Fréttabréf forseta
Apríl 2021
Landssambandsþingið
Því miður þarf ég að tilkynna ykkur að við getum ekki haldið landssambandsþingið eins og það hefur verið skipulagt og kynnt. Sóttvarnaraðgerðum hefur verið létt, en ekki nægilega mikið til að þingið okkar verði haldið í samræmi við gildandi reglur. Stjórn landssambandsins stendur því frammi fyrir erfiðu vali um hvað gera skuli, en .....
við höfum ákveðið að færa aðalfundarstörfin á Zoom. Þau voru skipulögð að kvöldi föstudagsins 7. maí frá kl. 20-22.30 og við höldum þessum dagskrárlið óbreyttum að öðru leyti en því að við förum yfir í fjarfund á Zoom.
Hins vegar höfum við hug á því að seinka ráðstefnudegi þingsins til haustsins. Það hefði auðvitað verið kostur að halda dagskránna alla á vefnum, þá gæfist okkur ekki tækifæri til að hittast á vettvangi landssambandsins fyrr en vorið 2022. Við finnum fyrir mikilli löngun félagkvenna til að fá tækifæri til að hittast í víðara samhengi og því finnst okkur góður kostur að reyna aftur í haust.
Í millitíðinni verður skipt um stjórn landssambandsins, þannig að ný stjórn mun taka málið í sínar hendur. Þið fáið nánari fréttir síðar af tímasetningu. Við erum nú að kanna möguleika hótels og fyrirlesara á dagsetningum.
Skráning á aðalfundinn
Skráning fer fram með því að senda tölvupóst til forseta með ósk um þátttöku, póstfangið er ieg@internet.is og ég mun senda ykkur tengil á fundinn 5. eða 6. maí.
Einnig munum við birta tengil á fundinn inni á vefsíðu okkar dkg.is skömmu fyrir fundinn.
Skýrslur frá deildum
Deildum ber að skila skýrslum um starfsemina vegna tveggja síðustu ára til landssambandsþings mánuði áður en þingið er haldið. Þessar skýrslur þurfa að liggja fyrir á aðalfundi. Skýrslur eru fyrir árin 2019-2021. Formenn eru beðnir að skila skýrslum til forseta í síðasta lagi fyrir lok apríl.