Fréttabréf Síðuskóla
5. bréf - janúar - skólaárið 2024-2025
Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!
Gleðilegt nýtt ár 2025!
Við höfum nú kvatt árið 2024 og horfum bjartsýn fram á nýtt ár, tilbúin að takast á við ný verkefni og tækifæri sem bíða okkar í skólastarfinu.
Haustið var einstaklega viðburðaríkt í skólanum okkar. Síðuskóli fagnaði 40 ára afmæli sínu með glæsibrag. Í nóvember varð skólinn Réttindaskóli UNICEF við hátíðlega athöfn í íþróttasal skólans. Þetta markar tímamót í starfi okkar og undirstrikar mikilvægi þess að ala upp börn með mannréttindi að leiðarljósi.
Við erum afar þakklát fyrir stuðninginn sem við höfum fengið frá foreldrum, FOKS og samfélaginu. Á árinu fengum við rausnarlega peningagjöf frá FOKS sem gerði okkur kleift að kaupa nýjar bækur á bókasafnið. Það er mikilvægt að geta boðið nemendum upp á nýjar og áhugaverðar bækur og hvetjum foreldra til að halda áfram að styðja við börnin í lestrinum heima fyrir.
Vinna við skóladagatalið 2025-2026 er að hefjast en það sem vitað er núna og er samræmt milli skólanna á Akureyri, er að skólasetningin næsta skólaár verður föstudaginn 22. ágúst, haustfríið er 20. og 21. október og vetrarfríið 18.- 20. febrúar.
Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að byggja áfram á þeim styrkleikum sem við höfum og ná sem bestum árangri, saman lærum, náum árangri og gleðjumst.
Við þökkum ykkur innilega fyrir gott samstarf á liðnu ári og megi árið 2025 verða okkur gott og árangursríkt.
Með góðri kveðju,
Ólöf, Malli og Helga
Á döfinni
Stafrænt ofbeldi, fræðsla í 8. bekk
22. janúar
Fundur í skólaráði
28. janúar
Skipulagsdagur, engin kennsla
30. janúar
AFS, kynning í 9. og 10. bekk