Fréttabréf Grenivíkurskóla
7. tbl. 5. árg. - september 2024
Kæra skólasamfélag
Þá höldum við galvösk inn í nýtt skólaár, eftir sumarfrí sem var vonandi sem flestum gæfuríkt og skemmtilegt.
Ég vil byrja á að bjóða Oddnýju Jóhannsdóttur velkomna til starfa á nýjan leik, en hún verður í teymi unglingastigs í vetur. Að öðru leyti verða litlar breytingar á starfsfólki hjá okkur í vetur, þó enn vanti kennara á yngsta stig, en útlit er fyrir að við fáum nýjan starfsmann inn þann 1. október nk.
Líkt og undanfarin ár verða í grunninn þrír námshópar í skólanum í vetur, einn á hverju stigi (yngsta stig, miðstig og unglingastig).
1.-4. bekkur er saman í námshóp. Steinunn Adolfsdóttir er umsjónarkennari í þeim hópi, ásamt nýjum starfskrafti sem bætist í hópinn þann 1. október. Fleiri kennarar munu svo koma að stuðningskennslu á yngsta stigi.
5.-7. bekkur er saman í námshóp. Í kennarateymi þess hóps eru Guðrún Árnadóttir, Hólmfríður Björnsdóttir og Inga María Sigurbjörnsdóttir. Umsjónarkennarar eru Hólmfríður og Inga María.
8.-10. bekkur er saman í námshóp. Í kennarateymi þess hóps eru Edda Björnsdóttir, Gabríela Sól Magnúsdóttir, Inga Rakel Ísaksdóttir og Oddný Jóhannsdóttir. Umsjónarkennarar eru Edda og Gabríela.
Kolbrún Hlín Stefánsdóttir sér um hand- og myndmenntarkennslu og þá sér Inga Rakel um íþrótta- og sundkennslu.
Þótt hóparnir séu í grunninn til með þessum hætti er ekki þar með sagt að tiltekinn hópur sé alltaf allur saman í kennslustundum. Nemendum er skipt í smærri hópa í t.d. sundi, list- og verkgreinum og íþróttum. Þá hefur hvert kennarateymi sveigjanleika til að skipuleggja hópaskiptingu í bóklegum greinum eftir þörfum nemenda og viðfangsefnum hverju sinni. Áfram verður áhersla á einstaklingsmiðað nám og er það trú okkar að teymiskennslan hjálpi okkur þar með auknum sveigjanleika og sameiginlegri ábyrgð á nemendum.
Skipulag skóladagsins verður áfram með svipuðum hætti. Við hefjum flesta daga á lestri og hreyfistund og höldum svo í morgunmat kl. 9:00. Við taka kennslulotur til kl. 14:00, en þá lýkur skóla hjá öllum nemendum, alla daga.
Við óskum hér eftir sem hingað til eftir góðu samstarfi við heimili nemenda, enda er það lykillinn að velferð, vellíðan og árangri nemenda skólans. Óhjákvæmilegt er þó að stundum komi eitthvað upp á í dagsins önn og viljum við hvetja foreldra og forráðamenn til að hafa samband við skólann ef upp koma atvik eða ef spurningar vakna varðandi skólastarfið.
Megi gleði, samvinna og góð samskipti einkenna skólastarfið í vetur!
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Skólatöskugjafir
Líkt og undanfarin ár færir Grýtubakkahreppur nemendum í 1. bekk skólatösku að gjöf við upphaf skólagöngu þeirra. Í ár hefja þrír nemendur í 1. bekk skólagöngu sína, þau Alexander Jan, Stefán Atli og Thelma Nilakshi. Við óskum þeim velfarnaðar í leik og starfi í skólanum á næstu árum og vonum að skólatöskurnar sem þau völdu sér komi til með að reynast þeim vel!
Sprotasjóðsverkefni
Grenivíkurskóli hlaut nokkuð veglegan styrk úr Sprotasjóði fyrir verkefni sem unnið verður í vetur, en það snýr að skapandi skrifum og verður unnið undir handleiðslu rithöfundarins Þórunnar Rakelar Gylfadóttur. Stefnan er sett hátt, og markmiðið að nemendur semji sögur og myndskreyti og gefi út bók fyrir jólin! Spennandi verkefni sem gaman verður að taka þátt í.
Gjaldfrjálsar skólamáltíðir 2024-2027
Í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, í tengslum við nýgerða kjarasamninga, verða skólamáltíðir í Grenivíkurskóla gjaldfrjálsar frá og með nýhöfnu skólaári. Samkomulagið gildir til ársins 2027.
Þetta þýðir að ekki verða sendir út greiðsluseðlar vegna skólamáltíða á næstu árum. Skólinn mun áfram kappkosta að bjóða upp á hollan og góðan mat og hvetja nemendur til þess að temja sér góða borðsiði, njóta fjölbreyttrar fæðu, og eiga notalegar stundir í matsalnum.
Grænfáninn
Í grænfánadálki fréttabréfsins í vetur verður sjónum meðal annars beint að hinum ýmsu hugtökum sem varða umhverfisnefnd.
Hugtak septembermánaðar er grænþvottur. Grænþvottur á sér stað þegar þeirri ímynd er haldið á lofti að eitthvað sé umhverfisvænna en það raunverulega er. Grænþvottur á sér stað þegar fyrirtæki, stjórnvöld eða stjórnmálaflokkar villa fyrir fólki með því að sýnast vera umhverfisvænni en þau raunverulega eru.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "sjálfshjálp í september". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Myndir úr skólastarfinu
Matseðill
Á döfinni í september
- 4. september: Ferð með Húna II, 5. og 6. bekkur.
- 5. september: Danskennsla hefst.
- 8. september: Dagur læsis.
- 10. og 11. september: Þórunn Rakel rithöfundur kemur í heimsókn í tengslum við Sprotasjóðsverkefni.
- 16. september: Dagur íslenskrar náttúru.
- 19. september: List fyrir alla - leiksýning fyrir 3.-6. bekk.
- 25. september: Samskóladagur í Valsárskóla - 8.-10. bekkur.
- 26. september: Evrópski tungumáladagurinn.
- 27. september: Starfsdagur - frí hjá nemendum.
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli