Fjarnám MÍ
VOR 2025
MUNIÐ AÐ HUGA AÐ UNDANFÖRUM!
Bókfærsla (BÓKF2BF05)
Undanfari: STÆR2GS05 og UPPT1UV05
Það er öllum nauðsynlegt að gera sér grein fyrir bókhaldshringrásinni og skilja hvernig tekjur og gjöld hafa áhrif á eigið líf. Áfanginn er um bókhaldshringrásina og helstu reglur tvíhliða bókhalds. Fjallað er um grundvallarhugtökin eignir og skuldir, gjöld og tekjur. Lögð er áhersla á að nemendur verði færir um að annast almennar færslur í dagbók, hafi skilning á uppgjöri og geti sett fram einfaldan efnahags- og rekstrareikning. Nemendum er veitt innsýn í notkun flestra reikninga sem telja má til grunnreikninga í fjárhagsbókhaldi. Nemendum er gerð grein fyrir tilgangi bókhalds og kynnt helstu lög um bókhald, virðisaukaskatt og innflutnings á vörum. Áfanginn er að mestu unnin í Excel. Eftir þennan áfanga eiga nemendur að vera færir um að sjá um eigið bókhald og bókhald lítilla félaga og fyrirtækja.
Danska með áherslu á sköpun (DANS1SK05)
Undanfari: enginn
Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur séu færir um að skilja venjulegt talað og ritað mál almenns eðlis. Dönsk menning er kynnt og áhugi á henni vakinn. Áhersla er lögð á að orðaforði og lesskilningur nemenda verði aukinn, svo og að þeir geti tjáð sig munnlega og skriflega. Nemendur eru þjálfaðir í framburði og réttritun og læra að beita algengustu málfræðireglum, og kynnast hvernig danskan nýtist á hinu norræna menningarsvæði. Nemendur fá þjálfun í að nota hjálpargögn og kennsluforrit í námi sínu.Danska - danskt mál og samfélag (DANS2BF05)
Undanfari: DANS1SK05 eða B úr grunnskóla
Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur þjálfist í að skilja venjulegt talað og ritað mál um efni sem þeir þekkja sem og efni almenns eðlis. Áhersla er lögð á að orðaforði og lesskilningur nemenda verði aukinn m.a. með lestri sérhæfðra texta og texta sem þeir velja sjálfir og falla að þeirra áhugasviði. Nemendur fái þjálfun í að tjá sig munnlega, færa rök fyrir máli sínu og skiptast á skoðunum. Farið verður í undirstöðuatriði danskrar málfræði. Dönsk menning kynnt og þau gildi og viðhorf sem hana móta. Nemendur fái að kynnast hvernig danskan nýtist á hinu norræna menningarsvæði. Farið verður yfir sögu og menningu Færeyja og Grænlands, stöðu dönskunnar í þeim löndum og ríkjasamband þeirra við Danmörku. Nemendur bera ábyrgð á eigin námsframvindu, eru hvattir til sjálfstæðra vinnubragða og fái skilning á aðferðum við að tileinka sér erlend tungumál.Eðlisfræði - Aflfræði og ljósgeislar (EÐLI2AF05)
Undanfari: NÁTV1IN05 og STÆR2VH05
Í þessum fyrsta áfanga í eðlisfræði fyrir nemendur á náttúruvísindabraut verður farið í grunnatriði aflfræði. Efnisatriðin eru hreyfing í einni vídd, kraftar, vinna, orka, skriðþungi og þrýstingur.Lífræn efnafræði (EFNA3LÍ05)
Í þessum áfanga er nemandinn undirbúinn fyrir framhaldsnám í lífrænni efnafræði, lífefnafræði og nám á heilbrigðisvísindasviði. Áhersla er lögð á þekkingu á einkennum lífrænna efna og tengihæfni kolefnisfrumeindarinnar. Fjallað verður um helstu flokka lífrænna efna og veitt innsýn í nafnakerfi þeirra ásamt megingerðum lífrænna efnahvarfa.
Enska - Daglegt mál (ENSK2DM05)
Undanfari: ENSK1GR05 eða B í grunnskóla
Í áfanganum er áhersla lögð á skilning (hlustun - lestur), talað mál (frásögn- samskipti) og ritun. Nemendur lesa smásögur og vinna verkefni úr þeim. Hraðilesið efni er valið við hæfi nemenda og enskt talmál æft m.a. í tengslum við lestrarefni. Skriflegi þáttúrinn er þjálfaður með fjölbreyttum æfingum í tengslum við þá efnisflokka sem unnið er með.Enska í ræðu og riti (ENSK2RR05)
Undanfari: ENSK2DM05
Lögð er áhersla á tjáningu í ræðu og riti. Í áfanganum er unnið að því að auka orðaforða nemenda og skriflegi þátturinn þjálfaður með fjölbreyttum æfingum í tengslum við þá efnisflokka sem unnið er með. Nemendur fá tækifæri til þess að kynnast enskum bókmenntum, þjálfa ritgerðarsmíð og kynningar.Enska - fagorðaforði og ferðamál (ENS3FO05)
Undanfari: ENSK3HO05
Lögð er áhersla á að nemendur tileinki sér orðaforða vísinda, færða og ferðamála og verði læsir á flóknari texta en áður. Nemendur lesa akademískar greinar, afla sér upplýsinga og vinna kynningarverkefni. Nemendur halda áfram að æfa sig að skilja rit- og talmál, að tjá sig betur skriflega og munnlega í tengslum við kennsluefnið og fræðist meira um ferðamál og fagorðaforða.Sjónræn félagsfræði (FÉLA2SJ05)
VALÁFANGI
Undanfari: FÉLV1IF05
Sagt er að mynd segi meira en þúsund orð. Í áfanganum fá nemendur tækifæri til að skoða heiminn í gegnum ljósmyndir og í því að beita ljósmyndatækni til að túlka og skilja samfélagið í kringum sig.
Stjórnmálafræði (FÉLA2ST05)
Undanfari: FÉLV1IF05
Helstu hugtök stjórnmálafræðinnar kynnt. Nemandinn lærir um grundvallarstjórnmálastefnur 19.aldar sem áttu eftir að móta flokkakerfi stjórnmála vestrænna ríkja, þ.m.t. Ísland. Farið er yfir helstu einkenni íslenskra stjórnmálaflokka og fjallað um hugmyndafræði flokkanna í alþjóðlegu samhengi. Íslenska valdkerfið skoðað, þrískipting ríkisvaldsins, stjórnarskráin og samspil helstu valdþátta. Kynntar verða kenningar um lýðræði, stjórnkerfi, kosningahegðun, mismunandi kjördæmaskipan og flokkaskipulag. Gerð verður grein fyrir alþjóðlegri samvinnu ríkja eftir síðari heimsstyrjöld, m.a. verður aðdraganda og þróun Evrópusambandsins lýst, uppbygging og stjórnkerfi þess og verður leitast við að varpa ljósi á umræðu og stöðu í alþjóðamálum í dag. Áhersla verður lögð á að fjalla um málefni sem efst eru á baugi í stjórnmálum, efnahagsmálum og félagsmálum og tengja við málefni sem nemendur hafa sérstakan áhuga á.
Mannfræði (FÉLA3MA05)
Undanfari: FÉLA2KS05
Í mannfræði er maðurinn skoðaður bæði sem dýrategund og félagsvera. Í áfanganum verður mannfræði kynnt sem fræðigrein. Nemendur munu kynnast undirflokkum mannfræðinnar. Nemendur munu kynna sér helstu rannsóknaraðferð mannfræðinnar, þátttökuathugun, og munu fá að spreyta sig á aðferðinni með því að vinna einfalda rannsókn sem felur í sér þátttökuathugun. Fjallað verður um þróunarhugtakið í tengslum við þróun mannsins og þróun samfélaga og helstu gagnrýni á þróunarhugmyndir. Nemendur munu fá kynningu á ýmsum menningarheimum og eiga að geta tileinkað sér afstæðishyggju við skoðun á þeim. Í áfanganum verður meðal annars fjallað um ólík fjölskylduform, sifjakerfi, hagkerfi, trúarhugmyndir, kynhlutverk og lagskiptingu.
Inngangur að félagsvísindum (FÉLV1IF05)
Undanfari: enginn
Lögð er áhersla á að nemendur tileinki sér orðaforða vísinda, færða og ferðamála og verði læsir á flóknari texta en áður. Nemendur lesa akademískar greinar, afla sér upplýsinga og vinna kynningarverkefni. Nemendur halda áfram að æfa sig að skilja rit- og talmál, að tjá sig betur skriflega og munnlega í tengslum við kennsluefnið og fræðist meira um ferðamál og fagorðaforða.
Franska 2
Undanfari: FRAN1AG05
Áfanginn á að gefa góða undirstöðu til notkunar og þekkingar á frönsku sem tungumáli og frönskumælandi menningu, samfélagi og sögu. Námsefnið byggir á áfanganum FRAN1AG05. Áfanginn á áfram að örva forvitni nemandans á tungumálum og menningu. Áfanginn á að gefa nemendum möguleika á að þróa fjöltyngi þar sem kunnátta í einu tungumáli styður kunnáttu í öðrum. Nemendur eru þjálfaðir í lesskilningi, tali, hlustun og ritun. Mikil áhersla er lögð á að nemendur þjálfist áfram í góðum framburði og er þeim þætti sinnt bæði með hlustun og talæfingum. Samhliða vinnu með kennslubækling og annað skriflegt efni hlusta nemendur reglulega á útvarpsfréttir og sjónvarpsþætti á einfaldri frönsku.
Heimspeki og kvikmyndir (HEIM3KV05)
Undanfari: FÉLV1IF05
Í áfanganum verður horft á kvikmyndir og greind heimspekin sem kemur þar fram. Rætt verður um hlutverk kvikmynda til að skýra og sýna heimspekileg viðfangsefni. Nemendur horfa á kvikmyndir í tímum (fjarnemar myndu horfa á kvikmyndir heima hjá sér) og vinna verkefni upp úr þeim.
Íslenska - bókmenntir og ritun (ÍSLE2BR05)
Undanfari: ÍSLE1LR05 eða B í grunnskóla
Í áfanganum er fjallað um grunnhugtök málfræði, ritunar og bókmenntagreiningar. Nemendur þjálfast í að lesa ýmiss konar texta, jafnt bókmennta- og fræðitexta og greina þá. Þjálfuð verður ritun ólíkra texta, s.s. persónulegra, skapandi og formlegra. Rifjuð verða upp helstu málfræðihugtök og áhersla lögð á að nemendur læri að byggja upp texta og skipta honum í málsgreinar og efnisgreinar. Þá verða nemendur þjálfaðir í því að flytja mál sitt fyrir framan hóp. Nemendur velja sér skáldsögu í samráði við kennara, lesa hana og skrifa bókmenntaritgerð.
Íslenska - mál og menningarsaga (ÍSLE2MG05)
Undanfari: ÍSLE2BR05
Nemendur kynnast norrænni goðafræði og hugmyndaheimi norrænna manna til forna. Enn fremur þróun tungumálsins. Þeir lesa ólíka texta frá ýmsum tímabilum. Nemendur fá þjálfun í munnlegri tjáningu og ritun. Áhersla er lögð á að nemendur þjálfist í úrvinnslu heimilda um sérhæft efni.
Íslenska - yndislestur (ÍSLE3YL05)
Undanfarar: ÍSLE2BR05 og ÍSLE2MG05
Áfanginn er ætlaður nemendum sem hafa áhuga á bókmenntum. Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur lesi sér til ánægju og þroska og kynnist fjölbreyttu úrvali þekktra íslenskra bókmenntaverka. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð nemenda. Nemendur lesa sex til tíu skáldverk (valin af eða í samráði við kennara) sjálfstætt á tilteknum tíma og gera kennara grein fyrir þeim með skýrslum og einkaviðtölum.
Íslenska -félagsleg málvísindi og hljóðfræði (ÍSLE3FM05)
Undanfarar: ÍSLE2BR05 og ÍSLE2MG05
Meginefni áfangans er félagsleg málvísindi og ýmislegt sem fellur þar undir svo sem tvítyngi, framburðarmállýskur, þróun tungumálsins, innflytjendamál, samskipti manna, máltaka barna, dýramál og kynning á ólíkum gerðum rannsókna á þessu sviði. Þessu er fléttað saman við setninga- og hljóðfræði eins og þörf þykir. Lögð verður áhersla á sjálfstæð vinnubrögð nemenda, lestur fræðigreina og leitarnám.
Bókmenntasaga (ÍSLE3SB05)
Undanfari: ÍSLE2BR05 og ÍSLE2MG05
Í þessum áfanga er viðfangsefnið bókmenntasaga, bókmenntastefnur og bókmenntir allt frá því um 1200 og til okkar daga. Haldið verður áfram að þjálfa nemendur í heimildavinnu, ritgerðasmíð og fjölbreyttri verkefnavinnu.
Íþróttir - hreyfing og heilsurækt (ÍÞRÓ1HH01)
Undanfari: 4 einingar í íþróttum
Hreyfing og heilsurækt utan skóla í samstarfi við íþróttakennara.
Íþróttir - hreyfing og heilsurækt (ÍÞRÓ1HU02)
Undanfari: 4 einingar í íþróttum
Hreyfing og heilsurækt utan skóla í samstarfi við íþróttakennara.
Hinseginfræði (JAFN3HF05)
Undanfari: JAFN1JK05
Áfanginn er bóknámsáfangi þar sem nemendur kynnast sögu hinseginfólks á Íslandi, reynsluheimi þeirra, baráttumálum og menningu. Þá er sagan sett í alþjóðlegt samhengi. Námsefnið er skoðað út frá félagsmótunarkenningunni – sköpun sjálfsmyndar hinsegin fólks og þróun sýnileika. Staða á líðan og lífsgæðum hinsegin fólks er tekin fyrir og þáttur kynhneigðar í mótun menningar bæði hinsegin- og meirihlutasamfélagsins.
Listir og menning (LIME2LM05)
Undanfari: HUGN1HN05
Markmið áfangans er að nemandinn geri sér grein fyrir eðli þeirra þátta sem mótað hafa listsköpun mannsins í gegnum tíðina. Áfanganum er skipt upp í sex lotur þar sem nemendur kynnast og vinna heildrænt með menningarsamhengið á ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Þeir skoða alla þætti listalífsins, myndlist, handverk, hönnun, tónlist, dans og leiklist, hvern í samhengi við annan og við félagslegt og heimspekilegt umhverfi. Vinna í áfanganum fer að mestu fram í hópum þar sem hver hópur tekur fyrir ákveðna þætti menningarinnar, leitar heimilda, vinnur úr þeim og kynnir að lokum fyrir öðrum nemendum. Áfanginn kallar á kennsluhætti þar sem nemendur eru virkir og sjálfstæðir í þekkingarleit.
Líffræði - inngangur (LÍFF2LE05)
Undanfari: NÁTV1IF05
Farið verður í grunnatriði líf- og lífeðlisfræði. Flokkar líffræðinnar og grunnkenningar ásamt tengslum við aðrar fræðigreinar eru kynntar og aðferðum vísindanna við öflun þekkingar lýst. Flokkun lífheimsins og fjölbreytileiki lífvera skýrður með dæmum. Rifjaðir eru upp helstu flokkar lífrænna efna ásamt byggingu og starfsemi fruma. Byggingu og starfsemi helstu vefja dýra og plantna er lýst ásamt líffærum og líffærakerfum mannsins. Einstök líffærakerfi eru borin saman hjá mismunandi lífverum. Fjallað er um næringarnám hjá frumbjarga og ófrumbjarga lífverum. Með áherslu á spendýr er gerð grein fyrir meltingu, öndun, efnaflutning, úrgangslosun, ónæmissvörun, boðflutning, stjórnstöðvum í heila, hreyfingu, stjórn efnaskipta, skynjun, æxlun og fósturþroska. Því næst verður farið yfir skipulag erfðaefnisins, grundvallaratriði erfða, arfgengi eingena- og fjölgenaeiginleika ásamt dæmum og yfirliti um notkun erfðatæknilegra aðferða. Um leið og fjallað er um heilbrigða starfsemi lífvera er munur á starfsemi í hvíld og undir álagi kannaður ásamt dæmum um algeng frávik á starfseminni.
Erfðafræði (LÍFF3EF05)
Undanfari: LÍFF2LE05
Í áfanganum, sem er valáfangi í erfðafræði fyrir náttúruvísindabraut, er gerð grein fyrir sögu erfðafræðinnar ásamt grunnþáttum frumu-, sameinda- og stofnerfðafræði. Fjallað verður um Mendelskar og fjölgena erfðir og aðferðir við rannsókn erfðasjúkdóma. Leitast verður við að kynna nýjustu niðurstöður slíkra rannsókna ásamt aðferðafræði og nýtingu erfða- og líftækni.
Lífræn efnafræði (EFNA3LÍ05)
Undanfari: EFNA2AE05
Í þessum áfanga er nemandinn undirbúinn fyrir framhaldsnám í lífrænni efnafræði, lífefnafræði og nám á heilbrigðisvísindasviði. Áhersla er lögð á þekkingu á einkennum lífrænna efna og tengihæfni kolefnisfrumeindarinnar. Fjallað verður um helstu flokka lífrænna efna og veitt innsýn í nafnakerfi þeirra ásamt megingerðum lífrænna efnahvarfa.
Lokaverkefni - LOKA3VE02
** Aðeins fyrir nemendur með MÍ sem heimaskóla á síðustu önn í námi
Áfanginn er sameiginlegur lokaverkefnisáfangi allra námsbrauta. Í þessum áfanga vinnur hver nemandi að sínu rannsóknarverkefni að eigin vali. Gert er ráð fyrir að nemandinn hafi öðlast grundvallar þekkingu í vísindalegum vinnubrögðum, heiðvirðri og vandaðri heimildanotkun ásamt því að þekkja helstu rannsóknaraðferðir í náttúruvísindum, félagsvísindum og hugvísindum.
Nemendur þurfa að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, virkni, frumkvæði og þjálfa skipulagshæfileika sína, enda skipuleggja þeir vinnu sína sjálfir undir almennri verkstjórn kennara. Nemendur ákveða viðfangsefnin í samráði við kennara í viðkomandi námsgrein.
Áfanganum er ætlað að skerpa undirbúning nemenda fyrir háskólanám, sérstaklega hvað varðar leikni og hæfni til að afla áreiðanlegra gagna, vinna úr þeim og koma niðurstöðum sínum á framfæri. Í áfanganum fá nemendur tækifæri til að draga saman reynslu og fyrra nám í verkefnavinnu og að velja sér nýtt svið til þekkingaröflunar í samstarfi við fræðasetur eða atvinnulífið.
Hægt er að ljúka verkefnum á ýmsan hátt, s.s. í formi heimildaritgerðar, rannsóknarskýrslu, vefsíðu, heimildamyndar, fullunnar afurðar eða tímaritsgreinar. Afrakstur allra lokaverkefna verður kynntur á opnu málþingi og sýningu í lok annar.
Inngangur að náttúruvísindum (NÁTV1IN05)
Undanfari: enginn
Í áfanganum verður fjallað um náttúruvísindi í víðu samhengi, efnafræði, líffræði, jarðfræði og eðlisfræði og hvernig þessar greinar tengjast. Í áfanganum verður fjallað um vísindalega aðferðafræði og grunnhugtök hennar: Tilraun/könnun, breyta, tilgáta, kenning og lögmál. Nemendur eru þjálfaðir í meðferð á tölulegum gögnum, vinnu með mismunandi mælieiningar ásamt réttri notkun heimilda samkvæmt APA kerfinu í verkefnavinnu áfangans. Efnislega er lögð áhersla á orkuhugtakið, orkuauðlindir og mögulega nýtingu endurnýjanlegra orkulinda í heimabyggð. Aðrir mikilvægir námsþættir varða þekkingu á vistkerfum jarðar, hringrás efna og sjálfbærni til hagnýtingar í nútíma samfélagi.
Næringarfræði (NÆRI2GR05)
Undanfari: Enginn
Nemendur kynnast áhrifum næringar og mataræðis á líðan og heilsu einstaklinga og þekki samspil næringar og hreyfingar. Kynntar eru ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni. Skoðað er hvað liggur til grundvallar þeim ráðleggingum og hvaða ávinning hægt er að ná með því að fylgja þeim. Í áfanganum er farið í orkuþörf og næringarefnaþörf líkamans og ráðlagða dagskammta. Einnig er fjallað er um hreyfingu, holdafar og meltingu. Farið er í mataræði og fjallað um máltíðaskipan, skammtastærðir, fjölbreytni, fæðuflokka og mikilvægi hvers fæðuflokks. Næring er skoðuð m.a. orkuefnin, vítamín, steinefni og önnur efni.
Þættir úr sögu 19. og 20. aldar (SAGA2MÍ05)
Undanfari: SAGA2FR05
Áfanginn er hluti af brautarkjarna á félagsvísindabraut. Um er að ræða sögu vestrænnar menningar að mestu. Áherslan er á valda þætti í sögu 19. og 20. aldar, svo sem lífskjör, stjórnmál, samfélagsbreytingar og viðhorf. Íslandssögunni verður blandað inn í fyrrgreinda þætti og áhersla lögð á að nemendur átti sig á samhenginu á milli hennar og Evrópusögunnar. Samhliða umfjölluninni verður lögð áhersla á að nemendur átti sig á samhengi og samfellu í sögunni, leggi mat á viðfangsefnið. Nemendur vinna verkefni, bæði einstaklingsverkefni og hópverkefni, sem þjálfa sjálfstæð vinnubrögð og gagnrýna hugsun. Jafnframt verður áhersla lögð á heimildaleit, mismunandi heimildir, kosti þeirra og galla og ýmsar leiðir til úrvinnslu á efni.
Saga fjarlægra slóða (SAGA3FS05)
Undanfari: SAGA2FR05
Í áfanganum verður saga nokkurra liðinna samfélaga skoðuð. Hvenær komu þau fram, hvenær var blómatími þeirra og hvers vegna hurfu þau úr sögunni. Einnig verður kannað hvað mótaði samfélögin á sínum tíma og hvernig frásagnir af þeim lifa í nútímanum. Nemendur velja fjögur samfélög í samráði við kennara í upphafi áfangans. Samfélögin sem um ræðir eru:
· Forn-Egyptar
· Víkingar
· Aztekar
· Inkar
· Persar
· Zulu-þjóðin í Afríku
Íþróttasaga (SAGA3ÍÞ05)
Undanfari: SAGA2FR05
Farið yfir upphaf og þróun íþrótta í tengslum við sögu mannsins frá örófi alda, fornra, þekktra íþrótta fornþjóðanna til sundurgreiningar í íþróttum nútímans. Stiklað verður á stóru í íþróttum hverrar álfu fyrir sig; Evrópu, Bandaríkjanna og Asíu. Loks verður „öðruvísi“ íþróttum gerð skil og skipulagi íþrótta og utanumhalds þeirra með stofnun sambanda með öllu þeim kostum og göllum sem slíku fylgja. Markmiðið er að að nemandi þekki uppruna íþrótta og alvöru þeirra, tengslin við nútímann og þá ótrúlegu flóru sem til er í nútímanum. Hann kunni líka skil á eðli og uppbyggingu valinna íþrótta auk þess skrifræðis og skipulags sem umkringir nútímaíþróttir.
Sálfræði - inngangur (SÁLF2IS05)
Undanfari: FÉLV1IF05
Áfanginn er byrjunaráfangi í sálfræði. Fræðigreinin sálfræði er kynnt fyrir nemendum, upphaf hennar og þróun. Helstu kenningar og fræðimenn sálfræðinnar eru skoðaðar. Rannsóknaraðferðir sem notaðar eru í sálfræði eru kynntar fyrir nemendum og þeir vinna verkefni þar sem þeir spreyta sig á vísindalegum vinnubrögðum sálfræðinnar. Grunnhugtök og sálfræðistefnur eru kynntar og sérstaklega er komið inn á námssálarfræðina og nemendur læra um mismunandi tegundir náms og minnisaðferðir. Sérstaklega er fjallað um samspil á milli hugsunar, hegðunar og tilfinninga. Sjálfsmynd og mannleg samskipti eru skoðuð og aðferðir sálfræðinnar skoðaðar.
Þroskasálfræði (SÁLF3ÞR05)
Teknar verða fyrir helstu kenningar, viðfangsefni og rannsóknaraðferðir þroskasálfræðinnar. Nemendur læra um þroska mannsins frá frjóvgun og fram á fullorðinsár, einkum líkamsþroska, vitsmunaþroska, persónuleikaþroska og tilfinningaþroska. Byggt er á því sem nemendur hafa áður lært um sögu og sjónarmið sálfræðinnar, rannsóknaraðferðir og nám. Rætt verður um helstu álitamál þroskasálfræðinnar, svo sem erfðir og umhverfi, og stigskiptan og samfelldan þroska. Skoðuð verða mótunaráhrif fjölskyldunnar, auk frávikshegðunar og ýmsan vanda barna og unglinga. Nemendur fá þjálfun í að lesa rannsóknarskýrslu í þroskasálfræði.
Undirbúningsáfangi í stærðfræði (STÆR1GS95)
Undanfari: C í grunnskóla
Í áfanganum er lögð áhersla á einstaklingsbundna þjálfun nemenda í helstu undirstöðuþáttum og reglum stærðfræðinnar. Farið verður í reikniaðgerðirnar fjórar, forgangsröð aðgerða, almenn brot, lengingu og styttingu brota, samnefnd og ósamnefnd brot, liði og þætti, ólíkar gerðir talna, undirstöðuaðgerðir algebru, jöfnur og velda- og rótarreikning.
Jöfnur og algebra (STÆR2JA05)
Undanfari: STÆR2GS05
Í áfanganum er unnið með liðun, þáttun, jöfnu beinnar línu, 2. stigs jöfnur, fleygboga og talningarfræði, margliður og ójöfnur, veldi og rætur, föll, gröf og hagnýtingu hornafalla.
Stærðfræði - Tölfræði, talningar og líkindi
Undanfari: STÆR2GS05
Meginviðfangsefni áfangans skiptist í fjóra þætti sem eru lýsandi tölfræði, talningar og líkindafræði, líkindadreifingar og fylgni.
Stærðfræði - Rúmfræði og hornaföll (STÆR2RU05)
Undanfari: B í grunnskóla
Meginefni áfangans er rúmfræði. Efnisþættir sem teknir eru fyrir í áfanganum eru: Rúmfræði, kynning á frumhugtökum rúmfræðinnar, hornasumma þríhyrnings, hlutföll í þríhyrningum og regla Pýþagórasar. Flatarmál og rúmmál. Horn við hring. Hornaföll í rétthyrndum þríhyrningum. Mælieiningar. Sannanir og rökfræði. Í áfanganum er lögð áhersla á skipulögð vinnubrögð, röksemdafærslur og nákvæmni í framsetningu við lausn verkefna í stærðfræði.
Stærðfræði - Föll, markgildi og deildun (STÆR3DF05)
Undanfari: STÆR2VH05
Meginefni áfangans eru föll, markgildi, deildareikningur og kynning á deildun. Efnisþættir sem teknir verða fyrir í áfanganum eru: Föll: Veldisföll, vísisföll, lograföll, andhverf föll og samskeytt föll. Markgildi og deildun: Markgildishugtakið. Skilgreining á afleiðu falls. Deildun veldisfalla, vísisfalla, lografalla og hornafalla. Reiknireglur fyrir deildun margfeldis, ræðra falla og samskeyttra falla. Samfeldni og deildanleiki falla. Aðfellur. Hagnýting deildunar við könnun falla, s.s. að finna staðbundin hágildi og lággildi, einhallabil, beygjuskil og jöfnu snertils. Gröf falla. Noktun deildareiknings við hagnýt viðfangsefni.
Stærðfræði - Strjál stærðfræði (STÆR3SS05)
Undanfari: STÆR2GS05
Efnissvið áfangans eru mengjafræði, rökfræði, talningarfræði, reiknirit og talnafræði. Náttúrlegar tölur eru sameiginlegt viðfangsefni þessara sviða. Helstu efnisatriði eru: Mengi, vensl, varpanir og helstu hugtök varðandi þessi atriði, talningarfræði, rökreglur, mótdæmi, rakning, þrepun, reiknirit, raðir, jafnmunaröð, jafnhlutfallaröð, deilanleiki talna og frumtölur, sætiskerfi með öðrum grunntölum en 10, leifaflokkar og aðgerðir með leifaflokkum.
Sænska 1 (SÆNS2NB05)
Undanfari: grunnþekking; geta lesið, skrifað og talað á sænsku
Áfanginn er kenndur á sænsku og eru öll námsgögn á sænsku. Allir fjórir færniþættirnir, lestur, ritun, hlustun og tal, eru þjálfaðir markvisst. Undirstöðuatriði sænskrar málfræði eru rifjuð upp. Áhersla er lögð á hagnýtan munnlegan og skriflegan skilning. Auk þess á áfanginn að styðja við almenn kunnáttu um sænskumælandi menningu, sögu og samfélag. Áfanginn á áfram að stuðla að því að nemandinn verði betri lesandi.
Tölvunarfræði - Hlutbundin hugbúnaðargerð (TÖLF3HH05)
Undanfari: TÖLF2TF05
Í áfanganum fá nemendur æfingu í hlutbundinni forritun og einfaldri leikjaforritun í Python og Arcade / PyGame. Farið er yfir mismunandi ferli við hugbúnaðargerð. Unnið verður jöfnum höndum með textabundin og myndræn notendaskil. Helstu efnisatriði: klasar og hlutir, eiginleikar, smiðir private – public, nafnasvæði, aðferðir, erfðir, viðmót, hljóð, myndir, kvikar, leit, fylki, pallaleikir, röðun, frávik, skrár, sjálfkvaðning o.fl.
Upplýsingatækni og vefsíðugerð (UPPT1UV05)
Undanfari: enginn
Í áfanganum þjálfast nemendur í notkun töflureiknis og hugbúnaðar til ritvinnslu, glærugerðar og tölvupóstssamskipta. Þá verður farið í leit á Netinu og hvernig meta á gögn sem leitað er eftir. Einnig kynnast nemendur einfaldri vefsíðugerð.
Þýska 2 (ÞÝSK1AF05)
Undanfari: ÞÝSK1AG05
Markmið kennslunnar er að nemendur haldi áfram að æfa sig að skilja rit- og talmál, geti tjáð sig betur skriflega og munnlega í tengslum við kennsluefnið, þekki fleiri reglur í þýskri málfræði og auki orðaforða.
Líffæra- og lífeðlisfræði 2 (LÍOL2IL05)
*Sjúkraliðaáfangi
Undanfari: LÍOL2SS05
Í áfanganum verður farið yfir grundvallaratriði í líffæra- og lífeðlisfræði. Valin atriði úr námsefninu verða tekin fyrir í skilaverkefnum eftir hvern kafla til dýpri skilnings og þekkingar.
Megin viðfangsefnin eru: Flutningur og varnir þar sem fjallað er um blóð, hjarta, hringrásakerfið og varnarkerfi líkmans. Loftnám, fæða og orka þar sem fræðst er um öndunarfæri, meltingarfæri, næringu og efnaskipti. Fjallað er um þvagfæri og vökva- og rafvakajafnvægi. Í lok áfangans er farið yfir æxlun, þroska og ágrip af erfðafræði.
Samskipti (SASK2SS05)
*Sjúkraliðaáfangi
Undanfari: enginn
Í áfanganum er fjallað um mikilvægi góðra samskipta milli manna. Fjallað er um mikilvægi samkenndar, jafnréttis, mannvirðingar og mannréttinda í samskiptum. Farið er í eflandi samskipti sem byggja á virðingu og fordómaleysi á jafnréttisgrundvelli. Fjallað er um áhrif ólíkra menningarheima og tjáskiptareglna á mótun samskipta einstaklinga, hópa og þjóða. Farið er í áhrif sjálfsmyndar og sjálfstrausts á samskipti og hvað heilbrigðisstarfsmenn þurfa að hafa í huga í samskiptum við skjólstæðinga, samstarfsfólk og aðstandendur.
Menntaskólinn á Ísafirði
Email: misa@misa.is
Website: www.misa.is
Location: Torfnes, Ísafjörður, Iceland
Phone: 450 4400
Facebook: https://www.facebook.com/menntaisa/