Fréttabréf Naustaskóla
4. tbl. 15. árg 1. apríl 2023
Kæra skólasamfélag
Skemmtilegur marsmánuður er nú að baki en þar er væntanlega efst í huga margra afar vel heppnuð árshátíð og þátttaka í stóru upplestrarkeppninni. Nemendur og starfsfólk skólans hefur lagt mikla vinnu í þessa árshátíðardaga og á það miklar þakkir skyldar fyrir gott skipulag, frábæra samvinnu og metnað. „Það er örugglega flóknar að skipuleggja og halda utan um svona árshátíð heldur en að halda útihátíð“ varð einu foreldri að orði í fallegum hróspósti sem sendur var starfsfólki skólans. Nú líður að vori og ekki eru margar kennsluvikur eftir af þessu skólaári og framundan apríl og maímánuðir með sínum fjölmörgu frídögum og áður en við vitum af er skólinn búinn. Við erum að byrja að huga að næsta skólaári og í fréttabréfinu má finna slóð að skóladagatalinu 2023 -2024. Nemendafjöldi næsta vetrar verður svipaður og nú í vetur. Nú í haust koma 30 börn 1. bekk en nemendum fækkar nokkuð á yngsta stigi og stærstu námshóparnir verða nú á mið- og unglingastigi. Nú höldum við í páskafrí og mætum öll til starfa að nýju - bæði nemendur og kennarar þriðjudaginn 11. apríl.
Gleðilega páska!
Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri
Árshátíð
Hér í skólanum er mikið af tertufötum og ílátum sem við biðjum ykkur að sækja sem allra fyrst.
Undirbúningur
Skólahljómsveitin sem stóð sig stórkostlega
Þvílíkir hæfileikar
Það voru leikir í íþróttahúsinu
Það var dansað
Foreldrafélagið gladdi alla nemendur með ís
Framúrskarandi skólastarf
Við viljum benda á að búið er að opna fyrir tilnefningar fyrir framúrskarandi skólastarf á vef Akureyrarbæjar en ár hvert er þeim einstaklingum eða stofnunum veittar viðurkenningar sem skarað hafa fram úr í skólastarfi hér á Akureyri. Markmiðið með viðurkenningunum er að vekja athygli á því sem vel er gert og hvetja og efla þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna. Viðurkenning er einnig staðfesting á að viðkomandi skóli/kennari/nemandi er fyrirmynd annarra á því sviði sem viðurkenning nær til.
Opið er fyrir tilnefningar til 9. apríl. Hér er hlekkur á form sem tilvalið er að fylla út, finnist ykkur ástæða til þess að tilnefna kennara skólans, nemendur, starfsfólk, einstök verkefni eða skólann sem heild.
Viðurkenningarnar verða afhentar á hátíð í Menningarhúsinu Hofi þann 2. maí kl. 16:30.
Mörg þjóðerni í Naustaskóla
Í Naustaskóla er fjölbreyttur nemendahópur og þó nokkur fjöldi nemenda sem eiga annað tungumál en íslensku að móðurmáli. Í vetur höfum við tekið á móti 10 nemendum sem eru að feta sín fyrstu spor í íslenskum grunnskóla og um leið að læra okkar fallega tungumál. Þetta eru nemendur frá Rúmeníu, Úkraínu, Venezuela, og Kolumbíu. Eftir páska hefja fimm nemendur nám í skólanum og koma þeir frá Sómalíu.
Á dögunum bjuggu nemendur og starfsfólk Naustaskóla til veggspjald með upplýsingum um tungumálabakgrunn þeirra. Eins og sjá má eigum við tengingar víða um heim og erum við bæði
stolt og þakklát fyrir fjölbreytileikann í Naustaskóla.
Fréttir af 6. - 7. bekk
Í vetur höfum við lagt upp með fjölbreytt og skemmtileg þemaverkefni með áherslu á samvinnu árganga. Fyrir áramót tókum við fyrir Norðurlöndin þar sem reyndi á samvinnu nemenda, sjálfstæði í vinnubrögðum og skiluðu nemendur verkefnunum á fjölbreyttan hátt. Ber þar helst að nefna hlaðvörp, glærukynningar, veggspjöld og munnlegar kynningar fyrir bekkjarfélaga.
Eftir áramót tók við Líkami mannsins, en það er einmitt þemað sem við erum að vinna í núna. Við kennum þema tvisvar í viku og höfum lagt upp úr því að hafa annan tímann bóklegan og hinn verklegan. Í verklegum tímum hafa nemendur m.a. búið til blóð, raðað saman beinagrind og innyflum og búið til lungu og heila. Markmiðið með þessum verkefnum er að nemendur fái betri innsýn og skilning á því hvernig líkaminn okkar virkar og starfar.
Í vetur hefur verið lögð áhersla á árgangablöndun og erum við ánægðar með hvernig til hefur tekist. Árgöngunum er blandað saman flesta daga vikunnar í ýmist konar verkefnum t.d. hringekju, smiðjum, þemum og valgreinum. Árgangablöndunin hefur reynst nemendum viss áskorun og erum við stöðugt að þjálfa samskipti og samvinnu nemenda.
Fréttabréf nemendaréttindaráðs Naustaskóla
Pistill frá foreldrafélaginu
Foreldrastarf vetrarins 2022-2023
Við höfum staðið fyrir ýmsum viðburðum fyrir börnin okkar þennan veturinn sem og foreldra.
Á aðalfundi í lok september fengum við frábæran fyrirlestur frá Steinunni Öldu forstöðukonu Naustaskjóls og hinsegin félagsmiðstöðvarinnar á Akureyri um málefni hinsegin barna og unglinga. Því miður var fremur illa mætt á aðalfund og því fáir sem fengu að njóta fyrirlestrarins.
Í framhaldi var keyptur regnbogafáni fyrir skólann og hann afhentur 25.nóvember og flaggað sama dag, okkur var tilkynnt af stjórnendum skólans að fáninn hefði verið skorinn niður af fánastönginni í jólafríinu, því fékk fáninn aðeins að hanga í rétt um mánuð.
Við stóðum fyrir piparkökuskreytingar kvöldi 16.nóvember og það var svo vel mætt að við þurftum að fara 3 ferðir í búð eftir piparkökum og glassúr, afgangs glassúr fór svo á leikskólann. Takk fyrir mætinguna, verður þetta ekki bara hefð héðan af?
Við höfum keypt hópefli fyrir börnin okkar, fyrir 6.-10. bekk komu tvær konur inn í skólann og fengu börnin í leik og umræður. Fyrir 1.-5. bekk var svo keypt danskennsla sem er eitt form af hópefli líka.
Morgunfundir með teymum skólans í febrúar sóttust afar illa af foreldrum og langar okkur að nefna að ef við viljum hafa áhrif á skólastarf barna okkar er mikilvægt að endurbyggja sambandið á milli foreldra/forráðamanna og skóla og mæta á viðburði sem okkur er boðið á.
Fyrirlestur og kaffispjall með stjórnendum 1.mars fyrir foreldra/forráðamenn. Ingibjörg Þórðardóttir, félagsráðgjafi og stjórnarmeðlimur foreldrafélagsins, var með erindi um foreldrahlutverkið í nútímasamfélagi. Hún lagði áherslu á jákvæð samskipti, hrós, skýr skilaboð og aga, sem og mikilvægi þess að muna að við foreldrarnir erum alltaf fyrirmyndir barnanna okkar. Ingibjörg tók dæmi úr ósköp venjulegum aðstæðum sem upp geta komið á hverju heimili og hvernig viðbrögð okkar fullorðna fólksins geta ýtt undir seiglu og sterka sjálfsmynd barnanna okkar. Við settumst svo niður í matsalnum og fengum okkur kaffi og með því og spjölluðum við Bryndísi skólastjóra og Aðalheiði deildarstjóra, því miður voru afar fáir foreldrar/forráðamenn sem sáu sér fært að mæta og voru þeir einungis fjórir fyrir utan stjórnarmeðlimi.
Við höldum áfram að biðla til foreldra að koma á bekkjarkvöldi í sínum barna árgangi, það hefur ekki gefist vel hingað til á skólaárinu. 2 bekkjarkvöld hafa farið fram, í 1.bekk og 3.bekk en við vonumst auðvitað til að fleiri bekkjarkvöld séu í pípunum og minnum á lista sem unglingadeildin vann með börnunum okkar um hvað þau vilja gera á bekkjarkvöldi, hann má finna á facebook síðu foreldrafélagsins, síðan 2.febrúar. Þetta eru óskir barnanna okkar og þeirra hugmyndir því er um að gera að hafa frumkvæði og framkvæma, minnum á styrkinn 1000 kr. á hvert barn í árgangnum.
Við getum gert allt sem upp er talið og meira til vegna styrkja frá ykkur foreldrar/forráðamenn og við viljum hvetja ykkur til að koma með hugmyndir til okkar í stjórn ef ykkur dettur eitthvað skemmtilegt í hug sem gæti nýst sem flestum, helst öllum börnum sama á hvaða aldri þau eru.
Með kærri kveðju, stjórn foreldrafélags Naustaskóla.
Á döfinni
13. apríl smiðjuskil 2. - 3. bekk
19. apríl starfsdagur
20. apríl SUMARDAGURINN FYRSTI
Matseðill apríl
Naustaskóli
Email: naustaskoli@akureyri.is
Website: naustaskoli.is
Location: Hólmatún, Akureyri, Iceland
Phone: 4604100