
DJÚPAVOGSSKÓLI
FRÉTTIR ÚR SKÓLASTARFI
MAÍ OG JÚNÍ
26.maí - Uppstigningardagur - frídagur.
27.maí - Héraðsleikar.
Vordagar og útikennsla.
03. júní - Skólaslit.
Skipulagsdagar starfsfólks.
NÆSTA VIKA
Mánudagur 16.maí
- Tökum vel á móti nýrri viku.
Þriðjudagur 17.maí
- 14:30 Teymisfundur.
Miðvikudagur 18.maí
- Góður dagur til að staldra við og njóta.
Fimmtudagur 19.maí
- Fagfundur.
Föstudagur 20.maí
- Förum í gott helgarfrí.
MATSEÐILL Í NÆSTU VIKU
SKEMMTILEG VIKA AÐ BAKI
Það var unnið vel í hópum og það komu margar góðar hugmyndir. Við lærðum ýmislegt, kannski þurfum við að skipta skólaþinginu næst, það gekk vel að hafa alla hópa saman. Það var frábær stemming hjá þeim yngstu og áberandi að sjá hvað þeirra hugmyndir snúa að því að allir séu vinir.
Á mið- og unglingastig bættust svo flottar hugmyndir við, þær snéru mikið að símanotkun, hvernig hægt er að bæta skipulag og fleira.
Við sáum líka að það var frábær hugmynd að setja elstu nemendur í það hlutverk að stýra umræðum í hópunum. Þau leystu þetta verkefni mjög vel og reyndar svo vel að fólk hefur sent skólastjóra skilboð og vilja skila hrósi til þeirra. Það var dásamlegt að sjá elstu nemendur leiða þá yngstu í rétta hópa og hjálpa þeim að koma þeirra hugmyndum á blað.
Rauði þráðurinn eftir þessa vinnu er klárlega að við þurfum að endurskoða skólareglurnar.
Eitt af því sem við sáum er að það er mjög mikilvægt að foreldrar komi með nemendum, það myndast svo mikilvægt samtal þegar við ræðum þetta saman í þríhyrningnum (nemendur, foreldrar og skóli). Kannski þurfum við að breyta tímasetningu fyrir næsta ár, eða bjóða upp á tvær tímasetningar, allt þetta ætlum við að skoða saman og finna góða leið.
Ég mun fara yfir niðustöður skólaþingsins með nemendaráði og í framhaldi kynna þær í svona fréttabréfi.
Að skipulagi skólaþingsins komu margir. Bylgja Borgþórsdóttir íþrótta- og æskulýðsstjóri Múlaþings útbjó grunn-skipulag með gildin okkar sem leiðarljós.
Tinna Halldórsdóttir yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú útfærði grunnskipulagið að Djúpavogsskóla. Tinna var komin til okkar um hádegi á miðvikudaginn og undirbjó umræðustjórana og leiðbeindi okkur hvernig við ættum að stilla upp fyrir þingi.
Alfreð hristi okkur saman með góðu hópefli og Ágústa var með flott erindi um mikilvægi öflugar liðsheildar. Ágústa stóð líka vaktina fyrir hönd foreldrafélagsins og sá til þess að við fengum hollan og góðan kvöldmat.
Takk kærlega fyrir ykkar frábæra framlag.
Starfsfólk skólans sýndi svo sannalega að við erum öflug liðsheild. Um leið og kennslu lauk var raðað upp í stofurnar, allt efni ljósritað og sett á rétta staði. Starfsfólk fór svo á milli hópa og tók þátt í umræðum og þegar þinginu lauk hjálpuðust allir að við frágang.
Vel gert hjá okkur.
Þórdís Sævarsdóttir, nýr aðstoðarskólastjóri var með okkur á skólaþinginu og byrjaði á því að sameina okkur í söng, mjög skemmtilegt, velkomin til starfa Þórdís.
GEÐLESTIN
Geðlestin er frábært og einstaklega þarft verkefni sem byggir á að öll erum við með geð sem við þurfum að hlúa að. Fræðslan er miðuð við nemendur í 8.-10.bekk, Grímur Atlason framkvæmdarstjóri Geðhjálpar byrjaði fræðsluna og benti nemendum á að skoða myndbönd og fræðslu sem má finna á https://gedlestin.is/
Grímur talaði um breyttar áherslur og opna umræðu um geðheilbrigði. Að það eru ekki bara þeir sem veikjast á geði sem hafa geð, öll höfum við geð og við þurfum að passa jafnvel upp á heilbrigði þess eins og við pössum upp á líkamlega heilsu.
Katla Ómarsdóttir tók svo við og sagði sína sögu sem var mjög áhrifarík og það sást vel í nemendahópnum að frásögn Kötlu hafði áhrif. Katla talaði um að hún væri venjuleg stelpa sem á unglingsárum þurfti óvænt að takast á við breytingar á líðan og hvernig hún gat ekki tekist á við þær breytingar án hjálpar. Hún lagði mikla áherslu á að það er alltaf hægt að finna leið og fá hjálp.
Það er gaman að segja frá því að þegar Geðlestin var að kveðja okkur þá kom Katla til mín og sagði mér hvað það hefði verið gott að koma í Djúpavogsskóla, góðar móttökur, flottir unglingar sem gott væri að tala við, þeir væru kurteisir og hlustuðu vel. Hún sagðist fara frá okkur með góða orku með sér. Mér þótti vænt um að hún gæfi sér tíma til að segja mér þetta og finnst mikilvægt að skila því til ykkar.
En þá var komið að Emmsjé Gauta og hann bað um að fá alla nemendur og starfsmenn saman. Sennilega hefur hann ekki gert sér grein fyrir því hvað við erum mörg og rýmið lítið :)
Meðfylgjandi myndbönd sýna vel að það var þröngt á þingi en það var mikið stuð og bæði nemendur og starfsmenn til í að syngja og dansa saman. Þarna má sjá elstu nemendur í leikskólanum í heimsókn og þeir virðast kunna að meta stuðið í nýja skólanum þeirra :)
Takk fyrir að koma við hjá okkur elsku Geðlest, þetta var frábært.
https://www.youtube.com/shorts/lMaj-RfmcVo
https://www.youtube.com/shorts/uqWN2Dme-iM
https://www.youtube.com/shorts/ZWdlNm0qyJ8
https://www.youtube.com/shorts/fx1OTCiTxbg
(Athugið að myndböndin eru á lokuðu youtube svæði skólans og samkvæmt persónuverndarlögum á ekki að deila þeim. Þetta er tekið fram vegna þess að viðmótið á svæðinu er öruvísi en áður og nú birtist áberandi share linkur...sem á sem sagt ekki að nota :)
HAMINGJURÍK NÆGJUSEMI
Um næstu helgi mun Adrien standa fyrir vinnustofu þar sem Cittaslow verður í lykilhlutverki. Þessi vinnustofa gæti verið gott tækifæri fyrir skólasamfélagið, hvaða áherslur viljum við sjá í Cittaslow skólastarfi. Vonandi geta sem flestir séð sér fært að kíkja við hjá Adrien.
EUROVISION
Það hefur verið mikil Eurovision stemming í skólanum í vikunni.
Það verður gaman að sjá hvernig þetta fer í kvöld.
Áfram Ísland.
HÉRAÐSLEIKARNIR
Eins og stóð í síðustu vikufréttum þá stefnum við á að fara með nemendur á mið- og yngstastigi á Héraðsleika þann 27.maí.
- 1.-2.bekkur fer í Fellaskóla
- 3.-4.bekkur fer í Brúarásskóla
- 5.-7.bekkur fer í Egilsstaðarskóla
Á Héraðsleikum koma nemendur á mið- og yngstastigi í grunnskólum Múlaþings saman og fara í skemmtilega leiki.
Þeir skólar sem taka á móti nemendum sjá um skipulag.
Við munum fara í það í næstu viku að skoða með hvaða hætti við förum, líklegast að við þurfum að panta okkur stóra rútu.
Umsjónarkennarar munu upplýsa foreldra vel þegar nær dregur og fá leyfi fyrir nemendur.