
Fréttabréf Síðuskóla
7. bréf - febrúar - skólaárið 2024-2025
Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!
Þá er janúar að baki og alltaf hækkar sólin á lofti. Í næstu viku eru samtalsdagar hér í skólanum og þá gefst tækifæri til að ræða nám og líðan nemenda. Við höfum gert margt skemmtilegt í skólanum síðan við komum inn úr jólafríi eins og sést í fréttabréfinu. Það var t.d. gaman að sjá í flokkunarkeppninni hversu klárir nemendur eru í að flokka og hversu samofið þetta er orðið öllu starfi í skólanum. Starfsfólk fékk fræðslu og upprifjun varðandi flokkun frá Terra á starfsmannafundi í byrjun janúar því nauðsynlegt er að halda þessu við og miðla þeirri þekkingu áfram til nemenda. Búið er að gera drög að skóladagatali næsta árs og verður það kynnt í fræðslu- og lýðheilsuráði sem og skólaráði á næstunni. Þegar búið er að samþykkja það verður það kynnt á heimasíðunni.
Við viljum minna á það að ef nemendur eru keyrðir í skólann þá á að nýta sleppisvæðið nema sérstakar ástæður kalli á annað.
Við minnum svo á að klæða sig vel eftir veðri ekki þar sem það er kalt þessa dagana. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem fara út í frímínútur.
Bestu kveðjur úr skólanum,
Ólöf, Malli og Helga
1. bekkur - 100 daga hátíð
Í dag var haldin 100 daga hátíð í 1. bekk í tilefni þess að nemendur hafa verið 100 daga í skólanum. Dagurinn var fullur af gleði og fjöri, en nemendur marseruðu um skólann og unnu ýmis skapandi 100 daga verkefni. Nemendur völdu einnig góðgæti í tilefni dagsins – 100 talsins. Hátíðinni lauk svo með fjörugu balli þar sem nemendur dönsuðu og skemmtu sér saman.
Til hamingju með fyrstu 100 dagana í skólanum 1. bekkingar!
Leiðsagnarnám í Síðuskóla
Á þessu skólaári höldum við áfram að innleiða leiðsagnarnám, okkur til ráðgjafar er Miðstöð skólaþróunar HA. Í leiðsagnarnámi er lögð áhersla á að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Markmið með innleiðingunni er að starfsfólk fái í hendur verkfæri til að þróa og efla kennslu, gera kennslustundir enn markvissari, efla virkni nemenda í kennslustundum, fá þá til að bera meiri ábyrgð á eigin námi, að þeir sjái framvinduna o.s.frv.
Megintilgangur leiðsagnarnáms er að er að auka hlutdeild og ábyrgð nemenda á eigin námi og stuðla þannig að bættum árangri. Nemendur eiga alltaf að vita hvert þeir stefna í námi sínu og hafa viðmið um árangur. Þeir þurfa að vita hvar þeir eru staddir á leið sinni og fá leiðsögn sem hjálpar þeim til að brúa bilið þar á milli.
Nemendur í miðstigsvali undirbúa Barnamenningarhátíðina
Í miðstigsvali í Síðuskóla í dag eru nemendur að undirbúa Barnamenningarhátíðina sem haldin verður vítt og breytt um Akureyri dagana 1.-27. apríl. Þetta er í annað sinn sem nemendur miðstigs í Síðuskóla taka þátt með formlegum hætti og búa til muni sem þau selja til styrktar góðs málefnis. Í ár á ágóðinn að renna til Barnaspítala Hringins.
Sjá myndir hér.
Krufning í 9. bekk - verkleg kennsla
Nemendur í 9. bekk fengu einstakt tækifæri til að skoða og rannsaka brjóstholslíffæri úr svíni í tengslum við námsefnið sitt í náttúrufræði. Í litlum hópum krufðu þau lungu og hjarta, og skoðuðu byggingu og starfsemi þeirra í samhengi við mannslíkamann, sem þau hafa verið að læra um í vetur.
Þessi verklega nálgun hjálpar nemendum að tengja fræðilega þekkingu við raunverulega upplifun. Það var bæði fræðandi og áhugavert að fá að vinna með raunveruleg líffæri og sjá hvernig þau eru í alvörunni!
Á döfinni
6. febrúar
Þorgrímur Þráinsson heimsækir miðstig og 10. bekk
10. og 11. febrúar
Samtalsdagar
26. febrúar
Opið hús vegna innritunar í 1. bekk
28. febrúar
Dagur einstakra barna
Flokkunarkeppni Síðuskóla
Í síðustu viku var hin árlega flokkunarkeppni haldin. Þá keppa bekkirnir milli sín um að flokka sem réttast og á tíma. Gaman að sjá hvað krakkarnir okkar hafa gaman af því að taka þátt í þessari keppni og þetta er að sjálfsögðu lærdómur í leiðinni. Að þessu sinni sigraði 9. bekkur en 1. og 7. bekkur unnu á sínu stigi. Árgangurinn fær köku í lok skóladagsins. Sjá myndir frá keppninni hér.