
Fréttabréf Flóaskóla
mars 2024
Kæra skólasamfélag
Nú er sól farin að hækka á lofti og tveir þriðju skólaársins að baki. Okkur í skólanum finnst dagarnir hreinlega fljúga framhjá enda er alltaf nóg að gera við hin fjölbreytilegustu viðfangsefni.
Dagskráin í mars er ekki síður fjölbreytt en undangengna mánuði. Elstu nemendur skólans verða á farandsfæti í mars og sækja Norðurlandið heim. Nemendur á unglingastigi ríða á vaðið, fara í skíðaferð á Sauðárkrók dagana 5.-7. mars. Þau verða komin í brekkur Tindastóls upp úr hádegi á þriðjudegi og geta síðan nýtt allan miðvikudaginn í fjallinu. Fimmtudaginn 7. verður svo nýttur til heimferðar. 7. bekkur tekur svo við keflinu og fer í skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði dagana 11.-14. mars. Þau koma heim síðdegis á fimmtudegi úr þeirri ferð.
Nemendur á yngsta stigi eru önnum kafnir við undirbúning árshátíðarleikrits. Þetta árið er efni sótt í smiðju Astrid Lindgren og varð Emil í Kattholti fyrir valinu. Mikill metnaður er lagður í verkefnið og megum við eiga vona á góðri skemmtun fimmtudaginn 20. mars en þá verður sýning kl 9:00 í Þjórsárveri og eru allir boðnir velkomnir. Eftir leiksýninguna verður boðið upp á hressingu. Daginn áður verður generalprufa og er elstu nemendum leikskólans boðið á hana.
Fimmtudaginn 14.3. höldum við dag stærðfræðinnar hátíðlegan, þessi dagur er alþjóðlegur dagur stærðfræðinnar.
Við endum svo mánuðinn í páskaleyfi og óskum öllum gleðilegra páska
Bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir
Breytt aðkeyrsla að Flóaskóla - skiltin komin upp
Nú er búið að setja skiltin upp skiltin sem ég hef minnst á hér áður í fréttabréfum. Það er frábært að sjá hvað margir hafa strax tamið sér að koma á planið við Þjórsárver, sem er nýja innkeyrslan að skólanum, við þökkum kærlega fyrir það.
Takmarkanir á símanotkun nemenda á skólatíma ganga vel
Þegar þetta er skrifað eru átta dagar liðnir frá því teknar voru upp takmarkanir á símanotkun nemenda á skólatíma. Í stuttu máli þá hefur sú breyting gengið afar vel, nemendur setja símana sína í símaboxin að morgni, síðan eru þeir stundum teknir fram til að nýta í náminu og svo fá allir sína síma í lok dags. Hnökrar á þessari framkvæmd hafa verið minni en við áttum von á. Börnin ykkar eiga hrós skilið fyrir sinn þátt. Starfsmenn hafa svo haft á orði að gaman sé að fylgjast með nemendum í frímínútum að spila eða spjalla saman, samskipti hafa stóraukist milli þeirra. Svo iðar Þjórsárver af lífi, þar eru tvö borðtennisborð, fótboltaspil og biljardborð. Ný píluspjöld eru svo væntanleg, ásamt fleiri skólahreystitækjum. Hljóðpempandi tjöld eru væntanleg í næstu viku, en þau koma til með að skipta salnum upp í leiksvæði og matsal.
Fljúgðu, fljúgðu klæði - samstarf við Sinfónínuhljómsveit Íslands og Listasafn Íslands
Stærsta verkefni nýliðins mánaðar var á efa metnaðarfullt verkefni Langspilssveitar Flóaskóla. Undan farin ár hafa nemendur í 5. bekk smíðað langspil undir stjórn Eyjólfs Eyjólfssonar, lært að spila á langspilin og loks spilað á langspilsvöku. Verkefnið var tekið enn lengra í vetur þegar langspilsnemendum var boðið að taka þátt í samstarfsverkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Listasafni Íslands og Flóaskóla. Lokaafurð verkefnisins voru skólatónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar með þátttöku nemenda í Langsspilssveit Flóaskóla. Allir áhugasamir langspilsnemendur í 5.-10. bekk áttu kost á að vera með í verkefninu. Alls taka um 25 nemendur þátt og gaman að segja frá því að elstu nemendur skólans sem smíðuðu sín hljóðfæri fyrir nær 5 árum eru þónokkur með í hópnum. Þátttaka í verkefninu felur í sér sex skóladaga í Hörpu ýmist á æfingum eða tónleikum með Sinfóníuhljómsveitinni. Þrír þessara daga voru í febrúar og þrír verða dagana 29.4.-2.5. Nú þegar hafa verið haldnir þrennir tónleikar fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þessir tónleikar hafa gengið mjög vel og Langspilssveit Flóaskóla kemur sterk inn í þetta samstarf. Allir sem hafa áhuga á að hlýða á þessa tónleika geta mætt í Hörpu þegar seinni tónleikalotan fer fram. Þetta er sannarlega metnaðarfullt verkefni sem við erum afar stolt af. Okkur er tjáð að Langspilssveit Flóaskóla sé sú eina sinnar tegundar á landinu.
Fjölskyldu- og útivistardagur í Flóaskóla
Á haustdögum komu nemendur í nemendaráði að máli við stjórnendur með fyrirspurn þess efnis hvort möguleiki væri á að nemendur gætu komið á hestum í skólann einn dag. Okkur leist vel á hugmyndina og hefur hún nú þróast á þann veg að gera úr deginum fjölskyldu- og útivistardag sem nemendaráð og starfsmenn skólans skipuleggja saman og kalla jafnvel eftir aðkomu foreldrafélagsins.
Stefnt er að deginum fyrri hluta maímánaðar. Þeir nemendur og starfsmenn sem hafa tækifæri til og áhuga á geta þá komið á hesti í skólann að morgni þessa dags. Einhver fullorðinn yrði að fylgja þeim nemendum sem eru á mið og yngsta stigi. Hugmyndin er að skipuleggja að þeir sem eiga lengsta leið að fara gætu komið hestum sínum áleiðis daginn áður. Fyrsta skrefið í undirbúningi er að átta sig á hversu mörgum við gætum átt von á ríðandi í skólann þennan morgun. Búið er að fala girðingu í næsta nágrenni skólans til að geyma hrossin í yfir skóladaginn en vissulega skiptir máli hve mörgum hrossum við megum eiga von á hvernig því skipulagi verður háttað.
Í skólanum verður ýmiskonar óhefðbundin dagskrá þennan dag. Enn á eftir að skipuleggja og útfæra það en stefnt er að ýmiskonar viðfangsefnum, leikjum og afþreyingu utan dyra.
Í mars ætlar nemendaráð að kynna daginn og kanna hjá nemendum, hverjir hefðu áhuga og aðstæður til að koma á hesti. Við vildum því upplýsa ykkur um verkefnið svo þið gætuð rætt þetta við ykkar börn ef þau eru í þessum hópi. Þegar við sjáum hversu margir vilja taka þátt og hvaðan þeir kæmu tökum við næsta skref í skipulagningu.
Við viljum vekja athygli á þjónustu ART teymis Suðurlands. Ef þið viljið kynna ykkur þessa þjónustu betur er hægt að hafa samand við umsjónarkennara sem getur leiðbeint með ferlið. Oftast er samstarf heimilis og skóla með þessa vinnu en það er þó ekki nauðsynlegt.
Dagur stærðfræðinnar
14.3. er pí dagurinn og einnig dagur stærðfræðinnar á Íslandi. Pí er óræð tala sem byrjar á 3,14 og þess vegna er þessi dagur haldinn 14. mars ár hvert. Pí er “nákvæmlega” talan sem þú færð þegar þú ert með hring og tekur ummál hringsins og deilir í það með þvermáli hringsins.
Þrátt fyrir að byrjað hafi verið að nota pí 200 árum fyrir Krist, þá er stutt síðan byrjað var að halda upp á þennan dag. Það má þakka eðlisfræðingnum Larry Shaw. En árið 1988 langaði hann að bæta starfsandann þar sem hann var að vinna og bjóða upp á ávaxtabökur (e. pie, hljómar eins og pí borið fram á ensku) og te þennan dag, 14. mars klukkan 1:59 eftir hádegi (þar sem næstu stafir á eftir 3.14 eru 159). Nokkrum árum seinna áttaði Shaw sig á því að 14. mars væri einnig fæðingardagur Albert Einsteins og tók hann þá að halda árlega upp á þennan merkilega dag.
Fleiri og fleiri áhugamenn um stærðfræði tóku upp á að halda upp á þennan merkilega dag og árið 2009 var þessi dagur orðinn mjög vinsæll um allan heim.
Hér má sjá hlekk á síðu alþjóðlega stærðfræðidagsins https://www.idm314.org/
Samtök stærðfræðikennara á Íslandi hafa líka safnað efni sem hægt er að vinna með þennan dag https://flatarmal.is/dagur-staerdfraedinnar/