Fréttabréf Grenivíkurskóla
2. tbl. 5. árg. - febrúar 2024
Kæra skólasamfélag
Þá er fyrsti mánuður ársins að baki og upplyftandi að sjá hvernig birtan eykst með degi hverjum og skammdegið hörfar hægt og sígandi. Framundan er febrúar, sem verður ögn lengri en venjulega, enda hlaupár og því 29 dagar í mánuðinum. Hlaupár eru almennt á fjögurra ára fresti eins og flestir vita, en líklega vita færri að það á ekki alltaf við. Undantekningin er nefnilega sú að á aldamótum þarf talan 4 einnig að ganga upp í öldina til að um hlaupár sé að ræða. Þess vegna var árið 2000 hlaupár (4 gengur upp í 20) en árið 1900 var það hins vegar ekki, og árin 2100, 2200 og 2300 verða það ekki heldur. Um þetta má lesa í ágætri grein á Vísindavefnum.
Svo við höldum áfram með fánýtan fróðleik um dagatöl, að þá gætti misskilnings með dagsetningar bóndadags og konudags - fyrstu daga í þorra og góu - á dagatölum ársins 2024. Fjölmörg dagatöl voru gefin út þar sem bóndadagur var settur á 19. janúar og konudagur á 18. febrúar. En svo kom upp úr krafsinu að árið 2023 var svokallað rímspillisár. Rímspillisár verða þegar síðasti dagur ársins á undan er laugardagur og næsta ár á eftir er hlaupár. Síðasti dagur ársins 2022 var einmitt laugardagur og árið 2024 hlaupár, svo af því leiðir að árið 2023 var rímspillisár. Og á eftir rímspillisárum hefst þorri ávallt þann 26. janúar, en ekki á tímabilinu 19.-25. janúar líkt og í öðrum árum. Góa hefst svo þann 25. febrúar, en ekki á tímabilinu 18.-24. febrúar eins og annars tíðkast. Af þessum sökum voru ótalmörg dagatöl vitlaus og afleiðingin til að mynda sú að fjöldi þorrablóta fór fram áður en þorrinn var genginn í garð! Ítarlegri upplýsingar um rímspillis ár má einnig lesa í æsispennandi grein á Vísindavefnum.
En nóg um það. Í febrúar er komið að viðtalsdegi, en hann verður þriðjudaginn 13. febrúar. Mánudagurinn 12. er starfsdagur og frí hjá nemendum. Mögulega munu einhver viðtöl þó dreifast á dagana í kring og verða umsjónarkennarar í sambandi varðandi það þegar nær dregur.
Dagana 14.-16. febrúar er svo vetrarfrí í Grenivíkurskóla, en skóli hefst að nýju að því loknu mánudaginn 19. febrúar. Þá hefst undirbúningur fyrir Vorskemmtun, en sýningar munu fara fram miðvikudaginn 13. mars og fimmtudaginn 14. mars. Meira um það síðar.
Ég minni á að alltaf er hægt að hafa samband við skólastjóra eða umsjónarkennara ef spurningar vakna um nám, líðan og velferð nemenda, og hvetjum við ykkur til að vera í sambandi ef einhverjar áhyggjur vakna þar að lútandi.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Nýjar símareglur
Mánudaginn 22. janúar sl. tóku gildi nýjar símareglur í Grenivíkurskóla, en reglurnar gilda einnig um önnur snjalltæki í eigu nemenda. Þótt viðbrögð nemenda við nýjum reglum hafi verið misjöfn, hafa fyrstu vikurnar gengið býsna vel og nemendur að langmestu leyti gætt að því að fylgja þessum nýju reglum, og fyrir það má hrósa þeim. Nýju reglurnar gilda út þetta skólaár, en í vor er stefnt að því að fullmóta framtíðarreglur um þessi mál í samráði starfsfólks, nemenda og foreldra.
Stefnt er að því að efla spilakost og fleiri afþreyingarmöguleika í skólanum samhliða nýjum reglum og tökum við fagnandi við góðum ábendingum hvað það varðar. Það er von okkar að foreldrar og forráðamenn taki vel í þessar breytingar og hjálpi okkur, og nemendum, að tryggja að þeim sé framfylgt.
Farsæld barna
Líkt og áður hefur verið rætt, t.d. á foreldrafundum og víðar, eru nú í innleiðingarferli lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, oftast kölluð Farsældarlögin. Lögin eiga að tryggja skipulag og samfellu og hafa það markmið að skapa heildarsýn og ramma um þau þjónustukerfi sem skipta mestu máli fyrir farsæld barna. Börn og foreldrar sem á þurfa að halda eiga þannig að hafa greiðan aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana.
Samkvæmt lögunum skulu öll börn og foreldrar hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns.
Foreldrar og börn geta alltaf leitað sjálf til tengiliðar í nærumhverfi barnsins og óskað eftir samþættri þjónustu. Tengiliðir í Grenivíkurskóla eru:
Þorgeir Rúnar Finnsson - skólastjóri - thorgeir@grenivikurskoli.is
Guðrún Árnadóttir - fagstjóri stuðningskennslu - gunna@grenivikurskoli.is
Á heimasíðunni Farsæld barna má kynna sér þessa nýju löggjöf betur og á heimasíðu skólans er einnig að finna upplýsingar.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "vinalegi febrúar". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Frekari upplýsingar og hugmyndir að ýmsum verkefnum má finna á hér.
Myndir úr skólastarfinu
Matseðill
Á döfinni í febrúar
- 1. febrúar: Leiksýning nemenda í leiklistarvali.
- 6. febrúar: Dagur leikskólans.
- 7. febrúar: Dagur tónlistarskólans.
- 11. febrúar: Dagur íslenska táknmálsins.
- 12. febrúar: Bolludagur. Starfsdagur - frí hjá nemendum.
- 13. febrúar: Sprengidagur. Viðtalsdagur.
- 14. febrúar: Öskudagur. Vetrarfrí.
- 15. febrúar: Vetrarfrí.
- 16. febrúar: Vetrarfrí.
- 25. febrúar: Konudagur - upphaf Góu.
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli