Fréttabréf Naustaskóla
5. tbl 15 árg. 1. maí 2024
Kæra skólasamfélag
Smátt og smátt vorar í lofti, það eru ekki margir skóladagar eftir af þessu skólaári og nú eru hefðbundin vorverk skólalífsins komin af stað. Undirbúningur næsta skólaárs mjakast áfram. Við erum ekki búin að raða endanlega niður í kennsluteymi næsta árs en vonandi mun það skýrast næstu daga, en ennþá vantar okkur kennara. Gert er ráð fyrir að stundaskrá skólans næsta vetur verði með svipuðu sniði og verið hefur í vetur. Annars er allt gott að frétta úr skólanum, dagskráin í maí inniheldur fasta liði eins og venjulega s.s útskriftarferð 10. bekkjar. Íþróttakennslan færist út og við reynum líka að vera meira úti þessa daga í öðrum greinum, Uppskeruhátíð Fiðrings verður 8. maí og að lokum þá tók Naustaskóli þátt í skólahreysti og stóðu unglingarnir sig mjög vel.
Með kærri kveðju
Stjórnendur og starfsfólk Naustaskóla
Foreldrafélag Naustaskóla
Sæl kæru foreldrar/forráðamenn,
Foreldrafélagið hvetur árganga sem eiga eftir að húrra í bekkjarkvöld/samverustund að endilega reyna að koma einhverju á, áður en skólaárinu lýkur. Okkur langar til að athuga hvort þið eigið spil inni á heimilum sem þið eruð ekki að nota og hvort þið væruð til í að gefa þau til skólann fyrir nemendur að nota í frímínútum. 10. bekkur hefur fengið sinn bekkjastyrk greiddan í ferðasjóð útskriftarferðarinnar, líkt og undanfarin ár. Við viljum líka minna aðra árganga á sjóðinn, 1.000 kr. per nemanda sem foreldrafélagið eyrnamerkir fyrir bekkjakvöldi/samverustund.
Með kærri kveðju og þökkum fyrir samtarfið á skólaárinu, stjórn foreldrafélags Naustaskóla
Ganga vel frá hjólum og hlaupahjólum og notum hjálm
Það er vor í lofti, snjórinn er sem betur fer að hverfa hratt og þá eru margir nemendur sem koma á hjóli í skólann sem er mjög jákvætt. Við hvetjum alla til að hafa lása á hjólunum sínum og ganga vel frá þeim fyrir utan skólann þegar þau mæta. Mikilvægt er að allir taki umræðuna heima um mikilvægi þess að nota alltaf hjálm hvort sem verið er á rafhjólum, hlaupahjólum eða reiðhjólum og hvort sem vegalengdir eru stuttar eða lengri.
Frístund
Forstöðumaður frístundar Erna Kristín Sigmundsdóttir mun láta af störfum í vor. Ekki er búið að ráða í nýjan umsjónarmann frístundar.
Útivistartími breytist í maí
Útivistartími barna og unglinga tekur breytingum 1. maí. Frá þeim tíma mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 22.00. Unglingar á aldrinum13 til 16 ára mega vera úti til klukkan 24.00. Börn mega ekki vera á almannafæri utan fyrrgreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum. Bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár. Foreldrum/forráðamönnum er að sjálfsögðu heimilt að stytta þennan tíma og setja börnum sínum reglur um styttri útivistartíma.
Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu.
Mikilvægt er að fylgja því eftir að börn og unglingar fái nægan svefn. Í því felst m.a. að ganga úr skugga um að þau séu ekki í tölvunni þegar þau eiga að vera komin í rúmið
Farsæld barna
Á heimasíðu skólans er hnappur sem heitir farsæld barna, Verkefnastjóri tengiliða er Dagný Björg Gunnarasdóttir námsráðgjafi og tengiliður er einnig Þuríður L. Rósenbergsdóttir, deildarstjóri.
Á döfinni
3. maí Strengjasveit Tónlistarskóla Akureyrar kemur að spila fyrir yngsta- og miðstig.
9. maí - Uppstigningardagur
13.-16. maí -Frjálsíþróttamót 4. -7. bekkur
13. maí 10. bekkur fer í skólaferðalag.
17. maí 6. bekkur heimsækir Hælið á Kristnesi, verkefnið heitir sultuplástur.
20. maí - Annar í hvítasunnu
28. maí Unicef hlaupið
30. maí Þríþraut hjá 7. bekkur
3. júní - Vorþemadagur
4. júní - Vorþemadagur
6. júní - Skólaslit
Skólaslit 6.júní 2024
Hér fyrir neðan er skipulag skólaslitadags:
Kl. 09:00 mæta nemendur 1.,3., 5., 7. og 9.bekkjar á sal skólans og fara síðan inn á sín svæði.
Kl. 11:00 mæta nemendur 2., 4., 6. og 8.bekkjar á sal skólans og fara síðan inn á sín svæði.
Foreldrar/forráðamenn eru velkomnir á skólaslit.
• Frístund er lokuð á skólaslitadaginn.
Útskrift 10.bekkjar fer fram á sal skólans kl. 15:00 – að henni lokinni er kaffihlaðborð fyrir 10.bekk og aðstandendur auk starfsfólks. Kaffiboðið er í boði foreldra 9. bekkjar en þessi skemmtilega hefð hefur skapast í Naustaskóla og munu 9.bekkingar njóta þess þegar röðin kemur að þeim að útskrifast.