

Tæknótíðindi
9. apríl 2025
Dagsetningar framundan
- 9. apríl - Foreldraráð býður til fræðslu
- 15. apríl - Páskafrí
- 23. apríl - Námsmat - skóli lokaður
- 24. apríl - Sumardagurinn fyrsti
- 25. apríl - Vorfrí
Fræðslukvöld fyrir foreldra
Foreldraráð Tækniskólans býður foreldrum nemenda skólans í fræðslu um kynferðisleg áreitni og ofbeldi milli unglinga miðvikudaginn 9. apríl.
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, heldur fræðsluna.
Við hvetjum alla foreldra til að mæta og taka þátt í mikilvægu samtali um velferð og öryggi ungmenna.
Miðspannarmat
Brynja stígur á stóra sviðið!
Brynja Gísladóttir, nemandi í málaraiðn við Tækniskólann, tekur þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna næstkomandi laugardag, 12. apríl. Hún flytur lagið Strange eftir Celeste og lofar að heilla áhorfendur með kraftmikilli túlkun sinni.
Keppnin fer fram í Háskólabíó og verður í beinni útsendingu á RÚV. Miðar eru fáanlegir á Tix.is.
Við óskum Brynju innilega góðs gengis og hvetjum öll til að fylgjast með!
Tækniskólinn í úrslit FRÍS
Tækniskólinn á leið í toppslaginn í FRÍS!
Rafíþróttalið Tækniskólans tryggði sér sæti í úrslitum FRÍS eftir glæsilegan sigur á liði Fjölbrautaskólans við Ármúla í undanúrslitum.
Í úrslitum mætir okkar fólk annaðhvort FG eða FB. Úrslitaleikurinn fer fram, miðvikudaginn 16. apríl kl.19:00 og verður í beinni útsendingu á: www.twitch.tv/rafithrottir
Við hvetjum öll til að fylgjast með og styðja okkar lið í baráttunni um titilinn.
Vel heppnað White on white ball
Miðvikudaginn 2. apríl stóð Nemendasamband Tækniskólans fyrir balli í Gamla bíó ásamt FMOS, FB og Borgó.
Ballið var virkilega vel heppnað og nemendur skemmtu sér vel en það voru Blazroca, DJ Gugga, Nussun, Ingi Bauer & Big Sexy, Issi og Sjarminn sem héldu uppi stemningunni.
Skrúfudagur í rjómablíðu
Skrúfudagurinn 2025 var haldinn með pompi og prakt síðastliðinn laugardag. Dagurinn var vel heppnaður í alla staði og ekki spillti veðrið sem lék við gesti og gangandi.
Frú Halla Tómasdóttir og maður hennar Björn Skúlason komu í heimsókn og fengu leiðsögn um skólann í föruneyti nemenda og starfsfólks.
Tækniskólinn sendir samstarfsaðilum og þátttakendum í Skrúfudeginum 2025 bestu þakkir fyrir samstarfið. Gestum þökkum við kærlega fyrir komuna.