Fréttabréf apríl
4. tbl 15 árg. 1. apríl 2024
Kæra skólasamfélag
Skemmtilegur marsmánuður er nú að baki og er væntanlega efst í huga margra afar vel heppnuð árshátíð. Nemendur og starfsfólk skólans hafa lagt mikla vinnu í þessa daga og eiga þau miklar þakkir skyldar fyrir gott skipulag, frábæra samvinnu og metnað. Þann 7. mars tók Naustaskóli þátt í Upphátt stóru upplestrarkeppninni og áttum við þar sigurvegara sem lenti í 2. sæti hana Konný Björk Þórðardóttir.
Skólastarfið hefst aftur 2. apríl eftir páskafrí. Útivistardagur verður 4. apríl og þá er stefnt að því að eiga góðan dag í Hlíðarfjalli og vonum við að veðurguðirnir munu verða okkur hliðhollir.
Nemendafjöldi hreyfist lítið til en í dag eru um 375 nemendur og höfum við tekið á móti rúmlega 20 flóttabörnum í vetur. Í haust er gert ráð fyrir að um 30 nemendur hefji nám í 1. bekk. Árgangarnir eru mjög misjafnir eða frá 28 nemendum í 46 nemendur. Eins og staðan er í dag er gert ráð fyrir að námshópurinn á unglingastigi sé fjölmennastur.
Fyrirhugað er að starfsfólk skólans fari í námsferð 24. - 28. apríl til að skoða skólastarf í Hellrupskole og Skvogårdsskole í Danmörku. Rétt er að minna á að frístund verður lokuð 24. og 26. apríl.
Eftir árshátíðina er mikið af tertufötum og ílátum í skólanum sem við biðjum ykkur að sækja sem allra fyrst.
Lóan er komin, en hún er talin helsti vorboði okkar hér á landi og minnir okkur á að vorið er á næsta leyti.
Með kærri kveðju,
stjórnendur og starfsfólk Naustaskóla.
Árshátíð og farsæl menntun
Það er oft á tíðum ekki hvað þú lærir í grunnskóla sem þú nýtur góðs af heldur hvernig þú lærir. Jákvæð menntun tilgreinir fimm undirstöður fyrir vellíðan, það eru félagsleg og tilfinningaleg hæfni/færni, jákvæðar tilfinningar, jákvæð tengsl, skuldbinding við styrkleika og tilgangur. Undirbúningur fyrir árshátíð, æfingar ofl er stór hluti af skólastarfinu og fellur vel við markmið jákvæðrar menntunar og er það m.a. hlutverk skólans að leggja áherslu á þessa þætti auk hefðbundinna kennslugreina og færniþátta. Jákvæð menntun hefur einnig það markmið að skapa jákvæðan skólabrag og styðja við alla þá sem tilheyra skólasamfélaginu svo þeir megi blómstra og upplifa öryggi. Það er sameiginlegt markmið skóla og foreldra að mennta barnið í því sem er líklegt til að hafa áhrif á hamingju þess og farsæld í lífinu sem endurspeglaðist vel á þessum degi. Við viljum þakka ykkur foreldrum/forsjáraðilum sérstaklega fyrir ykkar framlag á þessum degi, t.d. að finna búninga með börnunum ykkar í atriðin, góð skil voru á kaffibrauði, og svo var einnig mjög góð mæting á viðburði þennan dag.
Á döfinni
1. apríl. Annar í páskum. (frí).
4. apríl. Útivistardagur í fjallinu.
24.apríl. Starfsdagur (frístund lokuð)
25.april. Sumardagurinn fyrsti. (frí)
26.apríl. Starfsdagur. (frístund lokuð)
Lausnahjólið
Markmið í vinnu með lausnahjólið er að nemendur, kennarar og starfsfólk skólans tileinki sér hjálplegar leiðir þegar vandi er fyrir höndum. Það er mikilvægt að hafa í huga að börn finna til sín þegar þau eru höfð með í að finna lausnir á vanda sem þau standa frammi fyrir, efla þau í að velja það sem hjálpar þeim til að ná árangri í að hafa stjórn á eigin lífi. Þá eiga þau hlutdeild í lausnunum og aðferðunum og eru jafnan viljugri til að fylgja því sem ákveðið hefur verið eða prófa til árangurs.
Lausnahjólið getur jafnframt verið hjálpleg leið utan skólans þegar verið er að leita lausna eða komast að samkomulagi og stundum að gera ekki það sem er vont, verra.
Það er alltaf gott að hafa í huga þegar við stöndum frammi fyrir vanda að það eru nokkrar leiðir sem hægt er að fara;
1. Til að leysa vanda:
Nýttu árangursríka samskiptafærni. Hugsaðu á díalektískan hátt.
2. Til að líða betur gagnvart vandanum:
Nýttu færni í tilfinningastjórn.
3. Til að þola vandann:
Nýttu streituþolsfærni og núvitund.
4. Til að halda áfram að láta sér líða ömurlega:
Notaðu ENGA færni.