar 2023
Kæra skólasamfélag!
Enn á ný heilsar nýtt ár og boðar nýtt upphaf og ný fyrirheit. Þá er um að gera að nýta tækifærið og setja sér góð markmið fyrir framtíðina og skerpa á því hver við viljum vera og hvað við viljum gera!
Liðið ár verður kannski lengi í minnum haft hjá okkur enda heilsaði það með gríðarlega ströngum sóttvarnatakmörkunum og endaði með nokkrum þrengingum vegna myglumála í skólahúsinu okkar. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að skólastarfið hefur gengið prýðilega þrátt fyrir þetta mótlæti og má þar þakka einstökum hópi starfsfólks, nemenda og foreldra sem myndar frábært skólasamfélag hér í Flataskóla. Það er ekki ónýtur efniviður til að byggja á í upphafi nýja ársins og við sláum því að sjálfsögðu föstu að nú heilsi okkur ljómandi gott ár.
Með bestu kveðjum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða og ósk um allt hið besta fyrir okkur öll á því næsta!
Ágúst skólastjóri
Helstu viðburðir í janúar
- 2. janúar - Kennsla eftir jólaleyfi hefst skv. stundaskrá.
- 11. janúar - Skipulagsdagur í leik- og grunnskóla. Frístund opin fyrir skráða nemendur.
- 20. janúar - Bóndadagurinn.
- 31. janúar - Samtalsdagur.
- 13.-17. febrúar - Vetrarleyfi í grunnskólum Garðabæjar.
Skipulagsdagur 11. janúar - skráning í Krakkakot
Miðvikudagurinn 11. janúar er skipulagsdagur í grunn- og leikskólum bæjarins. Þann dag verður Krakkakot opið frá 8:30-16:30, skráning fyrir daginn er hafin og stendur yfir til 6. janúar. Við getum ekki tekið á móti skráningum eftir 6. janúar og ekki tekið á móti börnum sem eru ekki skráð. Þennan dag þurfa krakkarnir að koma með morgunnesti og hádegismat, þau fá síðdegishressingu hjá okkur. Skráningin fer fram í gegnum völuna (www.vala.is) undir "Lengd viðvera".
Ef það er eitthvað óljóst má alltaf hafa samband við forstöðumann í gegnum netfangið: gudmundurtho@flataskoli.is
Varðandi myglumál
Framkvæmdir við húsnæðið hefjast á næstu dögum en ekki er gott að spá á þessari stundu um hvenær þeim verði lokið. Við upplýsum um framvindu þess máls eftir því sem það vinnst.
Við minnum á að á vef Garðabæjar er búið að setja upp upplýsingasíðu vegna aðgerða vegna myglu í húsnæði skólans og hún verður uppfærð eftir því sem nýjar upplýsingar berast. Þar má m.a. nálgast niðurstöður þeirra athugana sem farið hafa fram og einnig glærur frá upplýsingafundi þann 8. desember sl. Slóðin á upplýsingasíðuna er:
https://www.gardabaer.is/umhverfi/byggingarmal-og-framkvaemdir/framkvaemdir/flataskoli-endurbaetur
Frá Foreldrafélagi Flataskóla
Foreldrafélag Flataskóla hefur nú líkt og undanfarin ár sent út árlega valkvæða kröfu í heimabanka foreldra barna skólans að fjárhæð 2500 kr. Krafan er stofnuð sem hefðbundin krafa með eindaga 31.01.2023 en ekki reiknast dráttarvextir að þeim tíma loknum og fellur hún út ef hún er ekki greidd í lok júní. Sem flestir eru hvattir til að styðja við starf Foreldrafélagsins en þeir fjármunir sem safnast eru nýttir í þágu barnanna. Undanfarin ár hefur Foreldrafélagið t.a.m. tekið þátt í kostnaði í tengslum við árlega skíðaferð nemenda, skreytingar fyrir hrekkjavöku og tækjakaup fyrir Djúpið.
PMTO námskeið fyrir foreldra
PMTO foreldranámskeið fyrir foreldra barna með samskipta- og/eða hegðunarerfiðleika verður haldið í Garðabæ, fundarherbergi Sveinatungu, á miðvikudögum kl. 17:00 – 19:30 í alls 8 skipti vorið 2023.
Námskeiðið hefst 15. febrúar og lýkur 5. apríl 2023.
Þátttökugjald er 17.000 kr. fyrir fjölskyldu. Innifalið eru námskeiðsgögn og veitingar.
Gert er ráð fyrir að báðir foreldrar komi á námskeiðið. Lágmarksþátttaka eru sjö fjölskyldur, svo unnt verði að halda námskeið.
PMTO stendur fyrir Parent Management Training – Oregon aðferð, og er sannprófað meðferðarprógramm ætlað foreldrum barna með samskipta- og/eða hegðunarerfiðleika. Úrræðið hentar foreldrum barna á leik -og grunnskólaaldri. Rannsóknir hafa leitt í ljós að aðferðir PMTO draga úr hegðunarerfiðleikum barna og hefur auk þess jákvæð áhrif á samskipti innan fjölskyldu og frammistöðu barna í námi.
Á námskeiðinu er lögð áhersla á vinnu með verkfæri PMTO og sveigjanleika til að mæta þörfum hverrar fjölskyldu. Unnið er með ákveðna grunnþætti til að stuðla að jákvæðari hegðun barna og draga úr hegðunarerfiðleikum. Foreldrar vinna með verkfærin heima á milli tíma. Meðal verkfæra sem unnið er með eru:
- Skýr fyrirmæli
- Hvatning
- Virk samskipti
- Tilfinningastjórn
- Mörk
- Lausnaleit
Upplýsingar og skráning :
Skráning fer fram í gegnum Þjónustugátt Garðabæjar á eyðublaði undir "05. Félagsþjónusta", merkt PMTO foreldrafærni.
Umsóknarfrestur er til og með 25.janúar 2023
Haft verður samband við umsækjendur 30.janúar – 3. febrúar 2023.
Leiðbeinendur á námskeiðinu verða Berglind B. Sveinbjörnsdóttir uppeldisfræðingur M.ed. og PMTO meðferðaraðili og Ásdís Emilía Gunnlaugsdóttir sérkennsluráðgjafi og PMTO meðferðaraðili. Frekari upplýsingar í síma 525-8500.
Réttindaskóli Unicef
Á síðasta þemadeginum í lok nóvember tók réttindaráð Flataskóla við viðurkenningu frá Unicef um að loknu endurmati á stöðu okkar sem réttindaskóla höfum við áfram rétt á að kalla okkur réttindaskóla Unicef. Það var vel við hæfi að hafa athöfnina í lok þemadaga sem voru með yfirskriftinni "við erum öll jöfn" sem er bein vísun í 2. grein barnasáttmálans.
Seinni þemadaginn var öllum nemendum skólans blandað tilviljanakennt í 12-13 barna hópa sem unnu allir það sama undir leiðsögn kennara. Farið var m.a. í ratleik um barnasáttmálann úti á skólalóð, farið var í nafnaleik, teiknaðar voru sjálfsmyndir og unnið var með það hvað við erum öll eins þó við séum ólík. Myndir frá þessari vinnu má sjá hér fyrir neðan.
Á viðurkenningarathöfninni kynntu fulltrúar nemenda vinnuna sem fram fór fyrri þemadaginn. Nemendur stóðu sig mjög vel við að lýsa því hvað vinabekkir höfðu unnið og hvernig það tengdist annarri grein barnasáttmálans.
Endurnýjaðar skólareglur
Skólareglur Flataskóla hafa verið endurnýjaðar. Réttindaráð skólans valdi níu greinar Barnasáttmálans sem það taldi eiga erindi í skólareglur. Ákveðið var að hafa 3. gr. “Það sem er barninu fyrir bestu” sem regnhlífargrein yfir skólareglunum og þurfa reglurnar að taka mið af því sem er best fyrir börnin í skólanum. Mikilvægt er að vera meðvitaður um að réttur hvers barns endar þar sem réttur þess næsta byrjar.
Hópur nemenda skilgreindi hvað nemendur og starfsfólk þurfa að gera til að þau réttindi barna sem greinarnar ná yfir séu virt með því er stuðlað að því að réttindi allra barna í skólanum séu virt og skólabragur verði barnvænn.
Fulltrúar nemenda úr öllum árgöngum skilgreindu hvað nemendur þurfa að gera til að framfylgja reglunum og virða réttindi allra nemenda. Þau skráðu niður hvað þau sem einstaklingar þurfa að gera- með setninguna “þetta þýðir að ég” í huga. Reglurnar eru komnar á heimasíðu skólans en vinnu við uppsetningu þeirra er ekki lokið.
Markviss kynning á reglunum fyrir nemendum fer af stað um leið og uppsetningu reglnanna er lokið.
Áhugavert hlaðvarp fyrir foreldra og skólafólk
Viðbrögð við óveðri
Nú er kominn sá árstími að allra veðra er von og því rétt að vekja athygli foreldra á upplýsingum sem varð viðbrögð við óveðri. Skólastarf fellur ekki niður nema tilkynnt sé um það sérstaklega. Í upphafi skóladags getur í verstu veðrum tafist að fullmanna skóla og mega forsjáraðilar þá búast við því að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra.
Forsjáraðilar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi barni í eða úr skóla vegna veðurs, óháð því hvort tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti forsjáraðilar aðstæður svo að ekki sé óhætt fyrir börn þeirra að sækja skóla skulu þeir tilkynna skólanum um það sem lítur þá á tilvikið sem eðlilega fjarvist. Sama gildir ef börn eða forsjáraðilar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa. Nánari upplýsingar um viðbrögð við óveðri má finna hér.
Endurskinsmerki
Mentor - handbók fyrir aðstandendur
Opnunartími skrifstofu
Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.
Flataskóli Garðabæ
Email: flataskoli@flataskoli.is
Website: flataskoli.is
Location: Flataskóli, Gardabaer, Iceland
Phone: 513 3500