
Fréttabréf Engidalsskóla feb. 2025
Ábyrgð - Virðing - Vellíðan
Kæru foreldrar/forsjáraðilar.
Hér gefur að líta fyrsta fréttabréf ársins. Okkur er mjög í mun að veita sem bestar upplýsingar um skólastarfið. Í haust var tekin í notkun ný heimasíða með miklu af allskyns upplýsingum, vikulega berast heim föstudagsfréttir frá umsjónakennurum og nú síðast opnuðum við bæði facebook og Instagram reikninga fyrir skólann og hvetjum við ykkur til að fylgja okkur þar. Þar koma stuttar glefsur af starfinu svona dag frá degi, sagt frá heimsóknum sem við fáum og hvað er í matinn svo eitthvað sé nefnt. Um þá miðla ríkja strangar reglur sem við höfum sett og eru í takt við lög um persónuvernd og þær reglur sem Hafnarfjarðarbær hefur sett varðandi myndbirtingar af börnum. Við höfum nær eingöngu verið að birta svokallað story (e. sögu) sem lifir þá í 24 klukkustundir. Við vonum að þessi nýjung gefi ykkur enn meiri innsýn í störf okkar hér í skólanum.
Engidalsskóli er heilsueflandi grunnskóli og birtist það á margvíslegan hátt. Næstu verkefni hjá okkur eru að taka þátt í Lífshlaupinu og hvetjum við ykkur foreldrar/forsjáraðilar til að hvetja nemendur næstu tvær vikur sérstaklega til að stunda útivist og hreyfingu. Engidalsskóli stóð sig best allra skóla í Hafnarfirði í fyrra og ætlum við okkur ekki minna í ár. Við stefnum svo á skíðaferð í Bláfjöll föstudaginn 7. mars með 5.-7. bekk og er gott að fara að huga að græjum hvort þær passa eða hvort nemendur þurfa að fá lánað. Við höfum stundum náð að fara með nemendur í 4. bekk á skíði í Árbæ eða Grafarvog og við ætlum að vera á tánum með það. Skapist aðstæður nú í febrúar verður fyrirvarinn sennilega stuttur og við skellum okkur á skíði með 4. bekk. Það er skíðaleiga í Bláfjöllum fyrir þá sem fara þangað en við höfum líka bent fólki á að það er lika hægt að leigja búnað í Everest og losna við röð í Bláfjöllum auk þess sem það hentar vel 4. bekk sem fer vonandi á skíði innan höfuðborgarasvæðisins.
Hér fyrir neðan má sjá nýjustu niðurstöður skólans í lesfimi og ljóst er að við erum að standa okkur ágætlega miðað við landsmeðaltal. Við vitum hinsvegar að við getum gert en betur. Að meðaltali eru einungis 50-60% nemenda að ná lestrarmarkmiðum vikunnar og þar eigum við inni, það er nefnilega æfingin sem skapar meistarann og þó nemendur lesi töluvert í skólanum er æfingin heima líka MJÖG mikilvæg.
Nú eftir áramótin hóf störf hjá okkur nýr þroskaþjálfi Katrín Ósk Guðlaugsdóttir. Katrín hefur starfað bæði í leik og grunnskólum og kemur til okkar úr Lækjarskóla. Við erum þá aftur komin með tvo þroskaþjálfa sem er eins og við viljum hafa það. Dagný námsráðgjafi kvaddi okkur í desember og flutti sig til Njarðvíkur, þangað sem hún býr. Nú í byrjun febrúar kom Guðný Eyþórsdóttir til okkar en hún kemur úr Hraunvallaskóla. Við eigum von á Arnheiði Guðmundsdóttur, deildarstjóra frístundar, úr fæðingarorlofi í byrjun mars. Magnea Dís sem verið hefur í afleysingum fyrir hana er nú komin í kennslu og því mun Julia Nowak leysa Arnheiði af þar til í byrjun mars.
Nokkrir ,,öðruvísi" dagar eru í febrúar:
- 19. febrúar er foreldrasamráðsdagur og þau börn sem eiga að vera í frístund þann dag þarf að skrá sérstaklega í Völu.
- 24. og 25. febrúar er vetrafrí og þá er lokað bæði í skólanum og frístund.
- 26. febrúar er starfsdagur og þá er lokað bæði í skólanum og frístund.
Allt þetta og fleira er að finna í skóladagatalinu okkar á heimasíðunni.
Með bestu kveðju,
Skólastjórnendur Engidalsskóla.
Mælingar og mat í skólastarfi
Öllum grunnskólum ber að sinna mati á skólastarfinu, hvernig erum við að standa okkur. Skólar hafa ákveðið sjálfstæði þó í grunninn séu flestir að gera þetta á svipaðann hátt. Matið skiptist í innra mat og ytra mat. Í ytra mati á skólastarfinu spyrjum við t.d. ykkur í gegnum Skólapúlsinn (könnun sem einmitt er í gangi eða er að fara af stað) og þær niðurstöður rýnum við vel. Á síðustu árum höfum við séð að foreldrar eru ekki endilega nægjanlega vel upplýstir um ýmislegt bæði faglega hluta skólastarfsins og praktíst atriði. Þetta er ein aðalástæða þess að við erum að bæta upplýsingagjöf og fórum á fundi í haust vel yfir heimasíðuna okkar þar sem er að finna starfsáætlun skólans, skólanámskrá og margt fleira. Í starfsáætlun kemur líka fram hvernig við metum skólastarfið. Í ytra mati eru ekki bara þið spurð heldur taka nemendur þátt í könnunum sem utaðakomandi aðilar framkvæm og má þar nefna Skólapúlsinn, Rannsókn og greiningu og Íslensku Æskulýðsrannsóknina. Þegar kemur að innra mati þá tekur starfsfók þátt í skólapúlsinum líkt og nemendur, nemendur taka bæði lesfimipróf og lesskilningspróf sem eru samræmd á landsvísu og við notum svo Bravolesson til að meta störf hvers annars. Stjórnendur sitja reglulega tíma hjá kennurum og gefa endurgjöf á það sem þau sjá og kennarar meta bæði eigin kennslu, námskrá, stjórnendur og aðbúnað. Við höfum ef til vill ekki verið að flagga þessu mikið en erum stolt af faglegu og metnaðafullu starfi í skólanum.
Eins og alltaf í janúar fara nemendur í lesfimipróf. Þetta er allt á uppleið hjá okkur og nú erum við yfir landsmeðaltali í fjórum árgöngum, á meðaltali í tveimur og rétt undir í einum, þar munar aðeins fjórum orðum. Með áframhaldandi þjálfun og góðri samvinnu við heimilin náum við væntanlega að bæta okkur aftur í maí.
Fréttir úr Álfakoti
Kæru foreldrar og forsjáraðilar!
Arnheiður er væntanleg úr barneignafrí eftir vetrafrí. Þar sem Magnea Dís er farin að kenna í 1. bekk mun Julia Nowak leysa af sem deildastjóri frístundastarfs í febrúar. Það eru nokkrir óhefðbundnir dagar í febrúar: 19. febrúar er foreldrasamráð og foreldrar/forsjáraðilar þurfa að skrá í Völuna ef barn þeirra á að vera í frístund þann dag. Búið er að senda foreldrum póst varðandi þetta. Vetrafrí er 24. og 25. febrúar og starfsdagur 26. febrúar, lokað er í Álfakoti þessa þrjá daga.
Kær kveðja, starfsfólk Álfakots
Dalurinn
Uppeldi til ábyrgðar - Skýr mörk Engidalsskóla
Haustið 2021 hóf Engidalsskóli innleiðingu á uppeldisstefnunni Uppeldi til ábyrgðar. Innleiðingin hefur gengið vel og munum við halda henni áfram á þessu skólaári. Lykil spurning stefnunnar er hvernig manneskja viltu vera? Gengið er út frá því að þú sért við stjórnvölinn á eigin hegðun og þó við gerum öll mistök er mikilvægt að læra af þeim. Við forðumst ásakanir, afsakanir, skammir, tuð og uppgjöf og segjum JÁ eins oft og við getum. Það er alltaf hægt að segja já en stundum þarf þó að setja skilyrði í framhaldi, já þegar við erum búin að þessu eða þegar þú ert orðinn x gamall og svo framvegis. Við förum yfir hlutverk hvers og eins með nemendum, skilgreinum þarfir okkar og gerum bekkjarsáttmála. Nánar má lesa um stefnuna á uppbygging.is
Í Engidalsskóla eru ekki skólareglur en fari nemendur yfir skilgreind skýr mörk er gripið inn í og nemendum er þá vísað til skólastjórnanda sem ákveður næstu skref. Foreldrar eru boðaðir til fundar með nemendum og áætlun gerð um það sem betur má fara. Mikilvægt er að allir séu meðvitaðir um þetta. Minniháttar atvik leysum við á svokölluðu sáttarborði.
Í Engidalsskóla viljum við:
Ekkert ofbeldi hvorki líkamlegt né andlegt
Engin barefli né önnur vopn
Engin ávanabindandi efni eða fíkniefni þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur
Engar alvarlegar ögranir eða hótanir
Engin skemmdarverk
Enga áhættuhegðun
Engan þjófnað
Verkefni nemenda úr smiðjum
Hér fyrir neðan eru myndir af einhverjum verkefnum nemenda úr smiðjum en við erum að flytja myndir af verkefnum nemenda meira yfir á Instagram og Facebook, vonandi fylgið þið okkuur þar.
Holt og gott nesti fyrir hrausta og kraftmikla krakka
Engidalsskóli
Email: engidalsskoli@engidalsskoli.is
Website: https://www.engidalsskoli.is
Location: Breiðvangur 42, Hafnarfjordur, Iceland
Phone: 555 4433