Fréttabréf júní
6. tbl 15 árg. 1. júní 2024
Kæra skólasamfélag
Við viljum þakka nemendum, starfsfólki, foreldrum og forráðamönnum og öllum velunnurum skólans kærlega fyrir samstarfið í vetur.
Síðustu vikur hafa einkennst af því að nemendur eru búnir að vera á ferð og flugi og notið meiri útiveru en á hefbundum skóladögum. Þau tóku þátt í Unicef hlaupinu sem fór fram í Naustaborgum og lék veðrið við okkur þann dag. Þau fóru á golfvöllinn að æfa sig í að slá með járnum og driver, - 7. bekkur tók þátt í þríþrautarmóti og 10.bekkur fór í skólaferðalagið sitt svo eitthvað sé nefnt. Nemendur í 10.bekk skipulögðu síðan skemmtun fyrir nemendur á yngsta- og miðstigi sem var vel sótt og óhætt að segja að yngra fólkið hafi verið ánægt, að lokum hélt 10.bekkur sitt árshátíðarball 30. maí sem heppnaðist vel. Eins og oft áður bauð foreldrafélagið upp á ís í brauði sem nemendur kunnu vel að meta. Einnig hefur foreldrafélagið fært skólanum leikföng, spil og fleira til afþreyingar fyrir börnin og þökkum við fyrir þær gjafir. Útlit er svo fyrir að veðrið verði ekki með okkur í liði síðustu skóladaganna á þessu skólaári þannig að vordagarnir verða með öðru sniði en venja er.
Tilfinningaleg heilsa og vellíðan barna og unglinga leggur grunn að velferð þeirra í lífinu. Við sem störfum með börnum vitum þessi sannindi. Í Naustaskóla leggjum við okkur fram um að gera það sem í okkar valdi er til styðja nemendur okkar og mæta þeim á þeirra forsendum. Nú í vor útskrifum við 47 nemendur og kveðjum þar með frábæran hóp nemenda. Við þökkum þeim og foreldrum fyrir samfylgdina í gegnum árin og óskum þeim velfarnaðar í leik og starfi í framtíðinni. Það er alltaf með dálitlum trega sem við kveðjum en um leið fögnum við því að sjá á eftir ungu fólki taka næstu skref til tækifæra í sínu lífi. Það er ekki óeðlilegt að þau sjálf og jafnvel foreldrar finni fyrir óöryggi með hvað bíði þeirra á nýjum slóðum, með nýju fólki, en reynslan hefur sýnt okkur að það mun allt ganga vel.
Nokkrir af starfsmönnum okkar hverfa einnig á braut eftir þetta skólaár í önnur verkefni og óskum við þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi, í þeirra stað kemur nýtt fólk og má segja að öll teymi séu fullmönnuð.
Að lokum kæru foreldrar viljum biðja ykkur um að fylgjast með leik barnanna á leikvelli skólans í sumar og leiðbeina þeim á jákvæðan hátt geri þau mistök í samskiptum við önnur börn. Við fullorðna fólkið erum fyrirmyndir barnanna okkar bæði í leik og starf.
Við óskum ykkur öllum gleðilegs sumars og hlökkum til að hitta ykkur á nýjan leik í haust, tilbúin í ný verkefni á nýju skólaári.
Stjórnendur og starfsfólk Naustaskóla
Skólapúlsinn
Skólapúlsinn er eitt af mikilvægu mælitækjum sem skólinn hefur til að mæla skólastarfið og hvað betur má fara. Það ánægjulegt að sjá í nemendakönnnun sem nær yfir allt skólaárið og allir nemendur í 6. 10. bekk svara að nemendum líður alla jafna vel í Naustaskóla og eru svör þeirra oftast yfir landsmeðaltal.
Jákvætt samband nemenda við kennara er einn af mikilvægum þáttum í uppbyggingu á góðum skóla- og bekkjaranda. Samkvæmt niðurstöðum í nemendakönnun sína niðurstöður að Naustaskóli er langt fyrir ofan meðatal hvernig nemendur upplifa samband sitt við kennara. En vitað er að sá þáttur hefur mikil áhrif á hvernig börnum líður og vegnar í skólanum. Þættir sem falla undir líðan og heilsu t.d. trú á eigin námsgetu, þrautseigja, ánægja af lestri, stjórn á eigin lífi, sjálfsálit eru fyrir ofan meðaltal sem er mjög jákvætt. Þá kemur fram að tíðni einelti er fyrir neðan landsmeðaltal.
Í foreldrarkönnun kemur fram að foreldrar eru langoftast mjög jákvæðir gagnvart skólanum og því starfi sem þar er unnið. Foreldrar sem segja barnið hafa orðið fyrir einelti eru spurðir hvernig þeim fannst tekið á eineltinu af hálfu skólans. Það er ánægjulegt að sjá að ánægja foreldra í Naustaskóla með úrvinnslu skólans á eineltismálum er langt fyrir ofan landsmeðaltal. Í matsþáttum sem falla undir samstarf við foreldra kemur fram að foreldrar upplifa að frumkvæði skólans og kennara að foreldrasamstarfi megi vera betra og er þar tækifæri til umbóta.
Áfram verður unnið að því að gera góðan skóla enn betri í góðu samstarfi milli heimila og skóla.
Sjá má niðurstöður þessara kannana á heimasíðu skólans.
Símareglur
Foreldrar hafa fengið upplýsingar um breyttar símareglur sem munu taka gildi í ágúst. En eins og flestum á að vera kunnugt þá var settur á laggirnar samráðshópur um gerð sameiginlegra símareglna fyrir grunnskólana á Akureyri. Þrátt fyrir að í skólanum hafi um langan tíma verið símareglur þá eru í þessum nýjum reglum breytingar sem við viljum biðja ykkur að kynna ykkur vel og fara yfir með börnunum ykkar. Við munum svo hjálpast að við að láta þetta ganga vel. Hér má sjá nýjar reglur
Skólaslit fimmtudaginn 6. júní
Hér fyrir neðan er skipulag skólaslitadags:
Kl. 09:00 mæta nemendur 1.,3., 5., 7. og 9.bekkjar á sal skólans og fara síðan inn á sín svæði.
Kl. 11:00 mæta nemendur 2., 4., 6. og 8.bekkjar á sal skólans og fara síðan inn á sín svæði.
Foreldrar/forráðamenn eru velkomnir á skólaslit.
• Frístund er lokuð á skólaslitadaginn.
Útskrift 10.bekkjar fer fram á sal skólans kl. 15:00 – að henni lokinni er kaffihlaðborð fyrir 10.bekk og aðstandendur auk starfsfólks. Kaffiboðið er í boði foreldra 9. bekkjar en þessi skemmtilega hefð hefur skapast í Naustaskóla og munu 9.bekkingar njóta þess þegar röðin kemur að þeim að útskrifast
Skólasetning - 22. ágúst.
Skólasetning verður 22. ágúst og munu upplýsingar koma fram á heimasíðu skólans þegar að því kemur.
Við viljum hvetja foreldra sem eru að huga að fríi á næsta skólaári að skoða vel skóladagatalið með það í huga að reyna nota þá frídaga sem eru til staðar samkvæmt skóladagatali svo barnið missi sem minnst úr skóla. Það getur komið niður á börnum námslega og félagslega ef þau eru mikið frá skóla. Hér má sjá skóaldagatal 2024 - 2025
Hér má sjá bækling fyrir þau sem eru að byrja í grunnskóla.
Frístund er opin á skólasetningardaginn.
Öruggt og hinseginvænt skólaumhverfi í grunnskólum á landsbyggðinni.
Í vetur var gerð könnun um hinsegin lífsgæði og hefur aðeins verið fjallað um þær niðurstöður. Áfram verður unnið að því í Naustaskóla að öll börn geti upplifað sig örugg í skólanum og þau séu velkomin. Hinsegin er Regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk. Orðið hinsegin hefur verið talið of breitt til þess að setja í stefnur en orðið er víðast hvar notað og nær mengið hinsegin þá utan um þau hugtök sem falla undir gildissvið laganna: kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu.
Í könnuninni kom fram þar sem spurt var um Orðbundin - og líkamleg áreitni að
- Næstum þriðjungur nemenda (32.2%) höfðu verið áreitt munnlega vegna kynhneigðar sinnar.
- Fjórðungur hinsegin nemenda (25,9%) voru áreitt munnlega vegna kyntjáningar sinnar.
- 12,6% hinsegin nemenda höfðu verið áreitt líkamlega vegna kynhneigðar sinnar.
- 6,2% höfðu verið áreitt líkamlega vegna kyngervis og 5,3% vegna kyntjáningar sinnar.
- 4,6% höfðu orðið fyrir líkamsárás í skólanum síðasta skólaár vegna einhverra persónueinkenna.
- 3,4% hinsegin nemenda urðu fyrir árásum vegna kyntjáningar sinna.
Í mannréttindastefnu Akureyrar má sjá skilgreiningu á ýmsum hugtökum sem við í skólaumhverfinu vinnum með alla daga. Lýðræðislegt samfélag byggir á því að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda.
Á undanförnum dögum hafa nemendur ásamt list- og verkgreinakennurum látið til sín taka úti á skólalóð og er markmiðið að halda áfram að gera umhverfið meira litríkt og koma því betur á framfæri að við fögnum fjölbreytileikanum.