Fréttabréf Kópavogsskóla
Júní
Gleðilegt sumar
Starfsfólk Kópavogsskóla óskar ykkur gleðilegs sumars og þakkar fyrir samstarfið i vetur.
Skrifstofa skólans opnar aftur 6. ágúst kl. 9.
Skólasetning nemenda er 23. ágúst.
2. - 3. bekkur kl. 8:30
4. - 6. bekkur kl. 9:00
7. 10. bekkur kl. 9:30
Nemendur fara heim að lokinni skólasetningu. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá 26. ágúst 2024.
Nemendur í 1. bekk verða boðaðir í einstaklingsviðtöl.
Vorferð 5. bekkjar
Ferðin á Þingvelli gekk vel í blíðskaparverði, reyndar smá kalt enda Esjan grá niðrá miðjar hlíðar.
Við komust öll í eina rútu, 49 nemendur og 5 starfsmenn. Byrjuðum á að ganga niður Almannagjá, fengum okkur holt nesti og nutum þess að horfa yfir þjóðgarðinn. Svo héldum við áfram göngunni að Drekkingarhyl og tókum myndir. Rútan beið okkar og flutti okkur að þjónustumiðstöð þar sem farið var í leiki og grillað. Var svo haldið heim eftir vel heppnaða ferð.
Verk og vit
Nemendur 10. bekkjar fór með Guðrúnu námsráðgjafa og Andra umsjónarkennara á stórsýninguna Verk og vit í apríl. Þar er verið að kynna byggingariðnað, mannvirkjagerð og skipulagsmál og er þarna kjörið tækifæri fyrir þá nemendur sem áhuga hafa á störfum sem tengjast sviðinu að kynna sér þau. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér nám og störf bendum við á síðuna Næsta skref https://www.naestaskref.is/is eða Nám og störf https://namogstorf.is/ .
Íþróttadagur ÍSAT
Miðvikudaginn 8. maí fóru ÍSAT nemendur í kynningu á íþróttum og tómstundum sem nemendur geta sinnt utan skóla. Í fyrra var farið í Breiðablik og Tennishöllina en í ár buðu HK og Gerpla krökkunum til sín. ÍSAT stendur fyrir Íslenska sem annað tungumál og eru þetta börn sem eru tiltölulega nýkomin til landsins. Dagurinn heppnaðist vel og var mikið stuð í hópnum.
Kópurinn
Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum miðvikudaginn 15. maí. Alls bárust 30 tilnefningar um 29 verkefni til menntaráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.
Fjögur verkefni frá Kópavogsskóla voru tilnefnd. Um var að ræða verkefnin Ferðataskan mín sem umsjónarkennara 3. bekkjar, Oddný, Dagný og Þórey unnu í vetur að tilefni 75 ára afmæli skólans. Einnig var Velkomin valfag tilnefnt en verkefnið er samstarfsverkefni Kjarnans félagsmiðstöðvar og Kópavogsskóla og miðar að aukinni þátttöku nemenda af erlendum uppruna í félagsstarf. Ljóðaleikur Hlífar Ásgeirsdóttur umsjónarkennara 8. Bekkjar og íslenskukennara á unglingastigi var sömuleiðis tilnefnt sem og samstarfsverkefni Frístundaheimilisins Stjörnunnar og Kjarnans, Miðstöðin þar sem verið er að brúa bilið á milli Frístundar og félagsmiðstöðvar á miðstigi. Við óskum öllum til hamingju.
Lopapeysan mín
Árný Jóna Stefánsdóttir kenndi valfagið Lopapeysan mín í vetur. Hópurinn hittist einu sinni í viku og prjónar hver sína peysu. Gengið hefur vel að ljúka við peysurnar og eru þær gullfallegar. Það er alveg ljóst, að þessar peysur verða mikið notaðar í ferðalögum og útilegum í sumar.
Útskrift 10. bekkjar
Þann 6. júní 2024 útskrifuðust 28 flottir nemendur frá Kópavogsskóla. Nemendur tóku virkan þátt í athöfninni með tónlist og með því að flytja ljóð. Eins og hefð er hér í Kópavogsskóla voru foreldrar nemenda í 9. bekk með flotta veislu fyrir þau. Við óskum öllum útskriftarnemendum velferðar í lífinu.
Hvalaverkefni hjá nemendum í 3. bekk
Nemendur í 3 bekk unnu verkefni um hvali nú á vorönn. Eitt af verkefnunum sem þau unnu í því verkefni var að mæla út og teikna hvali í raunstærð. Það var mikið fjör á skólalóðinni þegar verið var að teikna hvalina.
Barnaþing
Þau Kristján Guðni í 8. bekk og Védís Bella í 6. bekk tóku þátt á Barnaþingi Kópavogs, á þinginu fara fram umræður um helstu málefni barna í bænum og tillögur þeirra um umbætur í þágu barna.
Eftir þingið voru ellefu tillögur sem stóðu upp úr og voru flutt á fundi með bæjarstjórn. Kristján Guðni og Védís Bella fluttu erindið: “fleiri vettvangsferðir” og stóðu sig með prýði.
Viðburðir og ferðir nemenda í námsveri
Nemendum stendur alltaf til boða að taka þátt í ferðum og viðburðum á vegum sinna bekkja. Góð samskipti eru á milli kennara og starfsmanna Námsvers og annarra í skólanum, varðandi viðburði sem tengjast viðkomandi nemendum.
Nemendur tóku flestir þátt í ferðum sinna bekkja. Eftirtaldar ferðir voru skipulagðar af kennurum Námsvers.
✔ Jólaheimsókn í Pakkhúsið og Hellisgerði Hafnarfirði
✔ Heimsókn á skrifstofu Unicef - kynning á Unicef starfinu á íslandi
✔ Heimsókn í Elliðaárstöð - sýningin Ertu í stuði